Gamla-Gróðrarstöðin og garðyrkjuskólinn sem aldrei varð
TRÉ VIKUNNAR - 143
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Útdráttur
Í þessum pistli er sagt frá Gömlu-Gróðrarstöðinni á Krókeyri. Garðurinn við húsið er einn af þremur trjáreitum í Eyjafirði frá fyrstu árum síðustu aldar, Stöðin var formlega stofnuð árið 1904 af Ræktunarfélagi Norðurlands sem tók til starfa ári áður. Í greininni er stiklað á stóru í sögu garðsins og sýndar gamlar og nýjar myndir úr honum. Einnig segjum við frá hugmyndum sem uppi voru um að stofna garðyrkjuskóla á staðnum og hvernig það mál var svæft í nefnd á sínum tíma. Að lokum segjum við frá hugmyndum um að svæðið verði trjásafn sem gæti orðið hluti af safnasvæðinu á Krókeyri.

Stofnun
Árið 1903 var hið merkilega félag Ræktunarfélag Norðurlands stofnað. Fyrsti formaður þess var Páll Briem (1856-1904) amtmaður sem einnig hafði komið við sögu þegar Trjáræktarstöðin var stofnuð þar sem nú er Minjasafnsgarðurinn. Að félaginu stóð áhugafólk um ræktun en markmið þess var að virkja vísindin í þágu atvinnulífsins og hafa forgöngu um jarðræktartilraunir og kennslu í jarðrækt. (Ásta og Björgvin 2012, bls. 10 og 11).

Hugmyndin að stofnun félagsins mun upphaflega hafa komið frá Sigurði Sigurðarsyni (1871-1940) sem seinna varð búnaðarmálastjóri (Ásta og Björgvin 2012, bls. 10) og fyrsti formaður Skógræktarfélags Íslands sem stofnað var á Þingvöllum í júní árið 1930. Enn er ónefndur þriðji mikilsvirti ræktunarhugsjónamaðurinn sem í upphafi lagði einnig sín lóð á þessa vogarskál ræktunarmála. Það var Stefán Stefánsson frá Möðruvöllum.


Nafnið
Þegar þessi gróðrarstöð Ræktunarfélags Norðurlands var stofnuð fékk hún fyrst hið virðulega nafn Aðaltilraunastöð Ræktunarfélags Norðurlands en síðar gekk hún undir nafninu Gróðrarstöðin. Á sama tíma var eldri garðurinn, sem nú heitir Minjasafnsgarður, kallaður Trjáræktarstöðin. Árið 1947 var stofnuð gróðrarstöð á vegum Skógræktarfélags Eyfirðinga í Kjarna. Þessar gróðurstöðvar þurfti að greina að og þá var farið að tala um Gömlu-Gróðrarstöðina. Heitið Gróðrarstöðin hafði með tímanum fest í sessi þótt það hefði ekki verið hugsað þannig í byrjun. Sama ár og Skógræktarfélagið stofnaði gróðrarstöð, eða 1947, tók ríkið við rekstri stöðvar Ræktunarfélagsins. Hið opinbera heiti var þá Tilraunastöðin á Akureyri. Árið 1974 var stöðin flutt að Möðruvöllum í Hörgárdal (Bjarni og Hallgrímur 2012).

Ræktunarfélag Norðurlands fékk til afnota um þriggja hektara land í kringum Naustagil og rúma fimm hektara uppi á brekkunni, sunnan við Naustatúnið sem þar var. Þetta voru því samtals rúmir átta hektarar sem Akureyrarbær afhenti félaginu til afnota árið 1903. Þar hófust tilraunir með ræktun ýmissa jurta og trjáa ári síðar og er miðað við það ár sem stofnár Gömlu-Gróðrarstöðvarinnar. Sama ár hófust einnig tilraunir með notkun áburðar og voru í því sambandi gerðar uppskerumælingar við mismunandi aðstæður. Það sem nú er mest áberandi á þessum átta hekturum eru trén sem plantað var í tilraunaskyni (Bjarni og Hallgrímur 2012).


Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn
Þegar mamma eyðilagði jólin
Orustan um Waterloo
Gefjun skóp ekki annan Játvarð Loðvík
Hvenær kemur flugstöðin?