Fara í efni
Pistlar

Reiði

Fræðsla til forvarna - XXXVI

Reiði er sterk mannleg tilfinning sem einkennist af andúð og mótstöðu gegn mótlæti eða rangindum. Reiðin getur verið gagnleg og jafnvel lífsnauðsynleg til þess að tjá tilfinningar og skoðanir eða til mótmæla. Þá beinist hún að einhverjum eða einhverju, er skiljanleg og gefur afl til koma af stað breytingu og finna lausn á vanda. En reiðin er gagnslaus eða neikvæð ef hún fer úr böndum, maður missir stjórn og hún beinist að öllum eða öðrum en eiga það skilið.

Rannsóknir sýna að óbeisluð reiði hefur ekki aðeins neikvæð áhrif á samskipti heldur einnig á andlega, líkamlega og félagslega heilsu. Óbeisluð langvinn reiði vinnur gegn lausnamiðun, skynsemi og réttlæti.
 
Sakleysislegir atburðir geta triggerað innibyrgða reiði vegna löngu liðinna atburða og stundum getur reiðin orðið svo stjórnlaus og sterk að mann langar til að skaða og skemma.
 
Þegar þeir sem ekki hafa lært að stjórna sterkum tilfinningum upplifa óréttlæti og ósanngjarnt mótlæti sefast þeir ekki og reiðin magnast upp. Þeir snöggreiðast oft eða eru sífellt reiðir og þeir leita til annarra í sömu stöðu og úr verður óskipulögð samstaða um reiði sem oft beinist annað en raunhæft er. Ættingjar verða reiðir lækninum sem ekki gat læknað sjúkdóm barnsins, sem er þó ólæknandi. Þjálfarar eru auðvelt skotmark fyrir reiði ef illa gengu í leiknum. Sá sem eftir situr er reiður hinum látna. Ríkisstjórnin á örugglega ekki skilið alla reiðipistlana sem skrifaðir eru Facebook. Og stundum er maður einfaldlega reiður sjálfum sér. Þannig er reiði hluti af sorgarviðbrögðum og vanmáttarkennd.
 
Reiði margra í samfélaginu getur verið smitandi þegar mótlæti er mikið, fjárhagslegir erfiðleikar og mikil misskipting lífsgæða. Undirtónn reiði truflar hamingju og ýtir undir ofbeldi. Öll neysla vímuefna, ekki minnst áfengis truflar reiðistjórn.
 
Hér eru 10 ráð til bættrar reiðistjórnunar (fengin að láni og þýdd frá mayoclinic.org)
 
  1. Hugsaðu áður en þú talar.
  2. Þegar þú hefur róað þig, segðu þá skoðun þína.
  3. Æfðu þig í reiðistjórn með hreyfingu og slökun eða bæn.
  4. Taktu daghvild (e. Timeout)
  5. Finndu lausnir í stað þess að gagnrýna allt og alla.
  6. Hafðu yfirlýsingar í 1. persónu. Segðu t.d. : Ég verð fyrir vonbrigðum þegar þú setur ekki í uppþvottavélina í stað þess að öskra: Þú gerir aldrei neitt á heimilinu.
  7. Fyrirgefning er betri en langrækni.
  8. Snúðu þessu upp í grín til að minnka dramað.
  9. Æfðu slökun og finndu betri aðferðir til að hvílast og endurnæra þig.
  10. Merki um að maður ætti að leita sér aðstoðar:
  • Þegar maður er sífellt að særa aðra.
  • Þegar allir aðrir eru orðnir hálfvitar, hvort sem það er í umferðinni eða í samskiptum.
  • Erfiðara er að leysa mál og tilfinning um að sitja fastur.
  • Áfengisnotkun er aukin og jafnvel aðeins yfir strikið.
  • Gæðastundunum fækkar.
  • Lestu ráðin aftur, þau verða þér til gagns ef þú íhugar þau gaumgæfilega.
Gangi þér vel
 
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir
 
Örsaga: Viltu vera langreiður?
 
Jón er löngu búinn að fá leið á vinnunni og þar er mikið álag, skipulagsbreytingar ganga illa og samskiptaerfiðleikar eru algengir. Blóðþrýstingurinn hefur mælst hækkaður hjá honum og Jón er sífellt þreyttur og sefur illa þrátt fyrir að hann fái sér tvo til þrjá bjóra á hverju kvöldi til að róa sig. Anna, konan hans er sífellt suðandi og unglingarnir forðast hann. Hann hefur eiginlega engan til að tala við lengur nema Geir vin sinn. Þeir sitja oft lengi á kvöldin í bílskúrnum hjá Geir en hann er búinn að kom sér þar upp ágætri aðstöðu til að brugga. Þeir ræða mikið stjórnmál, ætluðu sér reyndar báðir framgang á því sviði þegar þeir voru í menntaskóla og voru býsna virkir í stúdentapólitíkinni. Nú finnst þeim flestir stjórnmálamenn vera vangefnir hálfvitar.
 
Fyrir nokkrum vikum lést faðir Jóns. Hann var orðinn háaldraður og út úr heiminum. Þegar Jón og bræður hans voru að undirbúa útförina hittu þeir séra Jens, prestinn gamla sem hafði fermt þá alla. Í lok eins fundarins sátu þeir eftir tveir. Þá spurði Jens gamli: Jón minn. Þú ert í fínni vinnu, átt góða konu og dugleg börn. Hvers vegna ertu alltaf svona neikvæður og langreiður? Þetta kom flatt upp á Jón. Sérstaklega vegna þess að innst inni vissi hann að þetta var rétt. Og hann snöggreiddist. En nú reyndi hann að róa sig því hann treysti Jens gamla og langaði til að fá ráð hans. Þessi helv. ríkisstjórn gerir aldrei neitt og biðlistar í heilbrigðiskerfinu eru langir og allt lokað, hreytti hann reiðilega úr sér og flýtti sér að bæta við: það er eins og að biðja um áheyrn Páfans að fá tíma hjá heimilislækninum.
 
Þá stóð Jens gamli upp, vafði treflinum um hálsinn, teygði sig eftir hattinum og fór að tygja sig til brottfarar en Jón heyrði hann tauta með sínum hlýlega rómi: Vertu ekki langreiður. Varastu að varpa tilfinningum þínum yfir á aðra. Það er ekkert að því að leita sér hjálpar en þetta eru þínar eigin tilfinningar, mannlegar og sterkar. Stundum þarf maður einfaldlega að gefa þeim gaum og sjálfum sér andrúm til að hugsa dýpra.
 
Þegar hann steig út í kvöldhúmið og dyrnar voru um það bil að lokast á eftir honum hljómaði aftur: Vertu ekki langreiður.

Kjaftagleiðir Akureyringar

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 06:00

Eltu drauminn þinn – því draumar geta ræst

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 06:00

Geðheilsa á vinnustöðum

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2024 | kl. 10:00

Hinn fágæti rúmenareynir og ný ættkvísl reynitrjáa

Sigurður Arnarson skrifar
09. október 2024 | kl. 12:00

Fóa og Fóa feykirófa

Pétur Guðjónsson skrifar
08. október 2024 | kl. 16:30

Danstímar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
07. október 2024 | kl. 11:30