Fara í efni
Pistlar

Gífurviður – Konungur Ástralíu

TRÉ VIKUNNAR - LXXXV

Það vakti heimsathygli að þegar Friðrik 10. var krýndur konungur Danmerkur þá eignuðust Ástralir sína eigin drottningu í fyrsta skipti í sögunni. María Danadrottning er jú fædd og uppalin í Ástralíu. En Ástralir hafa lengi haft sína áströlsku kónga. Það er gífurviður eða Eucalyptus spp. Þeir eru kóngar ástralskrar náttúru.


Gífurviðir eru landar hinnar nýju drottninguarDana. Myndin fengin
héðan. 
 

Gífurviðir, Eucalyptus tegundir, eru með eindæmum fjölbreytt tré og vaxa villt óralangt frá Íslandi. Allar eru tegundirnar sem veisla fyrir skynfærin. Heimildum ber alls ekki saman um fjöldann, en óhætt er að segja að þetta eru um 700 tegundir. Til að flækja málið frekar geta margar þeirra myndað frjóa blendinga og sumar mynda margar undirtegundir og afbrigði. Nær allar tegundirnar vaxa í Ástralíu. Aðeins er vitað um einn tug tegunda sem vex ekki í Eyjaálfu (Spadea 2022). Það þarf því ekki að koma á óvart að gífurviður er af mörgum talinn einkennistré Ástralíu. Sannkallaður konungur í ástralskri vist. Fjölbreytni innan ættkvíslarinnar er mikil og nokkrar tegundir teljast mjög mikilvægar á margan hátt. Sumar þeirra verðskulda jafnvel sína eigin pistla og höfum við nú þegar birt einn slíkan. Þær vaxa við fjölbreyttar aðstæður, allt frá regnskógum til eyðimarka. Í mýrum jafnt sem til fjalla og í öllu þar á milli. Samt eru aðeins fáar tegundir sem þola smávægilegt frost.

Þar sem ættkvíslin er bæði stór og fjölbreytt sjáum við okkur ekki fært annað en að skipta umfjölluninni niður í nokkra pistla. Í þessum pistli fjöllum við um sérkenni ættkvíslarinnar og helstu einkenni. Síðar munum við birta pistil um útbreiðslu og sögu þessarar ættkvíslar og annan um runna eða mallees eins og þeir kallast á útlensku. Við útilokum ekki að seinna verði fleiri pistlar birtir um einstakar tegundir ef ástæða þykir til.

Fræðiheitið 
 

Þar sem við kynnum nú nýtt, íslenskt heiti á ættkvíslina, sem opinberlega hefur aðeins verið notað einu sinni áður, þykir okkur rétt að hefja frekari umfjöllun um ættkvíslina á nöfnum tegundanna.

Á latínu kallast þessi ættkvísl Eucalyptus L'Hér. Á mörgum tungumálum er það heiti einfaldlega notað. Orðið kemur úr grísku og merking þess mun vera „vel varið“, „vel þekjandi“ eða eitthvað álíka. Orðið hefur einnig verið notað yfir brunnlok. Það er sett saman úr orðunum eu, sem getur merkt „vel“ og kalyptos, sem er sögnin að „þekja“ (Wells 2010). Orðið vísar í blöðin sem skýla og þekja blóm tegundarinnar á meðan þau eru að þroskast. Blómin eru alveg þakin sérstökum blöðum vel varin með einhverju sem minnir á brunnlok. Svo birtast þau, allt í einu, nánast fullsköpuð.

Blóm og blómknappar á Eucalyptus robusta. Fyrsta myndin sýnir knappa og útsprungin blóm. Miðmyndin sýnir þegar hlífarblöðin, „brunnlokið“, er dottið af blóminu og það birtist. Þriðja myndin sýnir blómbotnana þegar blómin eru fallin. Þar inni þroskast fræin. Myndir fengnar héðan en þær á Brian Johnston.

