Fara í efni
Pistlar

Handavinna og smíði í Barnaskóla Akureyrar

Handavinna og smíði í Barnaskóla Akureyrar

Saga úr Innbænum - IX

Ég hef verið að skrifa greinar með bernskuminningum mínum úr Innbænum. Síðustu þrjár greinarnar fjalla um námið í Barnaskóla Akureyrar. Þetta eru minningar og upplifanir mínar og kann að virðast sjálfmiðað en ég vona samt miklu fremur að það mikla þakklæti og sú djúpa virðing sem ég ber til kennaranna skíni í gegn.
_ _ _

Í kjallara skólans fór fram handmennt. Þá var nýjung sem okkur strákunum þótti á þeim tíma framandi að fá að taka þátt í, en það var að kynjunum var víxlað. Stelpurnar fengu að fara í nokkra tíma í smíðum og við strákarnir á móti í saumatíma hjá Huldu Árnadóttir hannyrðakennara. Þar lærðum við eitt eða tvö spor sem ég kann ekki lengur að nefna. Og svo lærðum við að festa í tölur og hefur það oft komið sér vel á lífsleiðinni. Hulda var bara nákvæmlega eins og manni fannst að kennslukona ætti að vera, skörp og snögg til svars um leið og hún hagræddi hornspöngum gleraugnanna undir óstýrilátum lokkunum og gat verið bæði ströng og mild í senn.

Ég man síðan svo vel þegar ég kom í fyrsta sinn í smíðastofuna í skólanum. Farið var niður á neðstu hæð í viðbyggingunni að austan. Þar var breiður gangur með flísalögðu gólfi og stór hurð opnaðist inn í kennslustofuna. Stofan var mikil og tvískipt. Að austan voru nokkrir hefilbekkir í röð og stórir skápar á veggjum. Ofan á þeim voru nokkur mjög falleg skipslíkön úr tré og tini. Í herberginu var notaleg timburlykt í bland við keim af málningu. Handavinnukennarinn hann Kalli Hjalta eða Karl Hjaltason, eins og hann hét, tók hlýlega á móti okkur strákunum með glettnisbros á vör. Hann var frekar lágvaxinn og snar í snúningum en um leið hæglátur í fasi og drjúgur, hármikill og gráhærður og með úfið hár. Hann sýndi okkur um skólastofuna og opnaði inn í stóra geymslu þar sem timbur, blikk, málning og fleira var geymt. Svo úthlutaði hann hverjum og einum vinnustað við borð og sýndi okkur hvaða gripi við myndum smíða á næstu vetrum. Hann sýndi okkur púsluspil, skóhorn úr harðviði í líkingu nakinnar konu, skurðarbretti, trébakka, blómagrind, flugvél, bíla og báta. Mér fannst ótrúlegt að við ættum eftir að smíða svona fallega gripi. Ég held að við höfum verið í smíði í þrjá vetur. Fyrsta veturinn smíðuðum við einfalda hluti eins og púsluspil úr tré og brauðbretti. Næstu vetur smíðuðum við flóknari gripi sem tók lengri tíma að gera og verkið þarfnaðist meiri þolinmæði. Kalli brýndi fyrir okkur vandvirkni og hann rak okkur ítrekað til baka með hluti sem hann taldi ekki nægilega vel pússaða eða slípaða. Hann keyrði okkur áfram með leiðbeiningum og tilsögn en fyrst og fremst með hvatningu og skemmtilegum sögum. Hann lét tilbúna smíðahluti standa í stofunni sem fyrirmyndir. Hann var nákvæmur þegar hann sagði okkur til en greip lítið inn í verkið sjálft. Hann sendi okkur einsamla inn í geymsluna eftir efni sem við þurftum að finna og oft lét hann okkur um að koma sjálfir með lausnir ef einhver vandamál komu upp. Ég held að hann hafi kennt okkur svo margt annað en smíðar, sérstaklega sjálfstæð vinnubrögð og úthald. Fátt held ég hafi verið jafn eflandi fyrir sjálfsmatið og að sjá þessa fallegu smíðagripi verða til í höndunum á okkur og það fylgdi því einstök tilfinning að hampa gripunum þegar þeir voru tilbúnir.

