Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Grundargata 6

Grundargata er stutt en stórmerkileg gata á Oddeyrinni. Liggur hún á milli Strandgötu og Gránufélagsgötu. Grundargötuhúsum gerði sá sem þetta ritar skil á vefnum fyrir um áratug en eins og í tilfellum margra elstu pistla taldi höfundur tíma kominn á uppfærslu. Grundargata er mjög stutt, aðeins 90 metrar og við hana standa sex hús. Grundargata hefur einhvern hæsta meðalaldur húsa sem þekkist í bænum en húsin sex, sem standa við götuna eru á aldrinum 99-138 ára á árinu 2023. Hornhúsið við Gránufélagsgötu austanmegin, Grundargata 6, er einmitt 120 ára í ár.

Grundargata 6 er reisulegt og stórbrotið hús. Það er dæmi um hús, þar sem viðbyggingar og viðbætur hafa skapað ákveðin sérkenni og gefið því sitt einstaka lag. Við getum borið saman hús nr. 5 og 6 við Grundargötu. Þau eru reist um aldamótin 1900, hús nr. 5 raunar nokkuð eldra, og voru í upphafi nokkuð svipuð í útliti, þ.e. ein hæð með háu mænisrisi (A-laga þaki). Grundargata 5 (bláa húsið á myndinni hér eða neðan) er nokkurn veginn óbreytt frá upphafi en nr. 6 var breytt umtalsvert á árunum um 1920 og eru þess hús nú gjörólík. Grundargötu 6 reisti Jón Jónatansson járnsmiður árið 1903. Fékk hann lóð þar sem mættust Grundargata og „hin fyrirhugaða gata austur og vestur eyrina“ og þar átt við Gránufélagsgötu, sem ekki hafði hlotið nafn. Fékk hann að reisa hús 10x12 álnir (6,3x7,5m) einlyft með porti og gerði bygginganefnd kröfu um, að a.m.k. þrír gluggar væru á norðurstafni. 

Húsið er stórt einlyft timburhús með portbyggðu risi. Risið, sem er gaflsneitt, er af svokallaðri mansard gerð. Mansard mætti lýsa þannig að risið sé tvískipt, efra risið að mæni er aflíðandi en upp frá veggjum er risið bratt. Þannig er brot í risinu, enda mansardþök stundum kölluð „brotið ris“. Kvistur er á austurhlið hússins. Að sunnanverðu skagar austurhluti hússins fram um líklega 1,5m og í kverkinni við útskotið eru útidyr. Á veggjum er panell eða vatnsklæðning, krosspóstar í gluggum og bárujárn á þaki. Skv. ónákvæmri mælingu grunnflatar á kortavefnum map.is mælist grunnflötur hússins um 11x8m, útskot að sunnanverðu um 5,5x1,5m.

Jón Jónatansson (1850-1913), sem reisti húsið, var Þingeyingur. Hafði hann áður verið bóndi á Skriðulandi í Aðaldal en einnig verið í vistum á bæjum í Fnjóskadal og Aðaldal. Til Akureyrar flutti hann fyrir 1890 og árið 1901 er hann titlaður aukapóstur. Jón var kvæntur Guðrúnu Sesselju Jónsdóttur, sem einnig var Þingeyingur, nánar tiltekið úr Múlasókn. Á meðal barna þeirra var Kristján (1886-1972) bakari, en hann stofnaði árið 1912, Brauðgerð Kr. Jónssonar eða Kristjánsbakarí.

Árið 1912, eða mögulega síðla árs 1911, eignast Ágúst Jónsson tómthúsmaður Grundargötu 6. Tveimur árum síðar er sonur hans, Ólafur húsgagnasmiður, orðinn eigandi hússins ásamt föður sínum. Ólafur fékk að byggja við húsið árið 1915, einlyfta byggingu, 5x5,65m að stærð suðaustanmegin við húsið. Þar hafði hann trésmíðaverkstæði.