 

Fullsköpuð blóm á Eucalyptus macrocarpa koma undan brunnlokinu. Myndin er fengin héðan en ekki kemur fram hver tók þessa flottu mynd.

Önnur heiti
 

Þrátt fyrir að víða um heim kallist þessi tré einfaldlega Eucalyptus er það ekki alls staðar þannig. Á heimaslóðum trjánna í Ástralíu er algengara að tala um gum trees eða stringybark trees. Fyrra heitið hefur stundum verið þýtt sem gúmmítré (einnig skrifað gúmtré) en gallinn við þá þýðingu að það heiti er frátekið fyrir allt aðra ættkvísl í annarri ætt. Að auki hafa ýmsar aðrar tegundir verið kenndar við gúmmí, meðal annars er fíkjutegundin, Ficus elastica, gjarnan seld undir þessu nafni í blómabúðum. Þeim mun fleiri tegundir sem ganga undir nöfnunum gúmmítré, gúmtré, eða heitum sem dregin eru af þeim, þeim mun meiri hætta er á ruglingi. Gífurviðir eru ekki gúmmítré.

 

Gífurviður er meðal annars ræktaður í Portúgal. Þar kalla heimamenn tréð Eucalyptus en auðséð er af hverju Ástralar kalla svona tré stringybark trees. Mynd: Guðrún Eggertsdóttir.

Heitið stringybark tree vísar í það að algengt er að börkur trjánna flagni af í löngum næfrum, lengjum eða strípum eins og á myndinni hér að ofan. Gefur það trjánum einkennilegan svip. Við höfum áður fjallað um regnbogagífur sem er einmitt frægt fyrir trjábörkinn sinn og hvernig hann flagnar. Því fer samt fjærri að allar tegundir ættkvíslarinnar myndi svona börk og því er óheppilegt að nýta það heiti yfir allan frændgarðinn.

 

Börkur á regnbogagífur. Myndin er úr pistli okkar um tréð en hana á Như Nhiên

Hér á Íslandi hafa fjölmörg heiti verið notuð yfir ættkvíslina og einstök tré hennar. Eins og svo oft áður lítum við á íðorðabanka Íslenskrar málstöðvar sem helstu heimild. Þar má sjá mörg nöfn. Hið ágæta heiti ilmviðir er þar að finna. Það lýsir ættkvíslinni vel, þar sem flest trén lykta mjög mikið og dásamlega. Svo er það auðvitað heitið tröllatré sem víða er notað. Vísar það bæði í hraðan vöxt og mikla stærð sem sum trén ná. Þau eru beinlínis tröllsleg. Þessi heiti eru ljómandi góð nema hvað þau henta illa í samsetningar þegar gefa þarf einstökum tegundum nöfn. Við viljum helst nota eins eða tveggja atkvæða nöfn ættkvísla í samsetningar.

Svo hefur enska heitið verið beinþýtt í gúmmítré eða gúmtré eins og áður greinir. Þegar heiti einstakra tegunda eru skoðuð kemur fram að nafnið gúmviður er algengast. Finna má krukkugúmvið, mahónígúmvið og myntugúmvið svo dæmi séu nefnd. Allt minnir þetta á gúmmítrén og því höfnum við þessum nöfnum.

Síðasta heitið á ættkvíslina sem við nefnum úr orðabankanum er orðið myrtusviður. Það hefur meðal annars ratað í heiti á skáldsögu eftir Murray Bail og trúlega ratað úr henni í bankann. Af hverju þetta heiti hefur verið notað á ættkvíslina vitum við hreinlega ekki, nema ef vera kunni að það sé dregið af heiti ættarinnar en ekki ættkvíslarinnar. Fyrri liður heitisins hefur verið notaður á ýmsar plöntur og hætt er við að þetta heiti valdi ruglingi. Umfjöllun um heitið má sjá hér neðar á síðunni í ættfræðikaflanum.

