EYRARPÚKINN - 74
Það ljómaði af jólum og öðrum hátíðarstundum þegar móðir mín sagði mér af baðstofulífinu forðum enda var henni gjarnt að snerta gleðinnar streng en vöknaði um augu þegar vökustaurar bárust í tal.
Vökustaurar voru pinnar eða bútar úr tré sem stungið var á milli augnloka barna og gamalmenna svo þau sofnuðu ekki yfir vinnu sinni því brýnt var að leggja sem mest inn af prjónalesi hjá kaupmanni fyrir jólin.
Ég sá vinnufólkið í anda úrvinda af svefnleysi og sárkenndi í brjósti um það í svartasta skammdeginu.
Ég reyndi aðferðina með eldspýtnabrot augnloka á milli og stóð ekki á sárindum.
Stundum duttu mér vökustaurarnir í hug þegar ég skoðaði jólasveina Tryggva Magnússonar við ljóð Jóhannesar úr Kötlum.
Það voru svo margir til að hrekkja sauðsvartan almúgann, húsráðendur, jólasveinar, draugar og forynjur að ógleymdu árferðinu.
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
- Á sunnudögum síðustu misseri hefur akureyri.net birt kafla úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki Jóhanns Árelíuzar sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003. Vökustaurar er kafli úr bókinni Sveskjur í sólarlaginu, síðari bók Jóhanns um Eyrarpúkann en þar segir einkum frá dvöl drengsins á æskuslóðum föður hans í Vopnafirði. Bókin kom út 2010.