Fara í efni
Pistlar

Strandir

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 93

Það leið ekkert sumar öðruvísi en svo að ekið væri norður á Strandir, eins og það var jafnan kallað, enda þótt þær ættu að heita vestanmegin á landinu.

En norður var keyrt, eftir einbreiðum malarstígum, sem voru svo krókóttir inn með fjörðum og víkum að farþegar máttu hafa sig alla við svo þeir hrykkju ekki af bríkinni í aftursætinu. Gott ef mamma átti ekki líka í stökustu vandræðum með að reykja í framsætinu, svo erfiðlega sem rettan rataði á vör.

Oftast punkteraði undir Balafjöllum þar sem vegurinn var verstur. Og þá var að biðja til guðs um að ekkert hryndi úr lóðbeinu berginu sem hékk yfir slóðanum eins og tröllslegur sláni. Og stundum kaus mamma að labba drjúgan spölinn yfir í Kaldbaksvík, heldur en að sitja sjávarmegin í bílnum, með þverhnípið allt við öxlina, jafn tæpt og það nú var að bæði framdekkin kæmust fyrir á syllunni.

En allt hafðist þetta ef Veiðileysuhálsinn var fær og búið var að ræsa fram úr Kjörvogshlíðinni, en þá tók pabbi hraustlega um stýrið svo vínkilbeygjan út á Reykjanesið tækist – og blasti þá smám saman Trékyllisvíkin við í öllum sínum galdri, sú glæsta geymd og áttleifð, svo andvarp unaðar fór um fólksbílinn.

Mundi á Melum tók á móti mannskapnum í bæjarhlaðinu, afabróðirinn sjálfur, á meðan frú Ragnheiður var vísast að hafa til baksturinn inni í kokkhúsi, og það tók dagspart fyrir frændfólkið að faðmast, afa Sigmund og Sigrúnu ömmu, soninn Rúnar og Helgu tengdadóttur, og svo við litlu systkinin, ef okkur skyldi kalla, en það var jafnan nokkurt undrunarefni hvað margir komust fyrir í bifreiðinni A 1679, svo vandlega sem staflað hafði verið á bekkina.

Svo liðu sæluríkir sumardagar við að smíða sér fleka úr rekavið í fjöru, uns haldið var aftur heim með selshreifa og annað súrt í maga, og höfuðin full af örlögum ættfólks við ysta haf sem komst flest hvert á legg, og margt til manns.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: NÚMER

Í hita leiksins

Jóhann Árelíuz skrifar
17. ágúst 2025 | kl. 14:00

Steinvalan í öldugangi Öskjuvatns

Rakel Hinriksdóttir skrifar
17. ágúst 2025 | kl. 12:00

Gervisáli

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 18:00

Á fjöllum erum við öll í sama liði

Rakel Hinriksdóttir skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 14:00

Þessi þjóð er hrædd við útlendinga

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 06:00

Þokaðu úr lokunni, aðeins andartak

Rakel Hinriksdóttir skrifar
15. ágúst 2025 | kl. 06:00