Við viljum nefna að sumir vilja nota fræðiheitið en reyna að laga það að íslensku. Þau heiti hafa ekki ratað í orðabankann og við skiljum það vel. Þá hafa orðið til orð eins og júkalyptus, evgalyptus, ojkalyptus og fleiri slík. Stundum með y og stundum án. Þessari hugmynd höfnum við af ýmsum ástæðum. Það gerum við þrátt fyrir að þessi heiti hafa stundum sést á fjölbreyttum vöruflokkum sem innihalda efni úr ættkvíslinni. Ef vilji er til að nota fræðiheitið er það í góðu lagi, en þá er það skrifað Eucalyptus og óþarfi að afbaka það. Sjá má frekari rökstuðning fyrir nafninu sem við notum í pistli okkar um regnbogagífur. Hann viljum við ekki kalla regnbogaevgalyptus. Við höldum okkur við heitið gífurvið og notum fyrri hluta þess í samsettum orðum tegunda. Þá gífurviði sem mynda tré getum við kallað gífurtré og runnana gífurrunna. Ættkvíslina sjálfa köllum við gífurvið. Gífur er gamalt orð yfir tröllskessur og því er sama hugmynd um notkun þess eins og á nafninu tröllatré. Þetta er hvorugkynsorð og beygist gífur, gífur, gífri, gífurs. Í nútímamáli er það helst notað í samsetningum til að nota um eitthvað sem er gífurlega stórt. Við teljum að það sé minni hætta á að ruglast ef talað er um regnbogagífur en regnbogatröll. Hið síðara hljómar síður eins og nafn á trjátegund. Rétt er að geta þess að það var Pétur Halldórsson sem átti þessa prýðishugmynd. Hafi hann okkar bestu þakkir fyrir.

Sérkenni 
 

Þar sem tegundirnar eru svona margar innan ættkvíslarinnar er erfitt að finna sérkenni sem eiga við um þær allar. Í nánast öllum tilfellum má finna einhverjar undantekningar, en við eltumst ekki við þær hér. Við fjöllum nánar um þessi einkenni í næstu köflum en viljum fyrst nefna að tegundirnar vaxa hratt og eru alltaf frumherjategundir sem eiga auðvelt með að nema land þar sem aðstæður henta. Það kemur frumherjum vel að hafa öfluga svepprót og gífurviðir hafa hana að öllu jöfnu. Eins og títt er um frumherjategundir teljast trén ekki skuggþolin, heldur ljóselsk.

 
 

Lundur gífurviða. Trén eru ljóselsk og mynda fremur gisna krónu sem hleypir miklu ljósi í gegnum sig. Myndin er fengin af heimasíðu hlaðvarpsþáttanna My Favorites Trees um gífurviði, sem Thomas Spade hélt úti. Því miður hefur hann snúið sér að öðru.

Lauf 
 

Gífurviðir eru nær alltaf sígræn lauftré. Þau þurfa samt að endurnýja lauf sín eins og önnur tré en gera það fæst á einhverjum tilteknum tíma, heldur smám saman, þannig að laufkrónan er alltaf græn og falleg (Spadea 2022). Oftast eru laufin lensulaga og miðstrengurinn mjög áberandi. Á mörgum tegundum hanga þau niður frekar en að sperrast út í loftið. Þau eru leðurkennd og þykk. Algengast er að þau séu blágræn eða grágræn á litinn og oft má sjá slík blöð í blómaskreytingum á Íslandi. Það veldur stundum vandræðum við greiningu trjánna, samkvæmt World Flora Online, að ung tré geta haft blöð sem eru mjög frábrugðin laufum á eldri trjám. Ungar plöntur geta því verið ólíkar eldri trjám. Ungir sprotar, eða sprotar á ungum trjám, hafa oft stilklaus og nær hringlaga eða hjartalaga lauf á meðan eldri tré, sömu tegundar, hafa lensulaga blöð með stilk.

