Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Lundargata 2

Lundargata 2 var þriðja húsið sem Arnór Bliki tók fyrir á bloggsíðu sinni fyrir 13 árum síðan. Sú umfjöllun var tæp 200 orð. Hér er tæplega 1400 orða grein, öllu umfangsmeiri og ítarlegri, segir hann.

Lundargata 2 er eitt af elstu húsum og helstu kennileitum Oddeyrar og ræður þar mestu ferkantaður turn, sem er í raun kvistur, fyrir miðju hússins. En húsið byggði Jósef Jóhannesson járnsmiður árið 1879 á lóð sem hann fékk á leigu, væntanlega hjá Gránufélaginu. Ekki liggja fyrir lóðaúthlutanir eða byggingaleyfi á vegum bygginganefndar eða heldur byggingarlýsingar. Raunar lágu fundir Bygginganefndar niðri um sex ára skeið, frá 1878-´84. Jósef fékk hins vegar leyfi amtmanns til veitinga- og greiðasölu; seldi í húsinu m.a. kaffi, mat, vín og gistingu. Í Norðlingi 11. október 1879 segir, undir fyrirsögninni Nýtt veitingahús: „Eptir [svo] leyfi amtsins ds. 23. f. m. hefi eg undirskrifaður byrjað greiðasölu á Oddeyri, hvers vegna allir þeir er þarfnast að fá keypt: mat, kaffi, vín og gisting, vildu gjöra svo vel að snúa sér til mín“. Jósef bauð einnig upp á húsrúm og hey handa hestum viðskiptavina sinna, enda voru þeir auðvitað farartæki þess tíma. Þess má reyndar geta, að heimildum virðist ekki bera saman um, hvort húsið sé byggt 1879 eða 1882 en það skiptir e.t.v. ekki máli í stóra samhenginu. Alltént er nokkuð ljóst, að einhvers staðar var Jósef með greiðasölu sína á Oddeyri haustið 1879. Húsið var upprunalega reist á lóðinni sem síðar varð númer 23 við Strandgötu og vissi framhliðin til suðurs.

Lundargata 2 er einlyft timburhús á lágum steingrunni, með háu risi og miðjukvistum. Suðaustanmegin er viðbygging með einhalla þaki. Grunnflötur er um 8,9x6,4 og bakbygging um 3x2m. Á bakhlið er kvistur með einhalla þaki og á framhlið er annar slíkur, undir háum flötum kanti. Stendur kvistur framhliðar hátt upp úr þekjunni, eins konar ferhyrndur turn og setur mikinn og skemmtilegan svip á húsið. Í gluggum hússins eru sexrúðupóstar, bárujárn á þaki og timburklæðning, svokölluð listasúð á veggjum. Yfir útidyrum á framhlið er þríhyrnt tréverk, svokallaður bjór í nýklassískum stíl. Í miðjum bjórnum hefur nýlega verið máluð áletrunin 1879, sem vísar til byggingarárs hússins. Líklegast er talið, að turninn hafi verið á húsinu frá upphafi, hann sést alltént á elstu myndum af Oddeyri.

