Fara í efni
Pistlar

Malarvöllur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 16

Þegar páskunum sleppti, og skíðin voru sett inn í geymslu, var rykið dustað af takkaskónum. En í mínu tilviki, og svo margra annarra stráka á svipuðu reki, merkti það áfram ansvítans slabb. Og gott ef ekki vætu og vosbúð.

Því við sukkum ofan í malarvellina í hverju einasta skrefi. Og það var kannski upp á legg, ef ekki lengra, svo sem á Sana-vellinum, því grúsin þar var alltaf helst til deig og laus í grjótinu þegar veturinn var að lina tök sín. En þar öslaði maður samt eðjuna upp í klof, og þess þá dýpra, ef einhver vilji var til að klára leikinn.

Og það var áskorunin. Að sigrast frekar á aðstæðum, heldur en andstæðingnum.

Skrýtnast var þetta samt á Akureyrarvellinum, sjálfu meginsviði íþróttanna í bæjarfélaginu. Við strákarnir fengum að æfa á malarpartinum fyrir neðan aðalleikvanginn, ef ekki voru mót, en sá var hængurinn á þeim máldögum að á sama tíma var verið að breikka Glerárgötuna, eina helstu umferðaræðina í bænum, sem þverar byggðina á enda.

En ég var sumsé hægri vængmaður um þetta leyti – og eystri kanturinn minn var bara skorinn af, si sona, eins og fyrir tilstuðlan einhverra ólukkans framfara í samgöngumálum bæjarbúa, en sjálfur stóð ég eftir með fimmhyrndan völlinn, og ekki lengur ferkantaðan, þann eina sinnar tegundar í veröldinni.

Þetta hafði auðvitað áhrif á knattspyrnuferil minn. Því ef við vorum að spila í átt að Kaldbak var ekki lengur hægt að hlaupa upp allan hægrihlutann á enda. Það var búið að klippa efra hornið á honum burt. Svo það þurfti alltaf að hægja á sér í þann spottann. Sem gat verið æði mikil úrlausn í hita og þunga leiksins.

Og fer ekki frekari sögum af því, fyrir utan þau örlög að æ síðan hef ég ekki fundið fjölina mína á fótboltavelli, hálfvegis kantlaus maðurinn.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: TEIKA

Hús dagsins: Nonnahús (Aðalstræti 54)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
03. júlí 2025 | kl. 06:00

Skógrækt og fæðuöryggi

Pétur Halldórsson, Úlfur Óskarsson og Aðalsteinn Sigurgeirsson skrifa
02. júlí 2025 | kl. 09:15

Kanínur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. júní 2025 | kl. 11:30

Eldhúsdagsumræður

Jóhann Árelíuz skrifar
29. júní 2025 | kl. 06:00

Lýsið frá Tona og Jónda

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. júní 2025 | kl. 10:00

„Ég yfirgaf ekki Rússland, Rússland yfirgaf mig“

Sveinn Brimar Jónsson skrifar
26. júní 2025 | kl. 08:15