Fara í efni
Pistlar

Betrekk

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 71

Á Akureyri gat veggfóður aldrei heitið svo útflöttu orði, en betrekk var miklu nærri lagi, og raunar svo erlendis, að norðanmennirnir fyrir botni fjarðarins langa fóru að líma það á veggi heimila sinna eins og hver önnur klæðning eða málning væri algerlega úr sögunni.

En betrekk var um alla veggi þegar þeir mættust heldur kumpánlega, sjöundi og áttundi áratugur tuttugustu aldarinnar. Og allt var að breytast. Ekki síst híbýli fólks. En það sem áður var þjóðlegt og hóflegt, varð í skjótri hendingu svo smart og skrautlegt að heimilin tóku algerum stakkaskiptum.

Í Espilundi var afráðið að betrekkja herbergi allra okkar systkinanna. Þetta væri ódýrt efni, en endingargott. Og það væri auðveldara að þekja veggina með því en að mála þá. Betrekkið væri í rauninni undraefni.

Ég man að systur mínar völdu sér blómamunstur með tiltölulega mildum litum sem ógnuðu ekki auga manns, en við bræðurnir voru lítið eitt róttækari. Olli þar öllu þyngra rokkið sem farið var að fylla hlustir okkar. Gunni bróðir valdi sér gítarmunstur á veggi sína, með allra handa slaggígum í ótrúlegustu litum og lögum, en ég kaus að hafa á veggjum mínum sýrukenndar bylgjur sem liðu frá gólfi upp í loft, og áttu að túlka tilraunakennda tónlist okkar tíma.

En það var kúnst að koma þessu upp. Límið í balanum varð að vera rétt blandað og þar að auki mátti ekki ausa því á bakhliðina á betrekkinu í allt of miklum slatta, heldur að kunna sér hófs. Og þar má segja að ákafi margra hafi orðið árangrinum yfirsterkari.

Og þess vegna kom betrekkið og fór á fyrstu árum áttunda áratugarins. Það lafði stundum á lýginni á betri heimilum Brekkunnar. Af því að veggfóðrun er fag. Og pabbi játaði sig sigraðan, eins og flestir feður. Því veggi ætti að mála.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: ÓMEGÐ

Skáldið Jónas Þorbjarnarson (1960-2012)

Arnar Már Arngrímsson skrifar
16. október 2025 | kl. 08:30

Vatnsskaði – Um áhrif flóða og vatnsmettunar jarðvegs á tré

Sigurður Arnarson skrifar
15. október 2025 | kl. 10:00

Hús dagsins: Háls í Eyjafirði

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
13. október 2025 | kl. 06:00

Álfar og huldufólk

Jóhann Árelíuz skrifar
12. október 2025 | kl. 13:00

Við nennum ekki þessu uppeldi

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
11. október 2025 | kl. 06:00

Geðheilbrigðisdagurinn 2025

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2025 | kl. 06:00