Fara í efni
Pistlar

Kosningar

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 11

Þegar halla tók á sjöunda áratuginn á Syðri-Brekkunni, eins og raunar víðar um bæinn, klofnaði Álfabyggðin í tvennt.

Við unga fólkið í götunni gerðum okkur ekki í grun hvað amaði að gamla mannskapnum fyrr en við fengum pata af því að það átti að fara að kjósa á milli tveggja miðaldra karlmanna um hvor þeirra tæki við af Ásgeiri forseta.

Gott ef foreldrarnir supu ekki meiri hveljur en kaffi yfir þeim ósköpum öllum, en þetta væri nú ekki eins og hver önnur kosning, heldur fæli hún í sér afstöðu til megingildanna. Og þaðan af stærri orð voru látin falla af titrandi vörum sem vessuðu í munnvikunum, slík gat heiftin verið við matarborðið.

En hér tækjust á íhaldið og uppreisnin, Gunnar og Kristján. Fulltrúi fínklædda valdsins eða óbreytta almúgans. En svo væri sá síðarnefndi líka úr Svarfaðardal. Gætu menn kosið gegn heimahögunum og reitt sig fremur á Reykjavíkurvaldið?

Gatan logaði í deilum. Gamlir og spakir spilafélagar töluðust ekki lengur við. Gæfar húsmæður létu ekki sjá sig á tali við sviksamar stöllur. Og þar af leiðandi skiptum við krakkarnir liði. Við urðum ýmist Gunnarsbörn eða Kristjánskrakkar.

Og sjö ára, kannski átta eða níu, vorum við farin að fussumsveia og hissumpota yfir því að heimilisfólkið í öðrum húsum væri svo vitstola að það ætlaði að kjósa árans óvininn. En þá mætti það bara eiga sig og ætti ekki lengur erindi í götunni.

Okkur var meira að segja uppálagt að halda hviksögunum á lofti í ati okkar úti í götunni. Og fyrir vikið var tekist á um hvor frambjóðendanna puntaði sig meira á mannamótum og hvor væri kokkálaður klámkjaftur, Gunnar eða Kristján.

Svo komst á vopnahlé í Álfabyggðinni eftir kosningar. Að nafninu til. Í öllu falli hjá okkur krökkunum. En sumt það fullorðna sá raunar ekki oftar skíran dag.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Á komandi misserum munu birtast vikulegir pistlar hans á akureyri.net um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

  • Í NÆSTU VIKU: ÖSKUBAKKAR

Lífið í skógarmoldinni

Sigurður Arnarson skrifar
29. febrúar 2024 | kl. 06:00

Geðdeild, sjálfshjálparnámskeið eða dómssalur?

Rakel Hinriksdóttir skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 16:20

Og Björk að sjálfsögðu

Sverrir Páll skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 15:00

Hús dagsins: Strandgata 19 b; Laxamýri

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 06:00

Malarvöllur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
26. febrúar 2024 | kl. 11:30

Framúrskarandi Gaukshreiður

Skapti Hallgrímsson skrifar
26. febrúar 2024 | kl. 10:00