Ótilhlýðileg framkoma í eitruðu starfsumhverfi

Ótilhlýðileg framkoma (e. Incivility) er nýlegt hugtak sem notað er í vinnusálfræði, en það er faggrein sem vinnur að bættum samskiptum og heilsuvernd á vinnustöðum. Skilgreina má ótilhlýðilega framkomu sem lúmska, endurtekna, andfélagslega framkomu, sem brýtur gegn óskrifuðum reglum um virðingu í samskiptum. Slík hegðun uppfyllir oft ekki skilyrði um ofbeldi eða einelti en getur að lokum leitt til slíks, sérstaklega ef litið er á svo slæma framkomu sem eðlilega á vinnustaðnum.
Oft er þetta án skýrs markmiðs en getur stundum verið viljaverk með neikvæðum eða illum tilgangi.
Dæmi:
- Hunsun, lítilsvirðing eða útilokun
- Ósanngjörn gagnrýni eða stöðug neikvæðni
- Óvæntar eða truflandi uppákomur
- Gert er lítið úr hugmyndum annarra
- Niðrandi tal eða bara tónn og augngotur
- Óviðeigandi eða ósæmilegt grín, klámfengið tal, stríðni eða kaldhæðni
- Skortur á hlustun
Allt saman eru þetta samskiptahættir sem samræmast ekki venjulegum eða eðlilegum samskiptum, eru truflandi og geta valdið miklum skaða.
Afleiðingar:
Rannsóknir sýna að ótilhlýðleg hegðun á vinnustað leiðir til aukinnar streitu, vanlíðunar og upplifunar á félagslegri einangrun. Þegar slíkt hegðunarmynstur er látið viðgangast í eitruðu starfsumhverfi eða að fólk gerir sér ekki vel grein fyrir alvarlegum áhrifum þeirra, getur það haft langvinn áhrif á starfsanda, framleiðni og líðan og jafnvel heilsu starfsmanna. Dæmi um heilsufarsvandamál af þessum sökum eru svefnvandi, þunglyndi, kulnun og verkir.
Þessi tegund af samskiptum leiðir til bresta í trúnaðartrausti og aukinnar félagslegrar einangrunar og yfirþyrmandi tilfinningar um að standa utan við hópinn, vera ekki hluti af teyminu. Slík upplifun leiðir oft til kulnunnar.
Áhugi og starfsánægja fer þverrandi með minni þátttöku og frumkvæði í kjölfarið sem leiðir til lakari tímastjórnunar, framgangi verkefna eða þjónustu og að lokum til aukinnar veikindafjarveru.
Afleiðingarnar eru ekki einungis einstaklingsbundnar heldur hafa einnig áhrif á ímynd og starfssemi heildarinnar. Þannig sýna erlendar rannsóknir að síendurtekin neikvæð umræða um ákveðin fyrirtæki eða stofnanir getur haft umtalsverð áhrif á líðan, starfsgetu og jafnvel heilsu starfsfólks og yfirmanna sem og á trúnaðartraust þeirra sem þjónustuna sækja.
Lausnir á vinnustöðum (sálfélagsleg vinnuvernd):
- Mikilvægt er að stunda streituvarnir og bæta álagsþol en slíkt vinnur gegn því að þessi tegund af samskiptum fái að grassera
- Opin samskipti og hreinskipti í lausn vandamála
- Forvarnaáætlanir um samskiptavandamál, geðheilsu og streituvarnir
- Skýr stefna í forvörnum gegn áfengi og öðrum fíkniefnum
- Vandaður faglegur stuðningur eða handleiðsla
- Nálægur yfirmaður með ekki fleiri en u.þ.b. tuttugu undirmenn
Skýr stjórnunarstíll sem veitir öryggi og lyftir fram fjölskylduvænum aðstæðum, faglegu sjálfstæði, metnaði og virðingu í samskiptum. Stíl sem jafnframt hindrar árásir á viðkvæma hópa (t.d. konur, þá sem eru minna menntaðir eða lægra settir eða innflytjendur) eða kemur í veg fyrir gaslýsingu og ofurmeðvirkni.
Einnig er mikilvægt að stjórnandinn veiti möguleika á gagnrýnni eða uppbyggilegri umræðu í stað þöggunar.
Lokaorð:
Mikilvægt er að hafa í huga að hér er frábært tækifæri til öflugra forvarna. Þetta gera mannauðsfræðingar og mannauðsstjórar með því að bæta starfsumhverfi og fyrirtækjamenningu og með því að grípa snemma inn í ef einstaklingar eru að komast í vanda.
Stjórnendur geta haft mikil og góð áhrif með nærveru sinni og stjórnunarstíl.
Við getum sjálf hvert og eitt, sem starfsmenn, beitt okkur og tekið ábyrgð á okkur sjálfum og nánasta umhverfi og verkum okkar.
Ef til vill væri gagnlegt að hugleiða þessi mál enn frekar í víðara samhengi, hvernig við komum fram hvert við annað, í nánum samskiptum og ekki síður í netheimum þegar við fjöllum miskunnarlaust um fólk sem við þekkjum ekki neitt.
Við getum vel vandað og bætt framkomu okkar og samskipti rétt eins og við vöndum okkur við klæðaburð og tísku eða styrkjum vöðva eða lengjum neglur og þéttum augnhár.
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir


Atlavík

Timburmenn

Sumarfrí

Þessi þjóð er farin í hundana