 

Brúðarvöndur þar sem meðal annars má sjá greinar af gífurvið. Á þeim eru bæði lauf og lítt þroskuð fræhulstur. Þessi lauf gætu verið af fullorðnum trjám því þau hafa stilk þótt þau séu ekki lensulaga. Ættkvíslin er mjög fjölbreytt. Myndin fengin héðan.

Vísindamenn af ýmsum kynjum hafa velt því fyrir sér af hverju blöð ungra trjáa eru svona ólík blöðum eldri trjáa hjá mörgum gífurviðum. Í því sambandi má minna á að kímblöð tvíkímblaða plantna eru oftast gjörólík næstu blöðum sem plantan myndar. Einhverra hluta vegna eru fyrstu blöð gífurviða, sem vaxa upp á eftir kímblöðunum, líkari þeim en eldri blöðum. Hvað veldur þessari þróun er með öllu óþekkt. Það er eins og genin sem ráða útliti laufanna verði ekki að fullu virk fyrr en tréð, eða greinar þess, fara að þroskast.

Þar sem gífurviðir eru ræktaðir til að nýta greinar í blómaskreytingar er þeim gjarnan haldið ungum með sífelldri klippingu. Þá eldast runnarnir ekki og mynda því alltaf þessi hringlaga laufblöð. Einnig er vitað að ólíkt gífurtrjánum mynda sumir gífurrunnar ekki lensulaga blöð. Hjá þeim er oft enginn munur á laufum yngri og eldri runna. Lauf trjáa í þessari ættkvísl eru ákaflega olíurík. Það gerir það að verkum að oftast er mikil lykt af þeim. Í flestum tilfellum telst það góð lykt, en smekkur manna (þar með talið kvenna og kvár) er misjafn. Sagt er að lyktin sé einskonar mentóllykt, eða krydduð myntulykt. Þau sem gerst þekkja geta jafnvel þekkt og greint gífurviði af lyktinni einni saman og greint þá til tegunda áður en þau sjá trén. Það er sagt vera nær ógleymanlegt að fara um götur þar sem mikið er af gífurviðum í nágrenninu og finna ilminn af þeim.

Þessi olía í laufum trjánna er eitt af því sem mannfólkið nýtir af þeim. Lyktin þykir mörgum hressandi og hún losar um stíflur í nefholi. Það er algengt að sjá Eucalyptus sem innihaldslýsingu á allskyns sykurmolum sem hjálpa eiga í baráttunni endalausu við kvef. Þetta varð til þess að Samson Bjarnar Harðarson stakk upp á því að kalla þessa ættkvísl kveftré til heiðurs olíunni sem í þeim er.

 

Laufblöð á Eucalyptus robusta. Miðstrengur laufanna mjög áberandi. Myndin er fengin héðan en hana á Brian Johnston.

Ástæða þessarar miklu olíumyndunar í gífurviðum er sú að olían virkar sem eitur á fjölmörg dýr. Í sumum tilfellum fælir lyktin skordýr frá því að éta blöðin og öðrum verður bumbult af henni. Það eru reyndar þessir sömu eiginleikar sem valda því að olían er nýtt til sótthreinsunar því jafnvel lyktin, ein og sér, getur drepið ýmsar tegundir af gerlum og sveppum. Samt er það svo að okkar tegund, tegundin maður, líkar oftast ljómandi vel við þessa lykt. Sums staðar þekkist sá siður að hengja upp greinar með gífurviðalaufum í sturtuklefa. Þegar fólk fer í sturtu verða laufin rök og heit og gefa frá sér lykt sem hugnast mörgum um leið og hún sótthreinsar.

Samt er það svo að ef við drekkum óunna olíu, eða borðum mikið af laufum telst olían eitruð. Lítil hætta er samt á því að við gerum það af slysni því laufblöðin eru alveg hryllilega bragðvond.