Lokaverkefnið og fallegasti og mesti smíðagripurinn var stór skúta úr tré. Það tók margar vikur að smíða hana, sennilega stærstan hluta vorannarinnar í 6. bekk. Þetta verkefni er enn ferskt í minningunni eftir öll þessi ár. Fyrst var lagður kjölur. Svo var smíðaður botn og þá festar á síðurnar og svo skutnum lokað. Þessa skipshluta þurfti að líma og skrúfa saman og pússa vandlega af allar brúnir og misfellur. Síðan var sett kjölfesta neðan á og neðst á hana var sett kjölfesta sem var blýklumpur til að þyngja og auka stöðugleika skútunnar. Þetta blýstykki steyptum við sjálfir. Það var gaman og framandi að bræða blýið og hella því í mótið. Næst var þilfar fest ofan á skipsbúkinn og það pússað og lakkað viðarlitt. Þar næst var bógurinn málaður, hvítur að ofan en blár að neðan. Svo voru settar á festingar fyrir mastur og rá og reiða. Hvít segl voru saumuð og dregin upp. Hver skúta var merkt sérstaklega á stórseglið og mín skúta hlaut nafnið K55. Standur var gerður undir skútuna og þar með var hún tilbúin. Um vorið var haldin, venju samkvæmt, sýning á handavinnu barnanna í skólanum. Vegna stórafmælis skólans var sýningin sérlega vegleg. Ég minnist þess varla, frá öllum mínum langa skólaferli, að ég hafi nokkru sinni verið stoltari af verkum mínum.

Allir smíðagripirnir, velpússaðir og lagalegir eður ei, fengu heiðurssess á heimili foreldra minna Ævars Karls Ólafssonar og Sigrúnar Jóhannsdóttur í Aðalstræti 5 í Innbænum og bakki, skóhorn og skurðarbretti voru notuð lengi. Blómastandurinn stóð í mörg ár í stofunni. Mikið var leikið úti með bílana og þeir skemmdust allt of fljótt en veittu mikla gleði. Allir glötuðust þessir munir þó með tímanum. Nema skútan. Hún varð mér á margan hátt mikilvæg og hennar gætti ég ætíð vel. Ég sigldi henni í nokkur sumur fram af Fjörunni og síðan fylgdi hún mér alla tíð. Svo þegar Guðbjörg Ringsted stofnandi Leikfangahúss Minjasafnsins sýndi því áhuga að fá skútuna á safnið fannst mér það passa einstaklega vel og að hún ætti hvergi betur heima en í Innbænum og þar er hún nú til sýnis. Og ég hef reyndar leyfi til að sigla henni þegar svo ber við, sem ég hef nýtt mér og til mikillar ánægju.

Mér finnst eins og smíði þessarar skútu hafi orðið táknræn fyrir þá eflingu og styrkingu sem strákurinn úr Innbænum fékk í upphafi námsferils síns í Barnaskóla Akureyrar og varð honum svo gott veganesti fyrir lífið.

Ólafur Þór Ævarsson er Akureyringur, fæddur og uppalinn í Innbænum. Hann er geðlæknir og starfar einnig að forvörnum og fræðslu hjá Streituskólanum.

Seigla er orð ársins

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
13. nóvember 2020 | kl. 11:50

Að nota fjölmiðla eða vera notaður af þeim?

Sigurður Kristinsson skrifar
13. nóvember 2020 | kl. 12:00

Að þegja er eiginleiki sem hvarf

Jón Óðinn Waage skrifar
08. desember 2020 | kl. 07:00

Framtakssemin og einkaframtakið

Jóna Jónsdóttir skrifar
18. nóvember 2020 | kl. 08:00

Akureyringar tala dönsku á sunnudögum

Tryggvi Gíslason skrifar
15. nóvember 2020 | kl. 10:00

Sú mikla kúnst að æsa fólk upp

Jón Óðinn Waage skrifar
18. nóvember 2020 | kl. 08:00