Árið 1917 var Grundargata 6 virt til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús einlyft með porti og háu risi á kjallara. Viðbygging við bakhlið ein lofthæð á kjallara. Á gólfi við framhlið 2 stofur. Við bakhlið forstofa og eldhús. Á lofti 2 íbúðarherbergi og 2 geymsluherbergi. Kjallara skipt í tvennt. Í viðbyggingunni er trésmíðaverkstæði (Brunabótafélag Íslands, 1917: nr. 237). Á uppdrætti með brunabótamati sést að viðbygging hefur staðið nokkuð innan við norðurstafn hússins en jafnframt skagað örlítið fram fyrir suðurstafninn. Húsið er sagt 7,5x6,3m að stærð en stærð viðbyggingar er ekki gefin upp.

Árið 1920 sækir Ólafur Ágústsson aftur um að byggja viðbótarbyggingu við húsið og hefur bygginganefnd á orði, að þessar breytingar verði til prýði fyrir húsið. Ekki fylgja lýsingar, en fram kemur að breytingarnar séu samkvæmt uppdrætti. Breytingar þessar fólust væntanlega í því, að þak viðbyggingar var hækkað, sem og þak upprunalegs húss og núverandi þakgerð komið á. Þá hefur viðbyggingin væntanlega verið lengd til norðurs, að stafni upprunalega hússins. Í Húsakönnun 1995 eru leiddar að því líkur, að húsið hafi þá fengið það lag sem það hefur nú. Á mynd, sem tekin er 1931, sést að húsið hefur fengið núverandi útlit. Mögulega hefur húsið verið járnklætt um svipað leyti, en á húsinu var löngum bárujárn og steinblikk.

Nokkrum árum eftir þessar framkvæmdir reisti Ólafur Ágústsson stórhýsi við Strandgötu 33 og flutti þangað ásamt fjölskyldu sinni. Það var árið 1924. Þá eignaðist húsið, þ.e. Grundargötu 6, Bjarni Hjaltalín, fiskimatsmaður. Átti Hjaltalínsfjölskyldan heima þarna um áratugaskeið og húsið jafnan nefnt Hjaltalínshús. Íbúðaskipan hefur sjálfsagt verið margvísleg í gegnum tíðina, í manntölum frá 3. og 4. áratug eru ýmist tvö eða þrjú íbúðarrými skráð í húsinu. Síðustu áratugina hefur húsið verið einbýlishús.

 Á árunum 2010-18 fóru fram á húsinu viðamiklar endurbætur. Það hafði lengi verið járnklætt en þegar þeirri klæðningu var flett af, sumarið 2011, mátti sjá móta fyrir útlínum upprunalega hússins á norðurstafni. Endurbæturnar hafa heppnast stórkostlega og er Grundargata 6 eða Hjaltalínshúsið nú sannkölluð perla í umhverfi sínu. Húsið er stórbrotið og sérstakt í útliti og svo sannarlega hægt að taka undir ríflega aldargamalt álit bygginganefndar, að breytingar Ólafs Ágústssonar séu til prýði. Í Húsakönnun 2020 hlýtur húsið miðlungs varðveislugildi og er að sjálfsögðu aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir árið 1923. Meðfgylgjandi myndir af Grundargötu 6 eru teknar 29. desember 2018, 1. maí 2017 og 24. ágúst 2011. Myndin af Grundargötu 5 er tekin 6. júní 2013. 

Heimildir:

Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1 Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 252, 2. júlí 1903. Fundur nr. 404, 15. feb. 1915 Fundur nr. 473, 2. Ágúst 1920. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.

Erum við að verða náttúrulaus?

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. maí 2024 | kl. 17:00

Hús dagsins: Hafnarstræti 57; Samkomuhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. maí 2024 | kl. 06:00

Oddeyrargötuöspin og hæðarmælingar trjáa

Sigurður Arnarson og Bergsveinn Þórsson skrifa
22. maí 2024 | kl. 19:00

Fimmtudagskvöld

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. maí 2024 | kl. 11:30

Kunningi frænda míns

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. maí 2024 | kl. 14:00

Dagur læknisins

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
17. maí 2024 | kl. 18:00