Þróun lífvera er sífelld barátta á milli bráðar og afræningja. Það á einnig við um tré og þau dýr sem vilja nýta þau sem fæðu. Því er það þannig að ýmiss dýr hafa þróað með sér aðferðir til að komast framhjá olíuvörnum gífurviða. Maurar og bjöllur éta viðinn á lifandi trjám og sum af stærstu fiðrildum í heimi búa í gífurviðaskógum og láta ekki eitrið trufla sig. Lirfur sumra þeirra háma í sig blöð gífurviða án þess að verða meint af á meðan aðrar bora sig inn í trjástofna.

Kvenkyns Endoxyla cinereus verður um 30 g að þyngd og getur haft allt að 23 cm vænghaf. Lirfurnar bora sig inn í trjástofna gífurviða. Myndirnar fengnar héðan. 

Blóm
 

Fegurð blóma á gífurtrjám er sérstök og ómótstæðileg. Blómin eru eiginlega líkari kóröllum en blómum, svona fljótt á litið. Við, mannfólkið, sjáum þau ekki fyrr en þau eru alveg við það að springa út. Við sögðum frá þessu í kaflanum um fræðiheiti tegundarinnar. Blöðin sem verja blómvísana eru í raun ummynduð krónublöð sem tekið hafa upp annað hlutverk en að skarta litum og laða að frjóbera. Þessi sérkennilegu krónublöð eru fyrst græn, svo visna þau og verða brún áður en þau detta af. Þá koma sjálf blómin í ljós, en á þeim eru engin, hefðbundin krónublöð. Blómin geta verið í ýmsum litum. Algengt er að sjá hvít, rauð, og appelsínugul blóm og til eru enn fleiri litir.

 

Bleik blóm á Eucalyptus lansdowneana sem oftast ber hvít blóm. Sjá má skordýr í blómunum ef vel er að gáð. Blöðin eru mjög dæmigerð fyrir ættkvíslina. Mynd: Bindon Burns og birti hana á Facebooksíðunni Nuts about Gums.

Allskonar dýr laðast að þessum litfögru og ilmandi blómum og sjá um að fræva þau. Þar má finna skordýr, fugla og lítil spendýr. Hunangsflugur voru einu sinni fluttar til Ástralíu og lifa þar góðu lífi þótt þær hafi ekki komið sér þangað sjálfar. Þökk sé blómum gífurviða. Því hefur verið haldið fram að ástralskt hunang hafi merkilega mikinn piparmyntukeim og ástæðan er auðvitað þessi ættkvísl trjáa.

Í bókum er gjarnan tekið fram að flest trén blómstra mjög mikið.

 

Undurfögur blóm á Eucalyptus ficifolia. Þessa tegund mætti nefna fíkjugífur á íslensku. Sumar heimildir flokka þessa tegund sem Corymbia ficifoliia. Nánar um þessa meintu ættkvísl hér á eftir. Myndin fengin héðan.

 

Dæmi um mismunandi blóm fengin úr þessari grein. Nöfnin við myndirnar sýna að ekki er full sátt um hvaða tré skuli telja til ættkvíslarinnar. 

Fræ
 

Fræin, sem ættkvíslin myndar, eru mörg saman inni í harðri skel sem lítur út eins og lítil hneta. Fyrirbærið kallast gúmmíhnetur í Ástralíu en þær teljast ekki heppilegar til átu fyrir okkur. Hjá mörgum trjám er það þannig að fræin opnast ekki nema að þessi trjákennda vörn brenni í burtu. Þá er heppilegur tími fyrir ungviðið að spíra í hlýrri og næringarríkri ösku (Tudge 2005, Attenborough 1995). Hjá öðrum tegundum er skelin mýkri og minnir á ber. Þau aldin eru étin af fuglum sem dreifa fræjunum. Gífurviðir sem hafa seinni háttinn á vaxa frekar á svæðum þar sem skógareldar eru fátíðir.