Jósef Jóhannesson (1839-1915), sem var Eyfirðingur, nánar tiltekið frá Gilsbakka í Grundarsóknstundaði sem áður segir veitinga- og greiðasölu í húsinu. Með þeim rekstri hugðist hann drýgja tekjur sínar en hann taldi sig ekki geta framfleytt sér með járnsmíðinni einni saman. Var hann þó talinn með þeim færari í sinni grein og smíðaði m.a. byssur, sem fáir lögðu fyrir sig. Jóhannes Jósefsson glímukappi og athafnamaður, löngum kenndur við Hótel Borg, segir frá Jósef Jóhannessyni í ævisögu sinni: „Jósef smiður var tröll að vexti, stærri en pabbi [Jósef Jónsson ökumaður]. Hann var einn af höfðingjunum við Eyjafjörð. Í smiðjunni var hann krímugur guð og hendurnar á honum höfuðskepnur, stórar og blakkar, sem teygðu járn“ (Jóhannes Jósefsson 1964: 52). Jóhannes, þá á barnsaldri, heimsótti Jósef daglega í smiðjuna og aðstoðaði við vinnuna. Vakti áhuga hans byssa, hangandi upp á vegg, sem Jósef hafði smíðað. Jósef var mjög artarlegur við drenginn og skemmti honum jafnan með sögum. Ein sagan var af sumbli Jósefs og Skapta nokkurs Jósefssonar frá Seyðisfirði á knæpu í Kaupmannahöfn: „Þegar þeir voru orðnir fullir og farnir að syngja Björt mey og hrein, fannst þeim óþægileg nærvera Dana á knæpunni og Jósef spurði. Hvort vilt þú rétta eða kasta? Og Skafti svaraði: Rétt þú ef ég kasta. Og svo ruddu þeir knæpuna“ (Jóhannes Jósefsson 1964: 35). Það má svo fylgja sögunni, að þegar Jóhannes spurði, hve margir mennirnir voru, sem þeir fleygðu út af öldurhúsi þessu svaraði Jósef um leið: „Langar þig mjög mikið að eignast þessa byssu?" (Jóhannes Jósefsson 1964: 35).

Jósef átti húsið ekki lengi en árið 1883 mun hann hafa selt húsið norskum síldarútgerðarmanni, Oules Hausken og húsið síðan nefnt Hauskenshús. Af Jósef er það að segja, að hann færði út kvíarnar í veitingarekstrinum og reisti mikið stórhýsi, veitinga- og gistihús neðar við Strandgötu, um 1886. (Nýja veitingahús Jósefs varð því miður ekki langlíft en það brann til grunna árið 1908). Miðað við frásagnirnar af Jósef Jóhannessyni mætti ætla, að hann hafi ekki tekið vægt á drykkjulátum eða leiðindum á meðal gesta sinna. Þó að húsið væri jafnan kennt við Oules Hausken átti hann það ekki mikið lengur en Jósef, því Hausken mun hafa haldið af landi brott árið 1887. Í mjög vandaðri og ítarlegri grein Finns Birgissonar í Degi, janúar 1994 kemur fram, að árið 1895 hafi Sigurður Sigurðsson eignast húsið, en ekki sé vitað um eigendur í millitíðinni, eftir brotthvarf Hauskens. Af Manntali 1890 má ráða, að húsið hafi verið í eigu Einars Hallgrímssonar Thorlacius það ár. Höfundur ræður það einfaldlega af því, að í manntalinu virðast húsin við Strandgötu raðast upp frá vestri til austurs. Hafa þau ekki númer, heldur eru kennd við eigendur sína. Númerin komu löngu síðar. Á milli Húss Einars Pálssonar, þ.e. Strandgötu 21 og Húss Kristjáns vert, þ.e. forvera Strandgötu 25 (Alaska) er Hús Einars Hallgrímssonar. Á árunum 1879-1900 var starfræktur Oddeyrarskóli hinn eldri. Ekki var um eiginlegt skólahús að ræða heldur fékk skólinn inni í nokkrum húsum og þeirra á meðal var Hauskenshús. Mun kennsla hafa farið fram hér, árin sem Hausken átti húsið en hann stundaði útgerð sína á sumrin og dvaldist í Noregi á veturna og því hæg heimatökin að nýta húsið. Það útilokaði þó ekki hvort annað, að búið væri í húsunum og skólahald færi þar fram.

