Fara í efni
Pistlar

Náð

Hildur Eir Bolladóttir er sóknarprestur í Akureyrarkirkju. Hún flutti eftirfarandi ræðu við hátíðarmessu í kirkjunni eftir hádegi í dag.
_ _ _

Náð er svo fagurt orð. Finnurðu hvað það er mjúkt og hlýtt og huggunarríkt. Móðir mín rifjar reglulega upp þá minningu er hún stóð við eldhúsgluggann á fögrum sumardegi heima í Laufási og ég var fimm ára og lá flötum beinum á grasinu framan við húsið og horfði upp í himininn án þess að bæra á mér. Hún hljóp út að gá að mér, hálf skelkuð og spurði um leið forviða á hvað ég væri eiginlega að horfa, ég sagðist vera að bíða eftir Jesú Kristi er hann myndi brjótast fram úr skýjunum. Ég man þetta svo vel vegna þess að ég stundaði þetta reglulega, á hlýjum sumardögum æsku minnar, að leggjast í grasið, horfa upp í himinninn og hverfa inn í skýin. Þegar ég hugsa um orðið náð fer ég til baka til þessara stunda, umvafin mjúkum skýjum náðar Guðs og umhyggju mömmu. Náðin er mjúk eins og skýjabólstrar á sumarhimni og faðmur elskandi móður.

Náð ... eitthvað sem ég hef ekki unnið fyrir en fæ samt að njóta. Ég sé alltaf fyrir mér drengina mína nýfædda, þegar náðarfaðmur Guðs bar þá inn í náðarfaðm minn, þá vissi ég að þarna voru komnar mannverur sem ég myndi alltaf getað fyrirgefið, nokkuð í ætt við það sem Guð gefur okkur öllum börnunum sínum. Í lífi drengjanna minna gæti ég verið örsmá útgáfa af Guði því ég get miskunnað þeim, fyrirgefið þeim, já út fyrir endimörk alheimsins. Hugsaðu þér, ég hafði þó ekkert til unnið að eignast þá, ekki verið eitthvað betri en aðrir. Það er sannarlega umhugsunarvert.

Orðið náð merkir miskunn og náðargjöf er gjöf frá Guði sem þér er gefin af skilyrðislausri ást, ekki vegna þess að þú hafir lagt eitthvað inn heldur vegna þess að Guð elskar þig að fyrra bragði og bíður ekki svars né greiðslu. Náð er að vera fyrirgefið það að geta ekki betur. Máttur fyrirgefningarinnar í veröldinni er sannarlega Guðs náð.

Náð ... hæfileikar mannanna. Organistinn á kórloftinu í dag spilar guðdómlega á orgelið ekki satt? Og það á einmitt vel við að segja að það sé guðdómlegt vegna þess að hæfileikar hans eru náðargjöf. Guð gaf honum hæfileikana án þess að hann hefði í raun nokkuð til þess unnið, þó hann hafi svo sannarlega ávaxtað þá vel. En hæfileikar hans eru náðargjöf, honum gefin af miskunnsömum Guði.

Náðin er Guð, Guð er náð.

Orðið varð hold, hann bjó með okkur fullur náðar og sannleika.

Jesús er ótæmandi auðlind náðar og sannleika, að trúa á Jesú merkir að leitast við að vera farvegur náðar og sannleika í heiminum. Farvegur miskunnar, það er að sýna fólki miskunnsemi í breyskleika þess og vanmætti. Og tala um leið sannleikann, því annars getur miskunnsemin stundum breyst í meðvirkni. Orðið varð hold, hann bjó með okkur fullur náðar OG sannleika. Ekki bara náðar og ekki bara sannleika því Jesús er holdgervingur miskunnseminnar sem er veitt samhliða sannleikanum.

Jólin er býsna ævintýraleg saga af ungu pari á leið til Betlehem og konan er komin að því að fæða barn. Á sama tíma eru þrír vitringar að elta stjörnu sem boðar fæðingu hins nýja konungs og á meðan þeir taka til gull, reykelsi og myrru sitja fátækir fjárhirðar út í haga og gæta kinda og englar birtast þeim og hughreysta þá og boða þeim nýja tíma og nýja von.

