Fara í efni
Pistlar

Hörður

Þegar maður er orðinn þetta gamall þá er það svo að sú kynslóð sem ól mig upp er byrjuð að yfirgefa þetta líf. Það er sárt en þó er það gleðilegt að þau náðu að lifa þetta lengi og það er ekki sjálfgefið og því ber manni að fagna, líka þegar þau yfirgefa okkur.

Nú þegar ég skrifa þetta er Inga mín á Íslandi að jarðsetja föður sinn, Hörð Kristinsson. Við Hörður kynntumst aldrei náið, við Inga fluttum frá Íslandi fjórum árum eftir að við hófum sambúð og það tók meira en fjögur ár að kynnast náið manni eins og Herði. Hvernig á maður að geta skilið að maður sem menntar sig í sínu fagi erlendis og býðst að loknu námi prófessors staða við einn af frægustu háskólum heims með tilheyrandi launum og aðstöðu afþakkar það vegna þess að hann hafi ákveðið að kortleggja alla náttúru Íslands? Ver svo ævinni í það verk og framkvæmir það og meira til. Þetta er efni í bíómynd.

Áður en við fluttum út fór ég í nokkra gönguferðir með Herði út í náttúruna. Inga og dætur hennar voru að sjálfsögðu alltaf með. Talandi um efni í bíómynd, sviðsmyndin var svona: Gamall maður, dóttir hans og tvær afadætur hans á barnsaldri leggja af stað i gönguferð. Strax og gangan hefst setja þau öll fjögur samtímis hendurnar aftur fyrir bak, halla sér örlítið fram og svo er horft rannsakandi niður í grasið og gengið í takt rólega af stað. Öll finna þau leyndardóma þar niðri sem þau sýna hvert öðru og öldungurinn í hópnum útskýrir á sinn sérstaka, hlýja og afslappaða hátt. Aftast í hópnum stend ég og glápi skilningsvana á þessa nýju fjölskyldu mína.

Í síðustu gönguferðinni sem ég fór með Herði gerðist atburður sem var meira í mínum anda. Við Inga mín bjuggum þá í Kristnesi, sem er fallegasti staður á jörðinni að mínu mati. Hörður fór með okkur í gönguferð um skóginn ofan við Kristnes og eins og alltaf voru það hendur aftur fyrir bak, halla sér fram og horfa niður. Í þetta skipti líka ég. Við höfðum ekki gengið lengi er við mættum landeigandanum að hluta skógarins. Hann tók okkur vel og hóf svo fínan fyrirlestur um þær plöntur sem þarna væri að finna. Fljótlega byrjaði að krauma í mér kímnin, mér þótti þetta hrikalega fyndið. Þarna stóð Hörður tengdafaðir minn, einn þekktasti grasafræðingur heims og hlustaði á fyrirlestur bónda sem örugglega hafði lært alla visku sínu af bókum sem Hörður hafði skrifað. Hörður hlustaði rólegur á og sagði ekkert, ég bjóst heldur ekki við því af jafn auðmjúkum manni og Herði. Von mín snérist um hversu lengi bóndinn myndi tala áður en að hann áttaði sig á hver væri í áheyrendahópnum. Mér til ómældrar gleði var það góð stund sem hann hélt áfram með fyrirlesturinn, allt þar til hann í miðju orði snarþagnaði, horfði á Hörð og sagði: „Ég er að tala við Hörð Kristinsson, guð minn góður“, og svo greip hann fyrir andlitið. Ég hins vegar dó næstum því úr hlátri.

Fyrir nokkru síðan setti Inga mín inn mynd af mér og henni þar sem ég held utan um hana. Hörður skrifaði við myndina að hann treysti því að ég myndi alltaf hugsa vel um Ingu hans. Því getur hann treyst.

Jón Óðinn Waage er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari

Kunningi frænda míns

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. maí 2024 | kl. 14:00

Dagur læknisins

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
17. maí 2024 | kl. 18:00

Kolefnissugur og endurskinshæfni gróðurlenda

Sigurður Arnarson skrifar
15. maí 2024 | kl. 13:30

Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 35 (Fagrastræti 1)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
15. maí 2024 | kl. 08:00

Þúfnaganga

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. maí 2024 | kl. 13:30

Fagurt er til fjalla

Sverrir Páll skrifar
12. maí 2024 | kl. 11:30