Fara í efni
Pistlar

Margvíslegur ávinningur af daglegri hreyfingu

HEILSUEFLING – II

Fjölmargir heilsufarsþættir njóta góðs af því ef einstaklingur stundar daglega hreyfingu. Að ganga að minnsta kosti 30 mínútur á dag, fimm daga vikunnar, getur haft gríðarlega jákvæð áhrif á ýmsa heilsufarsþætti. Í þessari samantekt verður komið inn á nokkra þessara þátta auk þess sem ávinninginn má sjá á meðfylgjandi mynd. Hér eru dregin fram áhrif gönguferða á heilsuna en rétt er að geta þess að öll önnur hreyfing, eins og að synda, hjóla eða dansa, þar sem einstaklingur mæðist aðeins og hjartað slær hraðar en í hvíld eða við dagleg störf, getur haft þessi jákvæðu áhrif.

Hjarta og æðakerfið

Að ganga um 150–200 mínútur á viku, 5–7 daga vikunnar, getur dregið verulega úr hættu á kransæðasjúkdómi eða um 20–30% að mati sérfræðinga. Ef við lengjum göngutímann eða vegalengdina getur áhættan minnkað enn frekar. Nauðsynlegt er að breyta af og til um gönguleið og einnig að ganga í mishæðóttu landslagi sem kallar á aukna ákefð í stuttan tíma. Slík þjálfun reynir enn frekar á hjarta- og æðakerfið, við mæðumst meira en styrkjumst að sama skapi. Mikilvægt er þó að gleyma ekki endurheimtinni, fara sér rólega á milli áreynslutarna.

Ávinningur af daglegri hreyfingu er fjölþættur.

Að bæta starfsemi ónæmiskerfis

Að ganga reglulega og af og til rösklega þannig að þú mæðist aðeins getur verndað þig gegn kvefi, flensu eða öðrum ónæmistengdum veikindum. Ástæðan er að heilsurækt eins og ganga eykur magn hvítra blóðkorna sem dreifast með blóðinu. Þessar frumur berjast gegn sýkingum og öðrum sjúkdómum og eru hluti af ónæmiskerfi líkamans.

Að stuðla að kjörþyngd og auka orkueyðslu

Ganga, eins og önnur hreyfing, eykur hjartsláttartíðni og stuðlar að aukinni orkueyðslu. Gögnuhraði, göngutími og gönguvegalengd hefur svo áhrif á það hversu mikilli orku þú eyðir. Undirlagið sem þú hreyfir þig á og hver líkamsþyngdin er skiptir einnig máli þegar horft er til orkueyðslu.

Í dag eru sérfræðingar að færa okkur nær því að huga frekar að gæðum og samsetningu máltíða. Einnig að horfa á hvaða æviskeiði við erum en að horfa einungis til hitaeininga. Mikilvægara telst að fá orku úr hreinni fæðu sem inniheldur góða fitu, prótein, flókin kolvetni, trefjar, vítamín og steinefni. Vel samsett máltíð úr öllum orkuflokkunum er mikilvæg þar sem vítamín og steinefni eru nauðsynleg til að takast á við athafnir daglegs lífs. Þó hitaeiningafjöldinn fari aðeins yfir áætlaða grunnorkuþörf telst það vera til bóta ef horft er á alhliða ávinning.

Huglægt mat þátttakenda í fjölþættri heilsueflingu á andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu á tveggja ára tímabili hjá Janusi heilsueflingu.

Hreyfing bætir heilastarfsemi, verndar minnið og bætir sköpunarhæfileika

Hreyfing eykur hjartsláttartíðni sem stuðlar að auknu blóðflæði og súrefni til heilans. Þannig örvast einnig framleiðsla hormóna sem geta aukið vöxt heilafrumna. Regluleg hreyfing er sérstaklega mikilvæg hjá eldri aldurshópum þar sem öldrunarferlið með takmarkaðri hreyfingu getur haft áhrif á upptöku súrefnis og bólgumyndanir sem stuðla að breytingum á uppbyggingu og virkni heilans. Sýnt hefur verið fram á að hreyfing getur dregið úr breytingum í heila sem valda heilabilun eins og Alzheimerssjúkdómi og geðklofa.

Ýmsir aðrir þættir njóta góðs af daglegri hreyfingu en hún hjálpar til við að lækka blóðsykurinn, bæta lífsgæði og auka lífslíkur. Dagleg hreyfing eykur afkastagetu lungna og um leið almenna afkastagetu í daglegu lífi, bætir geðheilsu og dregur úr lífsstílssjúkdómum eins og offitu og sykursýki tvö.

GANGI þér vel.

Janus Guðlaugsson er PhD-íþrótta- og heilsufræðingur

Lífið í skógarmoldinni

Sigurður Arnarson skrifar
29. febrúar 2024 | kl. 06:00

Geðdeild, sjálfshjálparnámskeið eða dómssalur?

Rakel Hinriksdóttir skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 16:20

Og Björk að sjálfsögðu

Sverrir Páll skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 15:00

Hús dagsins: Strandgata 19 b; Laxamýri

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 06:00

Malarvöllur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
26. febrúar 2024 | kl. 11:30

Framúrskarandi Gaukshreiður

Skapti Hallgrímsson skrifar
26. febrúar 2024 | kl. 10:00