Þessi nýja von er náð og sannleikur Jesú frá Nasaret.

Við búum í veröld sem er mikið í því að hræða fólk og einangra en um leið er líka mikið óþol gagnvart trúarbrögðum. Óþolið gagnvart trúarbrögðunum er sumpart skiljanlegt, ýmsar kirkjudeildir, kaþólskar sem lútherskar svo einhverjar séu nefndar hafa þurft að endurskoða margt og mikið í starfi sínu og framgöngu og hinn upplýsti nútímamaður hefur eðlilega haft við margt að athuga. Það stóð heldur aldrei neitt annað til með stofnun kirkjunnar, menn áttu að hafa við margt að athuga. Kirkjudeildir eru samansafn ófullkomins fólks sem reynir að finna út úr hlutunum og öll erum við þar börn hvers tíma. Þetta er ekki sagt til afsökunar heldur skilnings á því að kirkjan er skjól hins breyska manns. Hún sækir hins vegar tilgang sinn til helgisagna sem eru gríðarlega merkingarbærar og mikilvægar. Þess vegna er eitt það versta sem gæti gerst ef kirkjan fjaraði út, það að sögurnar færðust ekki milli kynslóða. Sögur eins og af Miskunnsama samverjanum, Týnda syninum, Bartimeusi blinda, Samversku konunni, Hórseku konunni (þið vitið þessi um að sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steininum),  sagan um Sakkeus sem Jesús elskaði til góðrar breytni, sagan um Jósep og bræðurna sem er eineltissaga um mátt fyrirgefningarinnar, sagan af Rut og trúfesti hennar, sagan um Talenturnar sem má ekki grafa af því að þá eru hæfileikarnir til einskis og Jobsbók sem er enn kennd í sálgæslufræðum nútímans og þannig mætti lengi telja. Allar þessar sögur sem geyma náð og miskunn og von í veröld þar sem einsemd er að verða ein helsta heilsufarsvá mannkyns skipta óendanlega miklu máli, þær eru leikbreytir eins og unga fólkið myndi segja. Að ég tali nú ekki um frásögnina af krossdauða og upprisu Jesú í veröld þar sem miskunnsemin fer minnkandi og mistök eru vinsælasta dópið. Að ungt fólk geti þá vitað að þrátt fyrir þjáningafulla atburði þá er alltaf von um upprisu. Að lífið getur aftur orðið gott.

Við lifum í heimi þar sem ytra virði er orðið ískyggilega mikill mælikvarði fólks á hamingju. Starfsframi, prófskírteini, tengslanet, athygli, frægð, dýrir bílar, dýr hús, dýr föt, dýrt innbú og meira að segja dýr gæludýr er alltaf að verða meiri og meiri mælikvarði á hamingju fólks en á meðan eykst kvíði, kulnun og einsemd. Kristin trú og þar er jólafrásögnin fremst í flokki er staðfesting á innra virði manneskjunnar. Hún er andsvar við mælikvörðum tíðarandans um hamingju og fullnægju. Jólin kalla fólk saman, opna á tengslin okkar, búa okkur gæðastundir, hægja á púlsinum, leiða okkur að matarborðinu þar sem við megum næðis njóta í stað þess að þjóta. Við horfumst í augu, munum eftir, grátum látna ástvini, vitjum grafa, tendrum ljós, föðmumst, veljum gjafir og hugsum um leið „hvað skyldi gleðja Ingu frænku og ömmu Sigurjónu.“

Já jólin eru tengslahátíð, efling innri gilda, náðargjöf, sannleikans ljós. Orðið varð hold og það bjó með oss, það býr með oss, sem óbeislaður kærleiksfoss.

Amen.

Ylfingur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. október 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Aðalstræti 13

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
13. október 2024 | kl. 20:00

Ellefu bækur í jólagjöf

Jóhann Árelíuz skrifar
13. október 2024 | kl. 06:00

Hryllilega skemmtileg hryllingsbúð

Rakel Hinriksdóttir skrifar
12. október 2024 | kl. 18:00

Kjaftagleiðir Akureyringar

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 06:00

Eltu drauminn þinn – því draumar geta ræst

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 06:00