Fara í efni
Pistlar

Sana

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 92

Fátt fannst okkur akureysku krökkunum vera meira erlendis í æsku okkar en verksmiðjan sem kennd var við Sana á norðanverðum Gleráreyrum, en þar var bruggað allra handa límonaði sem lék við tungu manns og munn.

Hétu þar Mix og Jolly Cola, en líka vandlega blandað Vallash, sá dásamlegi dámur, að ógleymdu Morg­an Cream Soda sem þótti allra göróttasti lögurinn af því öllu saman, en hald sumra karla við innanverðan Eyjafjörð var að hægt væri að verða pínulítið puntaður ef nógu mörgum Morganflöskum væri torgað á tilsettum tíma. En það endaði víst allt saman í uppþembu og ógurlegum fretum hjá flestum þeirra, að sagt var, og mun þar engu logið um allan þann atverknað.

En því er minnst á Sana að steinsnar austan við iðjuverið það arna var lengi vel samnefndur knattspyrnuvöllur Akureyringa, að sönnu malarvöllur, og raunar svo gljúpur í langvarandi vorleysingjunum að menn óðu þar elginn upp á legg, og þótti áferð knattspyrnunnar vera eftir því langdregin og tafsöm. Það var varla að sparkendur kæmust úr sporunum, því jafn harðan og önnur löppin var dregin upp úr drullunni sat hin eftir í forinni, föst með öllu – og hélt aftur af þeim æskilega hraða leiksins sem honum hafði upphaflega verið ætlaður.

En á Sanavellinum var allt seinlegt. Og sóknir gátu dregist svo mjög á langinn að seinþreyttir áhorfendur sáu ekki annað vænna en að leita skjóls í bílum sínum á stæðunum hjá ÚA á meðan leikmennirnir hefðu það upp að endimörkunum.

Sjálfur æfði ég þarna um árabil. Gott ef ekki undir vaskri stjórn þeirra Einars Helgasonar og Kára Árnasonar, svo einhver var nú tilsögnin, en líklega hafa aðstæður ásamt stopulli mætingu haft þar eitthvað að segja um frammistöðu kauða, svo ekki sé nú minnst á mátulegan gáfnaskort í fótafaginu.

En Sana lifir í huganum. Og svellkalt Vallash framar öllu öðru.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: STRANDIR

Saga elris

Sigurður Arnarson skrifar
01. október 2025 | kl. 10:00

Fretur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
29. september 2025 | kl. 11:30

Ytri-Tjarnir, gamla íbúðarhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. september 2025 | kl. 09:00

Gulrótnastuldurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
28. september 2025 | kl. 06:00

Framhleypnir og digurmæltir

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
27. september 2025 | kl. 06:00

Haust- og vetrarundirbúningur trjáa

Sigurður Arnarson skrifar
24. september 2025 | kl. 07:30