Fara í efni
Pistlar

Að rekja upp umræðuna

Ég hef eignast nýtt áhugamál, sem er prjónaskapur. Það er eitthvað gefandi, róandi og heillandi við að prjóna, skapa flíkur og sjá þær verða ástvinum til gleði og hlýju. Að sama skapi reynir töluvert á þolinmæði og seiglu þegar mistök verða við prjónaskapinn, líkt og um daginn þegar ég áttaði mig á að vestið sem ég var komin áleiðis með var snúið á prjónunum. Ég leitaði til vinkvenna minna í Garn í gangi sem tjáðu mér samúðarfullar á svip að vandinn hefði orðið til þegar ég fitjaði upp á prjónana og þess vegna væri aðeins ein leið fær til að laga skekkjuna, að rekja allt upp og byrja frá grunni. Það er sumsé ekki hægt að fara neina fjallabaksleið þegar prjónaskapur er annars vegar.

Við förum hins vegar oft fjallabaksleið í mannlegum samskiptum þrátt fyrir að mannleg samskipti lúti nákvæmlega sömu lögmálum og prjónaskapur og þar sé raunar mun meira í húfi. Í starfi mínu sem sálgætir sé ég þetta alloft þegar hjón koma með sín vandamál á minn fund. Þar er mjög algengt að vandinn eigi sér rætur í upphafi sambandsins, að þá hafi orðið snúningur, núningur og skekkja sem aldrei var rakin upp, kannski vegna þess að þá var parið svo ástfangið og spennt fyrir framtíðinni að það hætti ekki á að rugga bátnum. Þegar mér varð litið á snúna vestið langaði mig auðvitað mest til að líta í hina áttina og halda áfram því fátt ef nokkuð er skemmtilegra en ilmandi nýtt handverk.

Umræður á samfélagsmiðlum lúta einnig sömu lögmálum, þeim sömu og prjónaskapurinn. Oft fer einhver mikilvæg umræða af stað, byggð á góðum ásetningi og vilja til að skapa betra og hlýrra umhverfi en af því að það er skekkja í uppfitinu þá nær umræðan aldrei að verða það sem lagt var upp með. Þegar fitjað er upp á nýrri umræðu, að ég tali nú ekki um viðkvæmri umræðu sem hefur áhrif á framtíð einstaklinga þá er ótrúlega mikilvægt að skoða fyrst hverju umræðan á að skila. Jú margir leggja áherslu á að skila skömm sem er ákveðin líkn út af fyrir sig en þá þarf líka að skoða hvernig best er að skila henni, ég hef ekki einhlítt svar við því en ef ég skoða heildarhamingjuna og velferð samfélagsins myndi ég skjóta á að best væri að skila skömminni með því að draga gerendur ofbeldis til ábyrgðar og fá þá til að horfast í augu við gjörðir sínar og afleiðingar þeirra. Mér finnst sú leið líklegri til breytinga og heildarhamingju bæði gerenda og þolenda fremur en sú leið að hræða alla, gerendur, þolendur og allt samfélagið í heild sinni með beinum og óbeinum hætti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að aðferðirnar verði til að draga úr ótta bæði þolenda og gerenda við að stíga fram þannig að þolendur þori að tjá reynslu sína og gerendur þori að gangast við ábyrgðinni. Ég upplifi að umræðan á samfélagsmiðlum sé orðin þannig að allir séu hræddir, mæður drengja reiðar yfir tvískiptingu hinna góðu og slæmu stráka, strákarnir sverja hvern annan af sér því enginn vill vera vinur einhvers sem brotið hefur af sér og þolendur margir hverjir skelfingu lostnir yfir framtíðinni, hverju mun umræðan raunverulega skila? Er skrefið sem þeir stigu streitunnar virði? Er ég að stíga fram með mína sögu til einhvers eða verður hún gleymd í næsta stríði. Umræðunni er stjórnað af tiltölulega fáum, sem er ekki gott og tjáningarfrelsið einskorðast við hið „rétta“ orðaval og jafnvel frasa. Tilgangurinn virðist ekki vera sá að snúa við steinunum í fjörunni heldur kasta þeim í næsta mann. Að mínum dómi þarf að rekja þessa umræðu upp og vanda betur til verka. Málþing, umræður í sjónvarpi, ígrundaðar greinar og viðtöl við allskonar fólk, lærða sem leika, hugmyndir að úrræðum bæði fyrir þolendur og gerendur í samtali við kjörna fulltrúa og fagaðila og samfélagssáttmáli unninn eins og þjóðfundurinn forðum þar sem karlar og konur setja orð á það hvað mörk og mannleg samskipti merkja. Ég er einfaldlega að reyna að segja að mér finnst við þurfa að vanda okkur betur þannig að umræðan sé okkar þjónn en við ekki þrælar hennar. Ég vona að orð mín verði ekki misskilin en tek samt áhættuna með virðingu og vinsemd.

Hildur Eir Bolladóttir er prestur í Akureyrarkirkju.

Regnbogagífur og börkur gífurtrjáa

Sigurður Arnarson skrifar
19. júní 2024 | kl. 11:00

Samtalsráðgjöf við spunagreind, leiðbeiningar fyrir mannfólk

Magnús Smári Smárason skrifar
18. júní 2024 | kl. 12:00

Stillansar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
17. júní 2024 | kl. 11:30

Maðurinn sem aldrei svaf

Orri Páll Ormarsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 20:00

Sumarfrí mikilvæg heilsubót

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. júní 2024 | kl. 14:00

Fágætur heggur: Næfurheggur

Sigurður Arnarson skrifar
12. júní 2024 | kl. 10:00