Fara í efni
Pistlar

Skykkjur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 91

Það var engu hent á heimilum okkar, hvort heldur það var niðri í Gilsbakkavegi eða uppi í Helgamagrastræti hjá öfum mínum og ömmum, eða frammi á Syðri-Brekkunni þar sem mamma og pabbi voru að ala okkur systkinum önn.

En áralöng þráhyggja af því tagi gat náttúrlega reynt á strák sem farinn var að standa úr hnefa undir síðasta hluta sjöunda áratugarins. Veldur þar mestu að afi Sigmundur sá ekki betur en að nafni hans væri alltaf sama smábarnið, þótt ótt og títt yxu bein og vöðvar, og talsvert tognaði úr stráknum, eins og vaninn er.

Alltaf var samt andlitið á karlinum uppljómað – og skipti litlu hvað ég var orðinn gamall – þegar hann kom með niðurklippta hveitipokana til að færa gaurnum sínum að gjöf, en þar væri komin skykkja ævintýramennskunnar sem hann tyllti si sona með þvottaklemmum á axlirnar á mér, og svo mætti ég hlaupa, svo út af stæðu vængirnir, þess alls líklegir að lyfta mér til lofta himins.

Þetta var honum lífsfylling, að gleðja sonarsoninn, sýna honum inn í allar gáttir ímyndunaraflsins, en vandinn var aftur á móti sá að afabarnið var að verða full til gamalt fyrir svona leiki, komið vel á leið í Barnaskóla Íslands, og sá fyrir sér frama í Gagnfræðaskólanum sem stóð enn þá ofar á iðjagrænni Brekkunni.

En það var ekki til siðs að ögra afa sínum. Svo maður lét sig hafa það, fast að tíu ára aldri, en þá klemmdi hann enn þá léreftspokana á axlirnar og skríkti hvað mest hann mátti þegar sonarsonurinn endasentist um alla ganga og stofur með skykkjuna aftur af baki til að geðjast gefandanum.

Sjálfur vissi hann ekki betur. Og vel að merkja, hann var kominn af þeirri kynslóð sem bjó til leiki sína úr svo til engu. En fyrir honum var aflóga hveitipoki á við leikbúning sem hann hefði oaldrei farið á mis við.

Ég lét mig því hafa það, lengi fram eftir aldri, að taka skrensinn fyrir afa.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SANA

Gróðurhússbruninn

Jóhann Árelíuz skrifar
03. ágúst 2025 | kl. 06:00

Þessi þjóð er á tali

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
02. ágúst 2025 | kl. 06:00

Ótilhlýðileg framkoma í eitruðu starfsumhverfi

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
01. ágúst 2025 | kl. 09:30

Einkennisbarrtré suðurhvelsins

Sigurður Arnarson skrifar
30. júlí 2025 | kl. 09:00

Atlavík

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. júlí 2025 | kl. 11:30

Timburmenn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
27. júlí 2025 | kl. 06:00