Fara í efni
Pistlar

Hvítþinurinn frá Sapinero (Abies concolor)

TRÉ VIKUNNAR XVIII

Það eru til margar tegundir þintrjáa í heiminum. Þetta eru tré sem ýmist verða nokkuð myndarleg eða risastór. Þinirnir líta út eins og grenitré en munurinn er sá að maður stingur sig á grenitré, en þinurinn er mjúkur. Margir þekkja þin mjög vel og eru vanir því að setja hann inn í stofu einu sinni á ári, í formi jólatrés sem nefnt er norðmannsþinur (Abies nordmanniana) og er ræktaður í Danmörk en ættaður frá Georgíu eystra, eða þeim slóðum.

Frændi norðmannsþinsins, hvítþinurinn sem einmitt er aðalpersónan í þessum pistli, er einn af risunum í heimi þintrjáa. Hann hefur mælst allt að 70 metra hár í heimkynnum sínum í fjalllendi vestan til i Bandaríkjununum.

Þessi myndarlegi hvítþinur hér að ofan er í heimkynnum sínum og sýnir að hér er ekki um neitt smá tré að ræða. Myndin er frá The Gymnosperm database. Hana tók Chris Earle og gaf leyfi sitt fyrir birtingunni.

Hann getur einnig orðið gamall og fundist hafa tré hátt í 400 ára gömul. Auðvitað eru þessar tölur um þá stærstu og elstu algjörar undantekningar. Meðaltré er mun minna. Viðurinn er ljós og er notaður í byggingar, krossvið og trjákvoðu. Ameríkumenn flokka hann með þallar- og þinviði.

Lykt

Hvítþinur er algengt jólatré í Kaliforníu. Það er samt þannig með hvítþin að nálar hans búa yfir fremur leiðinlegu leyndarmáli. Eins og eftirfarandi saga sannar. Eitt sinn fyrir löngu klippti greinarhöfundur fallegar hvítþinsgreinar fyrir jól og kom þeim haganlega fyrir á ganginum, eins og honum er einum lagið. Nokkru síðar fór hann að gruna að dauð mús eða einhver andskotinn væri í íbúðinni. Lyktin var ekki eins jólaleg eins og til stóð. En eftir nokkra leit stoppaði hann við greinarnar fögru sem nú voru farnar að þorna og viti menn, fýlan var af þeim.

Barr hvítþins er svolítið gúmmílegt. Nálarnar eru skemmtilega langar og ljósar eða grágrænar að lit. Sennilega er þægilegast að þekkja hvítþin á barrinu. Mynd: Helgi Þórsson. 

Fræ frá Colorado

Mikið fræ af hvítþini var flutt til landsins á sjötta áratug síðustu aldar sem safnað var í nágrenni Sapinero í Colorado. Upp af því kom slatti af plöntum sem urðu með tímanum af fáeinum lundum í einstaka skógarreitum vítt og breitt um land. Almennt má segja að stærð þessara lunda sé ekki samræmi við allt það magn af fræi sem barst til landsins. Ástæður þess að ekki tókst betur til eru líklega þær að þinfræ er oft með lélega spírun og auk þess er hvítþinur viðkvæmur og hættir við kali og hefur líklega tínt tölunni í uppeldi.

Hvítþinurinn frá Sapinero myndar svolítinn lund í miðjum Vaðlaskógi. Mynd: Helgi Þórsson.
 

Árið 1991 var svolítið flutt inn af fræi frá öðrum stað í Colorado. Nánar tiltekið Rio Grande National Forest. Nokkrar plöntur af því kvæmi fóru í gamla Hakaskoja lerkiskóginn í Vaðlaskógi. Þær hafa enn lengri nálar en Sapinero kvæmið. Nú er bara eitt tré af þessu Rio grande kvæmi eftir í skóginum miðjum, toppbrotið. Samt er rétt að lofa því að standa, því eflaust myndar það nýjan topp með einhverjum ráðum.

Þessi hvítþinur er af öðru kvæmi. Hann kemur frá Rio Grande National Forest og hefur enn lengri nálar. Því miður er aðeins eitt tré í Vaðlaskógi og þar að auki topplaust. Það má finna í Hakaskoja-lerkinu rétt við aðal lundinn frá Sapinero. Mynd: Helgi Þórsson.

Blendingar

Hvítþinur getur orðið mjög stór eins og fyrr er nefnt, en frændi hans risaþinurinn (Abies grandis) getur orðið enn stærri. Risaþinurinn hefur hæst teygt sig upp í hundrað metra, ef við setjum traust okkar á hana Wikipediu. Þessir frændur mynda blendinga á stóru svæði þar sem útbreiðslusvæði þeirra mætast, í villta vestrinu.

Myndarlegustu stofnar hvítþins í Vaðlaskógi eru farnir að minna á þetta geta með tímanum orðið stór tré. Mynd: Helgi Þórsson.

Hvítþinur í Vaðlaskógi

Árið 1961 voru gróðursettar 800 hvítþinsplöntur í Vaðlaskóg miðjan. Einmitt í svæðið fagra sem kallað hefur verið „milli lækja“. Rétt norðan við Síberíulerkið frá Hakaskoja og við barrtré sem gróðursett voru seint á fjórða áratugnum. Þetta voru fimm ára plöntur af gerðinni 3/2 (þetta skilja nú fáir í dag). Undirritaður sá þessi tré fyrst árið 1988 þá voru þau tuttugu og sjö ára og ekki nema svona rúmlega mannhæð. En þegar þetta er skrifað þá hefur hæsta tréð mælst 11 metra hátt og gildleiki stærstu stofnanna er farinn að minna á að þessi tegund getur orðið mjög stór í framtíðinni. Þess má geta að í heimkynnum sínum eru til tré sem hafa tveggja metra þvermál í brjóst hæð, þau geta verið 300 ára gömul.

Riss sem sýnir hvar finna má hvítþininn í Vaðlaskógi og reyndar margt fleira. Mynd: Helgi Þórsson.

Flestir þinir gera kröfur til þess að standa í ferskum jarðraka og helst frjórri jörð, en hvítþinurinn er undantekning frá þeirri reglu. Í Vaðlaskógi hefur þinurinn vaxið upp á rýru, þurru, jarðgrunnu mólendi. Reyndar hefur lúpína komið sér fyrir við lundinn og kann vel að vera að henni megi að einhverju leyti þakka ágætan vöxt síðustu árin.

Smellið hér til að lesa allan pistilinn

  • Vikulega birtist pistillinnTré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils sama dag og hann kemur á vef félagsins í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Skógarjaðrar

Sigurður Arnarson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:30

Svona bara af því bara

Sigurður Ingólfsson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:02

Fannfergi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. mars 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Spítalavegur 15

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
24. mars 2024 | kl. 19:00

Gleðispillirinn og neyslunöldrarinn kveður sér hljóðs

Rakel Hinriksdóttir skrifar
23. mars 2024 | kl. 06:00

Eins gott að þú baðst ekki um bjúgu!

Orri Páll Ormarsson skrifar
22. mars 2024 | kl. 10:30