Stærstu „hneturnar“ eru af tegund sem kallast E. macrocarpa og þær verða um 5-6 cm í þvermál (Petruzzello án ártals). Hægt er að greina í sundur líkar tegundir á fræhulstrunum.

 

Dæmi um mismunandi aldin fengin úr þessari grein. Fræðinöfn tegunda og stærð fræhúsa er gefin upp. Rétt er að taka fram að tegundin Corymbia abergiana hefur lengi verið kölluð Eucalyptus abergiana. Þess vegna fær hún að vera með.

 

Fleiri dæmi um fræhulstur. Algengt er að þau hangi lengi á trjánum og bíði eftir að skógareldar opni þau. Myndir úr sömu grein og vísað er í hér ofar.

Svepprót 
 

Mikill fjöldi sveppa myndar svepprót með gífurviðum. Það er óvíst að fleiri sveppategundir finnist í sambýli með trjám heldur en hjá þessari ættkvísl (Tudge 2005). Þetta skiptir miklu máli og hjálpar trjánum að nema land á nýjum slóðum og í næringarsnauðum jarðvegi. Nóg er af honum í Ástralíu. Þetta gerir það líka að verkum að trén bæta oftast þann jarðveg sem þau vaxa í. Inn á þetta atriði verður komið nánar þegar við fjöllum um sögu trjánna í sérstökum pistli. Þangað til má lesa um þetta með því að skoða heimildir í heimildaskrá.

 

Sumir sveppir lifa í sambýli við gífurtré, aðrir eru sníkjusveppir og enn aðrir eru rotsveppir eins og þessi. Myndin er af áströlskum sveppum og sveppþráðum. Myndin fengin héðan þar sem fá má frekari upplýsingar um hann.

Ættfræði 
 

Gífurviðir tilheyra myrtuætt eða Myrtaceae. Vel má vera að það sé ástæða þess að ættkvíslin hefur stundum verið nefnd myrtusviður. Fjölmargar ættkvíslir eru innan ættarinnar en Eucalyptus er þeirra þekktust og skiptir mestu máli í efnahagslegu og vistfræðilegu tilliti (Petruzzello án ártals). Eins og áður segir eru um 700 tegundir innan ættkvíslarinnar en heimildum ber illa saman um fjöldann. Þannig segir á heimasíðu Britannicu að tegundirnar séu 660 en hér er því haldið fram að þær séu fleiri en 700. Sumar aðrar ættkvíslir innan ættarinnar eiga ýmislegt sameiginlegt með gífurviðum. Hafa þær stundum í sameiningu verið kallaðar Euclid. Þá bætast við ættkvíslir eins og Angophora sem er mjög algeng í austurhluta Ástralíu, og Corymbia sem vex um meginlandið norðanvert. Ef þetta er gert fjölgar tegundunum upp í um 900 (Spadea 2022). Við gerum það ekki í þessum pistli heldur höldum okkur við ættkvíslina Eucalyptus eins og hún er skilgreind nú um stundir. Nægur er fjöldinn samt. Undanfarin ár hafa sumir vísindamenn tekið sumar tegundir úr Eucalyptus ættkvíslinni og flutt þær í Corymbia ættkvíslina. Þetta sést á myndum hér ofar af blómum og fræhulstrum. Ekki er full sátt um þessa flokkun en þetta kann að vera hluti þeirrar skýringar að Britannica hefur fækkað tegundunum niður í 660.

 

Metrosideros kermadecnsis 'Variegata' er nýsjálensk tegund af myrtusætt og blómin minna dálítið á gífurviði. Lyktarleysi blaðanna kemur upp um að tegundin telst ekki til gífurviða. Þetta eintak vex í Algarve í Portúgal. Til Nýja-Sjálands hafa gífurviðir ekki borist af sjálfsdáðum. Mynd: Sig.A.

