Grímsey: Ekki siglt með farþega í nokkrar vikur
Grímseyjarferjan Sæfari fer í slipp að morgni 6. október, og gert er ráð fyrir að hún verði þar út mánuðinn. Á meðan Sæfari er í slipp verða engar farþegasiglingar milli Dalvíkur og Grímseyjar en Þorleifur EA 88 mun sigla með farm sömu daga og ferjan hefði annars farið.
Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar í dag.
„Farþegar þurfa að nýta flugferðir á meðan á fjarveru Sæfara stendur. Flugáætlunin helst óbreytt í október og verða áfram þrjár ferðir í viku – á þriðjudögum, föstudögum og sunnudögum,“ segir í tilkynningu á vef bæjarins.
„Viðhaldi á Sæfara verður skipt í tvennt, til að lágmarka truflun á samgöngum. Þessi fyrri slippur fer fram nú í október, en önnur, styttri viðhaldslota er fyrirhuguð eftir áramót. Þá verður ferjan ekki dregin á þurrt, heldur verður unnið við hana við bryggju og meðal annars verður nýr krani settur um borð.“
Hvalastrandið
Þið kannist við jólaköttinn ...
Um nöfn og flokkunarkerfi. Seinni hluti
Hreyfing hreyfingarinnar vegna