Fara í efni
Pistlar

Kanínur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 86

Við héldum kanínur á Syðri-Brekkunni, sem þótti virðingarvert, og raunar gott betur, því það var ekki annað að sjá á okkur en að við værum bændur á efri mörkum Akureyrar, sem yrktu land sitt af alúð og kostgæfni.

Fyrir ofan Espilundinn voru einungis ræktarlönd frístundabænda og nokkurra hestamanna þegar við frumbýlingarnir komum okkur fyrir í þessum vestustu byggðum Syðri-Brekkunnar. Ekkert hafði verið byggt ofan við endilangan Mýrarveginn á þeim árunum, og svo langur vegur var að Lundi, búinu undir fæti Hlíðarfjalls, að ungt fólk var enn þá að fara þangað í skátaferðalög.

Gott ef það taldi sig ekki tjalda þar óralanga vegu frá mannabyggðum.

Á meðan byggðum við kofaskrifli, strákarnir í nýlögðum Espilundinum, og reistum staura í kring þar sem hæsnanetið var strengt og heftað, svo bústofninn ætti erfiðara með að sleppa út.

Ég hygg að ég hafi jafnan verið með um tíu fullorðnar kanínur á mínum fóðrum þegar búsýslan var hvað fyrirferðarmest, en þá var raunar svo komið að maður leit á starfann sem fulla vakt í lífsklukku sinni, frá bíti til blakkrar nætur.

En svo fjölgaði þessu óheyrilega, og litlar sálir, sem við vorum, ungu guttarnir, áttum í fullu fangi með að taka á móti mergðinni af ungum sem fæddist ýmist andvana eða allra útlima spræk, svo til daglega, vorið langt á enda.

Gott ef fyrsta herðingin var ekki þarna komin. Að grafa sína nánustu um leið og lífi hinna var fyrir komið í örygginu, innan um kál og annað grænmeti sem stundum var illa fengið úr skákum nágrannanna, ef í nauðirnar rak.

En þannig er nú einmitt landbúnaðurinn á Íslandi. Ætli maður þekki það ekki frá fornu fari. Hann þarf alltaf hjálp. Og verður að reiða sig á aðra.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: KLUKKUSTRENGIR

Í hita leiksins

Jóhann Árelíuz skrifar
17. ágúst 2025 | kl. 14:00

Steinvalan í öldugangi Öskjuvatns

Rakel Hinriksdóttir skrifar
17. ágúst 2025 | kl. 12:00

Gervisáli

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 18:00

Á fjöllum erum við öll í sama liði

Rakel Hinriksdóttir skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 14:00

Þessi þjóð er hrædd við útlendinga

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 06:00

Þokaðu úr lokunni, aðeins andartak

Rakel Hinriksdóttir skrifar
15. ágúst 2025 | kl. 06:00