Sem áður segir stóð húsið upprunalega lítið eitt sunnar en nú, við Strandgötu. Sumarið 1902 var húsið flutt og því snúið um 90°, framhlið til vesturs, þar sem það hefur staðið síðan. Fyrir þeirri framkvæmd stóð Medúsalem Jóhannesson, þáverandi eigandi hússins. Fékk hann að flytja „[...]hið svokallaða Hauskenshús [...] paralellt með Lundargötu í línu með húsi Baldvins Jónssonar og 10 al. suður frá því húsi“ (Bygg.nefnd. Ak. nr 224: 1902). Umrætt hús Baldvins Jónssonar var Lundargata 4, en það hús brann snemma árs 1965. Það er eiginlega erfitt að gera sér í hugarlund, hvernig sú framkvæmd hefur farið fram á þeim tíma þegar engir voru kranarnir eða flutningatækin. Freistandi er að geta sér þess til, að við húsaflutninga þess tíma hafi menn notfært sér þá verkkunnáttu og aðferðafræði, sem höfð var við sjósetningu skipa. Eftir húsaflutningana byggði Medúsalem nýtt hús Strandgötumegin en lóðinni var skipt upp og taldist Hauskenshús nú standa við Lundargötu 2. Nýja hús Medúsalems brann fjórum síðar og reisti hann þá stórhýsi það, er enn stendur á Strandgötu 23. Eftir 1902 var húsið leigt út til íbúðar og bjuggu þá jafnan margar fjölskyldur í húsinu samtímis. Þegar Pétur Pétursson keypti Strandgötu 23 af Medúsalem Jóhannessyni eignaðist hann einnig Lundargötu 2 og munu eignirnar jafnan hafa fylgt hvorri annarri um árabil eftir það. Þannig er því t.d. enn háttað í febrúar 1972 þegar Valdemar Baldvinsson auglýsir húsin til sölu. Á fyrstu áratugum 20. aldar munu nokkrar fjölskyldur hafa búið þarna samtímis, stök herbergi voru leigð út. Árið 1920 er íbúafjöldi hússins 20 manns og virðist húsið þá skiptast í fimm íbúðarými. Á meðal íbúa það ár má nefna þau Konráð Friðgeir Jóhannsson og Svövu Jósteinsdóttur og syni þeirra Jóhann Friðgeir og Gunnar (þá óskírður). Konráð, sem var gullsmiður, gekk undir nafninu „Konni gull“ og eru afkomendur þessa heiðursfólks kallaðir Konnarar. Fjöldi þeirra sem búið hefur í Lundargötu 2 þessa tæpu hálfa aðra öld, hlýtur að skipta hundruðum, ef ekki þúsundum! Síðustu áratugi hefur húsið verið einbýli.

Húsið hlaut gagngerar endurbætur á 10. áratug 20. aldar og miðuðust þær við upphaflegt útlit hússins. Fyrir þeim framkvæmdum stóðu þau Gylfi Gylfason og María Jóhannesardóttir, eftir teikningum Finns Birgissonar. Hlutu þau viðurkenningu Húsfriðunarsjóðs Akureyrarbæjar vorið 1996 fyrir framtakið og voru sannarlega vel að því komin. Hefur húsið æ síðan hlotið afbragðs viðhald. Húsið hefur skv. Húsakönnunum 1995 og 2020 hátt varðveislugildi sem hluti af heild, eitt af elstu húsum Oddeyrar og hluti heildstæðrar götumyndar. Þá er það vitaskuld aldursfriðað. Nú munu reyndar blikur á lofti varðandi aldursfriðun; rætt er um að afnema 100 ára regluna svokölluðu. Þykir höfundi það afleitt, nema til komi mjög rúm skilyrði til friðunar yngri húsa og þætti verulega fúlt, hreint út sagt, ef ævarandi „skotleyfi“ til niðurrifs yrði á hús frá þriðja og fjórða áratug 20. aldar! En það er efni í annan pistil. Lundargata 2 er til mikillar prýði og setur skemmtilegan svip á umhverfi sitt, turninn meðal kennileita á Oddeyrinni. Myndirnar eru teknar 8. ágúst 2022.

Heimildir:

Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 224, 6. júní 1902. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Jóhannes Jósefsson. 1964. Jóhannes á Borg. Minningar glímukappans. Stefán Jónsson skráði. Reykjavík: Ægisútgáfan

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30