Fara í efni
Pistlar

Númer

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 94

Man gamla símanúmerið í Gilsbakkavegi. Það var 1613. Tölurnar eru greyptar í minni mitt. Það var fengið að láni frá fyrri eigendunum á neðri hæðinni, þeim Aðalsteini og Þórdísi, en karlinn sá arna var bæjarverkstjóri og varð að vera tengdur, og fékk í fyrstu númerið 613 þegar gamli bæjarsíminn kom til sögunnar.

Svo fluttu þau hjónin, og afi og amma á efri hæðinni fengu númerið í sömu mund, og gátu því keypt sér síma. Það var vorið 1957 og gott ef það var ekki álitið vera upphaf nútímans á Neðri-Brekkunni. Í öllu falli man Jón frændi, sá mildi móðurbróðir, ekki betur en svo að heimili hans hafi allt í einu orðið að símstöð hverfisins. Því nágrannarnir fengu aðgang, eins og það var kallað. Og ef mikið lá að mátti hringja í þennan eina síma og sækja svarendur í næstu hús.

Þorsteinn og Helga, nýir eigendur á neðri hæðinni, höfðu svona aðgang – og sömu sögu er að segja af Ragnari og Sigríði í Oddagötunni og öllum þeirra tíu börnum, en ef það þurfti nauðsynlega ná í þau símleiðis var hringt í afa og ömmu í Gilsbakkavegi, og svo skottaðist Jón frændi yfir sundið og sagði að síminn væri til þeirra. Þá komu þau um leið, forvitnin uppmáluð. Eðlilega.

Svona var þetta. Fáir símar, en samfélagið reddaði sér.

Uppi á Syðri-Brekkunni fengum við númerið 23441, en þá var búið að bæta einum staf við rununa, af því að æ fleiri bæjarbúar voru að eignast svona græjur.

En svo lærði maður allar tölurnar upp á punkt og prik. Engin símanúmer voru svo flókin og torræð að þau settust ekki að í sæluhúsi huga manns, og maður gat þulið þau upp í runum, ef því var að skipta, en væri maður spurður, stóð númerið fremst á tungu manns, frá einum staf til annars.

Eins var með bílnúmerin, mikil ósköp. Þau lærði maður öllsömul. Bæinn á enda.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: 50 KALL

Sól um hádegisbil

Jóhann Árelíuz skrifar
24. ágúst 2025 | kl. 06:00

Orkuveita heilans

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
23. ágúst 2025 | kl. 11:45

Þessi þjóð er óð í gróða

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
23. ágúst 2025 | kl. 06:00

Og Ian Rush verður að skora!

Orri Páll Ormarsson skrifar
22. ágúst 2025 | kl. 09:00

Bergfuran við Aðalstræti 44

Sigurður Arnarson skrifar
20. ágúst 2025 | kl. 23:00

Eyrarland, gamla íbúðarhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
19. ágúst 2025 | kl. 10:00