Fara í efni
Pistlar

Hvað kom fyrir aspirnar?

TRÉ VIKUNNAR XXIII

Glöggir trjá- náttúruunnendur hafa eflaust tekið eftir því að í upphafi sumars eru sumar aspir í bænum nánast alveg lauflausar. Svo virðist sem eitthvað hafi orðið til þess að tilteknir klónar alaskaaspa líta mjög illa út. Aðrir klónar hafa alveg sloppið og eru ljómandi fallegir. Því vaknar þessi spurning: Hvað kom fyrir aspirnar?

Skjólbelti við kirkjugarðinn er dálítið skellótt. Sumir klónar í góðu standi, aðrir lauflausir eða því sem næst. Mynd: Sig.A. 

Tegundir og klónar

Aspir eru ekki einu trjátegundirnar sem hafa látið á sjá. Sums staðar sér líka á nokkrum víðitegundum, einstaka rússa- og síberíulerki, einnig sumum eplatrjám og skyldum plöntum, ýmsum rósarunnum og öðrum skrautrunnum svo dæmi séu tekin. Mest er þetta samt áberandi á öspum. Þó langt í frá öllum öspum. Við þurfum ekkert að missa svefn yfir þessu, því flestar trjákenndar plöntur eru í ágætu standi og flestar hinna munu jafna sig.

Þrjár myndir af Grænugötuöspum. Þær þekkjast á vaxtarlaginu. Á fyrstu myndinni er klónninn lengst til hægri. Miðmyndin sýnir formóðurina sem stendur við Grænugötu. Þriðja myndin sýnir þrjár Grænugötuaspir rétt við Kirkjugarðinn. Myndir: Sig.A. 

Erfðaefni

Algengast er að öspum á Íslandi sé fjölgað kynlaust með svokölluðum græðlingum. Það leiðir til þess að hver græðlingur hefur nákvæmlega sama erfðaefnið og móðurplantan. Slíkt kallast klónn í eintölu eða klónar í fleirtölu og er haft í karlkyni hjá skógræktarmönnum. (Sumir kjósa að hafa þetta í hvorugkyni og tala þá um klón í nefnifalli). Nú er það svo að fjölmargir klónar eru í ræktun í bænum og í nágrenni hans. Sumir þeirra eru auðþekktir frá öðrum klónum en aðrir eru líkir innbyrðis. Útlit og gerð laufblaða, greinabygging og lag krónunnar, litur og útlit barkar getur verið misjafnt en einnig tími laufgunar á vorin og lauffalls á haustin. Það fer ekkert á milli mála að þessi ljótleiki í öspunum í sumar eru bundnir við ákveðna klóna. Við höfum áður fjallað um svokallaða Grænugötuösp. Þetta árið virðist einmitt sá klónn hafa orðið mjög illa úti. Við höfum líka fjallað um fleiri klóna á þessum síðum en ástand flestra er mjög gott.

Ígulrós og lerki sem farið hefur illa í vetur. Ekki er víst að sömu atburðir og löskuðu aspirnar hafi haft hér áhrif. Myndir: Sig.A.

Þegar trjám er fjölgað með fræi, eins og algengast er með t.d. lerki, þá hefur hvert tré sitt erfðaefni. Því er það svo að stöku lerki líta illa út, en sjaldnar heilu lundirnir eins og þegar sami klónn er notaður á samfelld svæði. Því miður finnast reyndar dæmi um að heilir lundir af lerki líti illa út, en það heyrir til undantekninga. Útlit og dreifing lauflítilla trjáa segir okkur að erfðaefni trjánna skiptir þarna miklu máli. Eitthvað hefur valdið því að sum tré, sem hafa tiltekið erfðaefni, líta illa út.

Á gróðrinum í hólmanum má sjá að þetta er ekki vetrarmynd. Þessi ösp er ekki dauð þótt laufgun sé dálítið spes. Takið eftir efsta hluta hennar. Mynd: Sig.A.

Smellið hér til að lesa allan pistilinn.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Ruslakallinn er með vasadiskó!

Orri Páll Ormarsson skrifar
12. júlí 2024 | kl. 10:10

Sögur úr Kjarna

Sigurður Arnarson skrifar
10. júlí 2024 | kl. 09:00

Dragsúgur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. júlí 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Lónsstofa á Skipalóni; 200 ára í ár

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
07. júlí 2024 | kl. 11:00

Lifandi steingervingur: Fornrauðviður

Sigurður Arnarson skrifar
03. júlí 2024 | kl. 10:10

Að temja tæknina II: Í klóm drekans

Magnús Smári Smárason skrifar
02. júlí 2024 | kl. 10:50