Fara í efni
Pistlar

Ef ég nenni

Að vera amma er góð skemmtun. Þetta er hlutverk sem mér hlotnaðist óvænt á unga aldri ef svo má segja. Í dag á ég meira að segja tvö barnabörn, stúlku sem verður fimm ára á árinu og dreng sem verður þriggja. En það er ekki bara undur gaman að vera amma það er líka gefandi og svo fylgir því mikil ábyrgð eins og öllum gjöfum Guðs. Já, öllum guðsgjöfum fylgir mikil ábyrgð, meira að segja lífstíðarábyrgð, þær eru ekki eins og mjólkin sem rennur út og er því best fyrir ákveðinn tíma. Margir tala um að ömmu- og afahlutverkið sé einmitt svo skemmtilegt vegna þess að þá beri maður ekki jafn mikla ábyrgð eins og í uppeldi eigin barna. Allt má heima hjá ömmu og afa. Súkkulaði og ís í morgunmat og alls konar önnur mótmæli gegn markmiðum manneldisráðs.

Það er svo sem mikið til í því að á heimili ömmu og afa sé þegjandi samkomulag um að hundsa næringarfræði hundrað og einn sem og svefnrútínuna sem foreldrarnir hafa haft mikið fyrir að móta. Eitt það besta við að verða amma er hins vegar að hafa loks þroska til að verða aftur barn. Að njóta þess að setjast flötum beinum á gólfið og leika án þess hafa áhyggjur af öðrum verkefnum sem maður hefur lært að megi alveg bíða.

En þrátt fyrir að ýmislegt megi heima hjá ömmu og afa sem ekki má hjá mömmu og pabba þá þýðir það ekki að ábyrgð ömmu og afa sé minni. Þar sem barn er annars vegar er ábyrgð allra mikil. Amma og afi hafa kannski svolítið öðrum hlutverkum að gegna, hlutverkum sem gjaldfella þó ekki stöðu þeirra sem uppalendur. Amma og afi eiga að sjálfsögðu að veita aga og setja mörk því það er svo stór partur af því að byggja upp traust í samskiptum við börnin. Sveppi, Villi og Fíasól þurfa ekki að beita aga, þeim er ætlað að skemmta og uppfræða en amma og afi þurfa bæði að skemmta og aga. Á lífsleiðinni kynnumst við fjölmörgu fólki og eðlilega eru tengslin margskonar. Við eignumst ekki djúpvirk tengsl og skjól hjá öllum sem á vegi okkar verða, það er bara eðlilegt. Vinir okkar og kunningjar bera ekki ábyrgð á okkur þó þeir beri vissulega ábyrgð gagnvart okkur eins og við sjálf berum gagnvart þeim. Þess vegna erum við heldur ekki kölluð til að vanda um við vini okkar og kunningja. Okkur er fyrst og fremst ætlað að vera heiðarleg og virðingarverð í framkomu við þá og traustsins verð. Við blöðrum ekki um það sem vinur treystir okkur fyrir og við segjum honum satt, erum ærleg í samskiptunum. Hins vegar er eitt að vera heiðarleg og annað að aga og okkur er ekki ætlað að aga vini okkar. Í uppvexti þeirra var það hlutverk foreldranna og ömmu og afa sem og kennara og annarra uppeldisaðila sem kallaðir voru til verksins.

Djúpvirk tengsl, tengslin sem að eru okkur skjól, tengslin sem að búa okkur undir að takast á við morgundaginn og framtíðina eru tengslin þar sem við erum elskuð og öguð í senn. Þess vegna flokkast agalaust uppeldi undir vanrækslu. Foreldrar sem ekki sjá til þess að börnin sinni skóla, hirði um sig, komi fallega fram við önnur börn og af virðingu við fullorðna, borði hollt, fái frískt loft og hreyfingu og fari að sofa á réttum tíma af því að þeir nenna ekki að ómaka sig og takast á við mótmæli ósjálfráða mannveru gera sig í raun seka um vanrækslu. Um stund geta þeir orðið vinsælir hjá barninu en grafa þó um leið undan trausti barnsins og skjólið verður sandur en ekki bjarg til að byggja framtíðina á. Í skammvinnri velsæld hins „sjálfráða“ barns skapast kvíði sem barnið skilur ekki, því líður illa en veit ekki hver ástæða þess er vegna þess að það ber ekki ábyrgð á henni. Ást er nefnilega agi, kærleikur er agi. Tengslin sem að hafa allt að segja um velferð okkar til líkama og sálar eru tengslin sem að gera líka kröfu um aga.