Þar sem tegundafjöldinn er nokkuð mikill innan ættkvíslarinnar hafa grasafræðingar stundum skipt ættkvíslinni í minni hópa. Sumir vilja gera miklar breytingar og skipta gífurviðum í margar ættkvíslir. Í bók sem við eigum frá árinu 1991 kemur fram að þá þegar voru uppi bollaleggingar um að skipta ættkvíslinni upp (Macoboy 1991). Þar eru nefnd Corymbia, Symphyomyrtus, Monocalyptus, Idiogenes og Blakella (bls. 125) sem dæmi um heiti sem grasafræðingar vilja nota til að skipta ættkvíslinni upp. Til gamans skoðuðum við hvort hin merka netsíða World Flora Online kannaðist við þessi nöfn. Þá kom í ljós að vísindamenn virðast vera sammála um að nota fyrsta heitið, Corymbia og að annað heitið, Symphyomyrtus megi líta á sem samheiti Eucalyptus. Hin þrjú eru þeim vísindamönnum sem sjá um síðuna framandi. Hér ofar er sagt frá því að sumir telja að Corymbia myndi sérstaka ættkvísl. Af þessu má sjá að því fer fjarri að öll kurl séu komin til grafar í þessu máli.

 

Eucalyptus globulus. Myndin fengin héðan.

Cittarnajan Kole segir frá því í sínu riti frá árinu 2007 að þá séu í gangi miklar rannsóknir á erfðaefni trjáa sem tilheyra þessari ættkvísl. Tilgangurinn var að skoða skyldleikann til að búa til hraðvaxta blendinga og finna harðgerðustu trén. Þessar rannsóknir má eflaust nýta til að taka aðeins til í ættkvíslinni en mikið verk er óunnið og þarna er bara verið að skoða þau tré sem vaxa hraðast. Rannsóknirnar höfðu þó þegar á þessum tíma sýnt fram á mjög mikinn fjölbreytileika í genamengi gífurtrjáa og genaflæði milli einstakra tegunda (Kole 2007).

Heppileg skipting
 

Ein hugmyndin er sú að heppilegt sé að skipta gífurviðum niður í tvo nokkuð ólíka hópa. Annars vegar eru tegundir sem mynda tré, hins vegar þær sem mynda litla og stóra runna. Í fyrri hópnum eru tré sem að jafnaði hafa einn beinan stofn og verða að minnsta kosti níu metrar á hæð. Sum verða reyndar umtalsvert hærri en það. Sumar tegundir geta orðið með allra hæstu trjám í heimi. Í seinni hópnum eru þeir trjákenndu gífurviðir sem mynda frekar runna en tré. Sá hópur gengur stundum undir heitinu mallees. Þær tegundir sem mynda þennan hóp lifa flestar á mjög þurrum svæðum í Ástralíu og ná sjaldan níu metra hæð, þótt það komi fyrir. Þar sem við erum meira að fjalla um trén í þessum pistli setjum við runnana í sérstakan pistil sem við birtum síðar undir nafninu Gífurrunnar. Margt er sameiginlegt með þessum hópum, en annað er ólíkt.

 

Gífurrunnar eru á margan hátt frábrugðnir gífurtrjám. Saman mynda þessir hópar gífurviði. Myndin fengin héðan en hana á © Hans Wismeijer.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hrós

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. september 2024 | kl. 11:00

„Ertu gjörsamlega orðinn galinn?“

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
14. september 2024 | kl. 06:00

Hver á að ala upp barnið mitt? Við þurfum allt þorpið

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
13. september 2024 | kl. 06:00

Reiði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. september 2024 | kl. 08:50

Lífviður frá Asíu

Sigurður Arnarson skrifar
11. september 2024 | kl. 09:45

Verkstjórar eigin hugmynda

Magnús Smári Smárason skrifar
10. september 2024 | kl. 15:45