Bjarni Magnússon fv. hreppstjóri látinn

Bjarni Magnússon, fyrrverandi hreppstjóri í Grímsey, lést sunnudaginn 29. ágúst, 91 árs að aldri. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Bjarni fæddist í Syðri-Grenivík í Grímsey 30. júní 1930 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Magnús Stefán Símonarson, hreppstjóri í Sigtúni í Grímsey, og Siggerður Bjarnadóttir húsfreyja.
Morgunblaðið segir:
Bjarni var við vélstjóranám á Akureyri 1948-1949. Hann var vélgæslumaður fyrir Rafmagnsveitur ríkisins, vatnsveitustjóri, vitavörður og slökkviliðsstjóri í Grímsey. Bjarni sat í hreppsnefnd í Grímsey frá 1962-1970. Hann tók við starfi hreppstjóra árið 1969 og gegndi starfinu í nákvæmlega 40 ár, tvo mánuði og tvo daga eins og hann orðaði það sjálfur í samtali við Morgunblaðið í tilefni áttræðisafmælisins árið 2010. „Þó er ég náttúrlega alltaf kallaður hreppstjóri ennþá,“ sagði Bjarni við það tilefni og hló við.
Bjarni sá um kosningar í Grímsey í um fimmtíu ár. Hann var einn af stofnendum Kiwanisklúbbsins í Grímsey og var forseti hans. Bjarni stundaði það um áratugaskeið að síga í björg eftir eggjum og veiða lunda. „Ég byrjaði á bjargi þegar ég var þrettán ára, 1943. Þá var ég að teyma hest fyrir pabba,“ sagði Bjarni í viðtali við Morgunblaðið árið 2008.
Bjarni var kvæntur Vilborgu Sigurðardóttur, ljósmóður, símstöðvarstjóra og veðurathugunarmanni. Hún fæddist 1. maí 1929 en lést 2. febrúar 2009. Bjarni og Vilborg eignuðust fimm börn; Siggerði Huldu, Sigurð Inga, Kristjönu Báru, Magnús Þór og Bryndísi Önnu. Barnabörnin eru 12, þar af eitt látið, og barnabarnabörnin eru 11.


Að nota fjölmiðla eða vera notaður af þeim?

Að þegja er eiginleiki sem hvarf

Framtakssemin og einkaframtakið

Akureyringar tala dönsku á sunnudögum