Makasamband er líklega eina fullorðinssambandið sem að vinnur líka með agann. Í góðu makasambandi veita báðir aðilar hvor öðrum visst aðhald og aga þó þeir beri vissulega ekki ábyrgð á gjörðum hvors annars. En ástin er það djúp í makasambandi og mikið í húfi að það er eðlilegt að fólk takist á í trausti til þess að hinn aðilinn yfirgefi ekki bátinn við fyrstu brælu. Skjól makasambandsins byggir á sama grunni sem skjól barnsins er búið til úr að vera elskaður af nennu, „ef ég nenni“ syngur Helgi Björns í vinsælu jólalagi og þykir mörgum skrýtinn texti. En skjól makasambands er einmitt það að vera elskaður af einhverjum sem að vill að þú verðir farsæl manneskja og ómakar sig við að segja þér satt þótt það geti verið leiðinlegt og óþægilegt, já bara bölvað vesen.

Jesús Kristur er einmitt ljós kærleikans sem nennir. Sem nennir þér og nennir að hafa áhrif á líf þitt svo þér megi vegna vel og verða góð og farsæl og mannvænleg manneskja. Manneskja sem greiðir ljósinu veg hvar sem hún kemur. Kristin trú er vissulega trú sjálfsmildinnar og kærleikans í eigin garð en hún er líka trúin sem segir við þig „stundum þarf að gera meira en gott þykir“, stundum er ekki í boði að vera bara góður við sjálfan sig. Þú ert hlekkur í stórri keðju farsældar sem nær út fyrir landsteina og heimsálfur eins og konurnar þrjár Bergþóra Snæbjörnsdóttir, María Lilja Þrastardóttir og Kristín Eiríksdóttir sýndu svo vel á dögunum þar sem þær greiddu fjölskyldum frá Gaza leið til landsins og sýndu hvað það merkir að vera lærisveinn Jesú. Jesús Kristur er foreldrið sem segir þér, barninu sínu, að gera það sem leiðir til farsældar og vaxtar bæði fyrir þig og heiminn allan. Þetta er pínu meira en hin alþekkta andlega vakning sem nú tröllríður nútímanum, þar sem fólk tekur U beygjur og gerir loks það sem það hefur alltaf langað ... fyrir sig sjálft. Þið þekkið það af guðspjöllunum hvernig Jesús vandaði um við fólk, hann gat verið ákveðinn, beinskeyttur og jafnvel hvass í tilsvörum við lærisveina sína en það var vegna þess að hann elskaði þá og þeir voru ekki kunningjar hans heldur börnin hans sem hann var tilbúinn að gefa líf sitt fyrir. Og hann fól þeim það stóra hlutverk að rækta upp kirkjuna sem enn lifir. Það er ekki víst að þeim hefði tekist það ef Jesús hefði alltaf sagt „þið hafið þetta bara eins og þið viljið krakkar.“

Það er yndislegt að vera amma. Að hafa þroska og tíma til að leika sér í barbí og horfa á undur lífsins í augum barnsins, hið guðlega afl sem barnið er í einlægni sinni, hrifnæmi og sköpunarkrafti. Ekkert er ómögulegt í leik þess. Amma getur orðið hundur, köttur, dillmjó barbídúkka í tilvistarkreppu eða jafnvel eldspúandi dreki. Amma er jafnaldra, vinkona, leikfélagi. Í augum barnsins er ekkert vald nema hið guðlega sem sameinar allar verur, allt sem lifir í eina heild. Í augum barnins komum við hvert öðru við, alltaf, án undantekninga. Dýrð sé Guði fyrir það, syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.

Hildur Eir Bolladóttir er sóknarprestur í Akureyrarkirkju. Hún flutti þessa prédikun við messu í morgun.

Ýviður á Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
17. júlí 2024 | kl. 15:00

Milliliðir maka krókinn

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
16. júlí 2024 | kl. 09:30

Dauðinn bak við stýrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. júlí 2024 | kl. 11:30

Blautir draumar

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. júlí 2024 | kl. 12:30

Ruslakallinn er með vasadiskó!

Orri Páll Ormarsson skrifar
12. júlí 2024 | kl. 10:10

Sögur úr Kjarna

Sigurður Arnarson skrifar
10. júlí 2024 | kl. 09:00