ʻŌhiʻa Lehua
TRÉ VIKUNNAR - 148
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Upphaf eyjanna
Eyjarnar sem mynda Hawaii urðu til við neðansjávareldgos yfir svokölluðum heitum reit eins og er undir Íslandi en eyjarnar eru ekki á flekaskilum eins og Ísland. Eyjarnar urðu að mestu til fyrir um 30 milljón árum og þar til fyrir um hálfri milljón ára. Eldvirknin hefur síðan haldið áfram að móta eyjarnar og bæta við þær um leið og sjórinn brýtur þær niður. Það hljómar kunnuglega í eyrum Íslendinga. Vitanlega voru eyjarnar alveg lausar við gróður þegar þær risu úr sæ órafjarri öðrum löndum. Smám saman bárust plöntur til eyjanna, væntanlega mest með fuglum. Hægt og rólega varð til einstakt lífríki með fjölmörgum einlendum tegundum plantna og dýra sem lengst af þróuðust án afskipta manna. Fjölbreytni gróðurs jókst svo til muna þegar landnám Pólynesa hófst fyrir um 1.000 árum að því að talið er. Evrópumenn komu svo seint á 18. öld og líkt og frumbyggjarnir þá fluttu þeir með sér bæði dýr og plöntur. Síðan hefur verið deilt um hvort aukinn fjöldi dýra og plantna merki meiri eða minni líffjölbreytni. Um þessar breytingar má lesa í þessari fréttaskýringu frá BBC.
Lýsing
ʻŌhiʻa lehua er óviðjananlega fallegt þegar það er í blóma. Utan þess tíma er það fyrst og fremst fjölbreytt. Þeir Hodel & Weissich (2012) segja að tréð sé líklegast vinsælasta innlenda tréð á Hawaii. Ef til vill skipar það svipaðan sess í huga eyjaskeggja og birkið gerir hér á landi. Báðar tegundirnar eru fjölbreyttar í útliti, algengasta tréð og vinsælt meðal almennings.
Börkurinn á þessari tegund er ákaflega misjafn á milli einstaklinga. Hann getur verið sléttur eða margsprunginn og allt þar á milli. Hann er stundum ljós, nánast gráhvítur, stundum í alls konar brúnum tónum og jafnvel mjög dökkur. Hann getur einnig breyst með aldri trjánna.
Trén verða að jafnaði 20 - 24 m á hæð er þau vaxa í dæmigerðum skógum eyjanna en verða miklu lægri ef þau vaxa stök eða á beru hrauni eða í mýrlendi (Friday & Herbert 2006).

Lauf
Laufin á ʻōhiʻa lehua eru gagnstæð á greinunum en geta verið nokkuð misjöfn að lögun. Laufin eru fagurgræn á litinn en þegar þau birtast eru þau mikið hærð. Hárin eru rauðgrá á litinn, þannig að ný blöð eru rauðleit eða rauðgul á litinn. Það eldist af þeim flestum er laufin vaxa. Til að auka á fjölbreytnina halda laufin á sumum trjánna áfram að vera mikið hærð er þau vaxa en á öðrum verða þau hárlaus með öllu. Sum lauf verða fremur þykk. Önnur tré hafa mun þynnri lauf sem tapa öllum sínum hárum og verða glansandi græn.
Vel kann að vera að vaxtarstaðir eða aðrir umhverfisþættir hafi áhrif á hvernig laufin líta út en þeir Clapp & Crowson (2025) segja að það liggi ekki fyrir. Síðar í þessum pistli segjum við frá því að til eru að minnsta kosti átta skilgreind afbrigði eða undirtegundir af þessari tegund sem eru á ýmsan hátt ólík. Meðal einkenna sem ákveðin afbrigði hafa eru mismunandi lauf. Laufin vaxa oftast utarlega á greinunum en yst á þeim birtist höfuðdjásn þessara trjáa. Um þau fjöllum við í næsta kafla.


Blóm
Mesta skraut þessara trjáa eru blómin. Þau myndast alveg yst á greinunum og eru einstaklega glæsileg. Þau vaxa mörg saman í þéttum sveipum og vaxa svo þétt að fljótt á litið mætti ætla að um sé að ræða eitt, stórt blóm, en svo er ekki. Saman mynda mörg blóm glæsilega heild sem lítur út fyrir að vera eitt blóm. Upp úr hrúgunni vaxa áberandi fræflar svo opin blóm minna einna helst á sæfífla. Fræflarnir verða um einn - þrír cm langir. Orðið lehua (seinni helmingur nafnsins ʻōhiʻa lehua) vísar í þessa fræfla sem eiga að minna á hár. Gyðja með sama nafni hafði óviðjafnanlega fallegt hár og eiga blómin að líkjast því.
Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn
Runnkennt elri til landgræðslu - Seinni hluti: Tegundir
Hreyfing – þegar gæði skipta meira máli en magn
Þekking
Lausnin 7/7