Fara í efni
Pistlar

Að þegja er eiginleiki sem hvarf

Ég var fimm ára þegar ég fyrst reiddist og missti stjórn á skapi mínu. Það var á leikskóla, ég sat við lítið borð og var að lita mynd. Strákur að nafni Andrés kom og krassaði á myndina mína. Ég snöggreiddist, tók kollinn sem ég sat á og þrykkti honum niður á hausinn á Andrési svo að setan brotnaði af. Síðan las ég honum pistilinn og sparaði ekki blótsyrðin. Þegar mamma kom mætti leikskólastýran henni og með grafalvarlegum svip spurði hún: „Vissir þú að sonur þinn kann að tala?“

Upp frá þessu jókst málgefni mín jafnt og þétt. Yfirleitt er það svo hjá fólki að með auknum þroska þá lærir það hvenær á að tala og hvenær að þegja. Ekki ég, þvert á móti jókst málgefnin jafnt og þétt þannig að um hreint málæði er að ræða þegar ég er í stuði. Að þegja er eiginleiki sem hvarf mér þegar ég lumbraði á Andrési.

Svo flutti ég 52 ára gamall til Svíþjóðar og kunni ekki stakt orð í sænsku. Fyrsta árið þagði ég og hlustaði. Þvílík martröð fyrir mann sem alltaf hefur rétt fyrir sér og er óþreytandi við að gera öllum öðrum það ljóst. Ég fékk vinnu í skóla og í tengslum við vinnuna þurfti ég að sitja á óteljandi fundum. Þarna sat ég og hlustaði á fólk hafa rangt fyrir sér án þess að geta leiðrétt það. Stundum sofnaði ég úr leiðindum, alveg satt.

Smám saman lærði ég sænskuna. Svo vel að á einum fundi blandaði ég mér í umræðuna. Ég komst á skrið, leiðrétti alla og studdi mál mitt með ótal reynslusögum; gamli Ódi var mættur til leiks. Alveg þangað til skólastjórinn baðaði út höndunum framan við andlitið á mér. Þá þagnaði ég og leit afsakandi á hann og spurði hvort það hefði verið betra meðan ég kunni litla sænsku. „Já,“ svaraði hann.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Skógarjaðrar

Sigurður Arnarson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:30

Svona bara af því bara

Sigurður Ingólfsson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:02

Fannfergi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. mars 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Spítalavegur 15

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
24. mars 2024 | kl. 19:00

Gleðispillirinn og neyslunöldrarinn kveður sér hljóðs

Rakel Hinriksdóttir skrifar
23. mars 2024 | kl. 06:00

Eins gott að þú baðst ekki um bjúgu!

Orri Páll Ormarsson skrifar
22. mars 2024 | kl. 10:30