Komið hefur í ljós við rannsóknir á þungun að nokkrar frumur úr fóstrinu, fara með blóði yfir fylgjuna, inn í blóðrás móðurinnar og setjast að í heila hennar. Þar mynda þær litla frumuhópa sem búa bæði grunnt og djúpt í heila móðurinnar í langan tíma, jafnvel í áratugi. Þessar frumur geta verið frumstæðar eða þroskaðar og það virðist sem þær hafi eiginleika eins og stofnfrumur sem geta gert við og byggt upp vefi og síðan þroskast í stoðfrumur og jafnvel heilataugafrumur. Vísbendingar eru um að þær geti haft áhrif á mótefnavarnir heilans og þar með sjálfsofnæmissjúkdóma og bólgur eða sjúkdóma eins og Alzheimer- og Parkinson-sjúkdóm. Svo langt nær hin vísindalega þekking nú, eftir áratuga rannsóknir á þessu merkilega fyrirbæri, en vangaveltur eru síðan um hvort þessar frumunýlendur afkomendanna geti jafnvel haft áhrif á hugsun, hegðun eða tilfinningu.
Til viðbótar dreifast frumur frá fóstrinu til margra fleiri líffæra. Og til þess að flækja þetta enn frekar þá ferðast frumur ekki eftir einstefnu yfir fylgjuna heldur fara einnig frumur frá móður til fóstursins og sitja líklega í barninu fram eftir ævinni en þetta er minna rannsakað. Það er merkilegt rannsóknarefni þeirra lækna sem stunda líffæraflutninga og ígræðslu eða þá sem vilja skilja mótefnavarnir líkamans að móðirin geti borið í líkama sínum vef frá einstaklingi sem hefur aðra vefjagerð, annars konar arfgerð eða jafnvel annað kyn en hún.
Kalla mætti þetta fyrirbæri fóstur-móður örfrumublöndun, en enska heitið er Feto-Maternal Microchimerism.
Heimur læknisfræðinnar er heillandi og hættir aldrei að koma á óvart.
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir