Aufúsugestir í Eyrarvegi
EYRARPÚKINN - 73
Kalli frændi var ekki við eina fjölina felldur í ástarmálum enda ásjálegur maður þó ekki væri hann eins kinnbeinabreiður og Sveinn Árnason.
Ungur fór Kalli út í Fell og var þar heimagangur hláturmilds systkinahóps á einu mesta myndarbúi Vopnafjarðar þegar störfin þörfu voru innt af mörgum höndum og hrífurnar hæstmóðins.
En Kalli veiktist af berklum og fór norður á Kristneshæli og þaðan suður í Reykjalund til lækninga og bjó þar lengi sem starfsmaður að hjúkrun lokinni og átti þátt í bernsku plastleikfanga.
Þrátt fyrir heilsubrest hugði Kalli á búskap uppi á Hraunfelli með vopnfirskum kvenkosti og var kominn með viðbúnað á Tanga þegar hann varð frá að hverfa vanheilsunnar vegna.
Fyrir sunnan var Kalli við ýmsar konur kenndur og komu sumar þeirra norður og austur en ég man bara rauðar varir Snjólaugar á hvítri kápu og vonuðumst við til að Karl festi ráð sitt.
Kalli sat á eldhúsbekknum eins og Siggi Þórarins og Steini frá Teigi og þó hann væri einna raunalegastur á svip Hraunfellsbræðra birti til með brosi og hlátrum.
Borgarblær fylgdi Kalla og Reykjavíkurdætrum þó Skódinn rauði skákaði ekki Volvó Dúett Jóns og Grétu með eikarlistum á fjólurauðu lakki svo marglega að skjáir Eyrarpúka hurfu í það sem grængolandi Hofsárhyl.
Gréta endurmálaði altaristöflur af sænskri kúnst á meðan Jón gerði við grátur og önnur timbur guðshúsa og máluðu hjónin Skeggjastaðakirkju á samhentri yfirreið sinni um landið.
Gréta söng íslenskuna stuttklippt og silfurhærð á eldhúsbekknum en Jón sentist fírugur um með brillur á nefbroddi og sjaldan hlegið eins dátt í Eyrarvegi.
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
- Á sunnudögum síðustu misseri hefur akureyri.net birt kafla úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki Jóhanns Árelíuzar sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003. Aufúsugestir í Eyrarvegi er kafli úr bókinni Sveskjur í sólarlaginu, síðari bók Jóhanns um Eyrarpúkann en þar segir einkum frá dvöl drengsins á æskuslóðum föður hans í Vopnafirði. Bókin kom út 2010.
Lausnin 6/7
Sópaði Strákunum okkar út á fimm sekúndum
Lausnin 5/7
Lausnin 4/7