Fara í efni
Pistlar

Þúfnaganga

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 26

Pabbi var kloflangur eins og hann átti kyn til. En þar fyrir utan var þúfnaganga honum í blóð borin. Enda var hann alinn upp á deigum engjunum í Melavíkinni á Ströndum norður sem voru ekki framræstar fyrr en svo löngu seinna. Og því voru þústirnar til staðar út um alla flákana á meðan bein hans voru að bæta við sig kalki og kroppurinn að styrkjast.

Það átti því fyrir föður mínum að liggja að labba hratt um ævina, með dúandann í hnjánum svo hvert einasta spor í skrefinu, spratt svo að segja upp af slóðanum.

Hann vílaði ekki fyrir sér vegalengdir. Og hafði aldrei gert. Þeir bræður af Melum fóru fótgangandi á milli heimilis og skóla, jafnt um jól og páska, en það var liðlega tvöhundruð kílómetra spölur á milli Víkursveitarinnar í norðri í Reykjaskólann suður í Hrútafirði. Og þótti þokkaleg þriggja daga ganga, nema ófærð gerði, og þá heldur tafsamari.

En þetta var í ættinni. Og tilheyrði tíðarandanum. Pabbi þeirra hafði líka gengið til náms, alla leiðina á Hvanneyri í Borgarfirði, en það tók gott betur en tvöfalt fleiri dægur. Og þótti þó ekkert afrek. Fólk rölti þetta. Af vana þess tíma.

Svo einkabíllinn var ekki mikið notaður, svona hvunndags, í mínu ungdæmi, því karlinn var vanur að fara þetta á fótunum. Frá heimili í vinnu. Af Brekkunni og ofan í bæ. Á kontórinn. En hann gæti nú gengið þetta. Annað væri það nú.

Og kemur þá til sagan af samstarfsfélaga hans, nýráðnum, sem bjó líka í efri byggðum bæjarins, en honum hugkvæmdist að verða samferða pabba í hádegismatinn á fyrstu vikunum sem þeir deildu vinnustað. En allir fóru þá heim í húskostinn. Það voru engin mötuneyti til. Enda síðari tíma uppfinning.

En það segir af vininum að hann gafst upp á samferðinni. Það væri ekki nokkur vegur að hafa í við Strandamanninn. Hann æddi um bæinn eins og byssuskot.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: FIMMTUDAGSKVÖLD

Maðurinn sem aldrei svaf

Orri Páll Ormarsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 20:00

Sumarfrí mikilvæg heilsubót

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. júní 2024 | kl. 14:00

Fágætur heggur: Næfurheggur

Sigurður Arnarson skrifar
12. júní 2024 | kl. 10:00

Gervigreind: Ekki lengur vísindaskáldskapur

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Áhugi minn á gervigreind: Frá slökkviliði til Oxford

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Frystigeymslan

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:30