Fara í efni
Pistlar

Metnaðarfullt sjónarspil

Söngleikurinn Chicago var frumsýndur á dögunum í Samkomuhúsinu á Akureyri. Leikskáld sýningarinnar eru þeir Bob Fosse og Fred Ebb, tónskáldið er John Kander og textahöfundur fyrrnefndur Fred Ebb. Söngleikurinn var frumsýndur á Brodway árið 1975 og sló þá rækilega í gegn og hafa ýmsar heimsþekktar stórstjörnur leikið og sungið verkið á sviði og á hvíta tjaldinu síðan. Skemmst er að minnast frábærrar frammistöðu þeirra Renée Zellweger og Catherine Zeta Jones í samnefndri kvikmynd frá árinu 2002 en myndin vann til sex Óskarsverðlauna, sem besta mynd, fyrir bestu búninga, hljóð, listræna stjórnun, klippingu og loks hlaut Catherinu Zeta Jones óskarinn sem besta leikkona í aukahlutverki.

Sögusvið söngleiksins er bandaríska borgin Chicago á þriðja áratug síðustu aldar eða á hinum svokölluð bannárum þar sem stjórnvöld reyndu með afgerandi forræðishyggju að hafa áhrif á áfengisneyslu þjóðarinnar sem talin var mikið samfélagsmein (sem áfengisneysla er reyndar). Afleiðingar þessarar íthlutunar stjórnvalda urðu hins vegar þær að glæpagengi meðal annars undir stjórn hins fræga Al Capone gengu vasklega inn í nýtt landslag og hófu að selja spíra eins og enginn væri morgundagurinn. Í söguþræði söngleiksins á Roxie Hart sér stóra drauma um að slá í gegn og verða fræg eins og stórstjarnan Velma Kelly. Kaldhæðni örlaganna leiðir til þess að þær lenda í sama fangelsi, báðar fyrir manndráp en í gjörvallri borginni er aðeins einn lögfræðingur, tækifærissinninn Billy Flinn sem sýknað getur kvenmorðingja eins og þær.

Leikstjóri sýningarinnar er Marta Nordal, danshöfundur er Lee Proud, tónlistarstjóri er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, leikmyndahönnuður er Eva Signý Berger og búningahönnuður Björg Marta Gunnarsdóttir. Með stærstu hlutverk fara Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, Margrét Eir, Björgvin Franz Gíslason, Arnþór Þórsteinsson og Bjartmar Þórðarson.

Ljósmynd: Auðunn Níelsson

Það er óhætt að segja að mikil stemning hafi ríkt í samkomuhúsinu þegar undirrituð sótti sýninguna á annarri sýningarhelgi, fullur salur af fólki sem skemmti sér auðheyrilega vel og var bæði hlegið og hrifist af sjónarspili í söng, dansi og leik. Ég er viss um að þessi sýning mun lifa og aðsókn verða jöfn og góð. Uppsetningu Borgarleikhússins sá ég fyrir nokkrum árum sem og fyrrnefnda kvikmynd og hafði að mörgu leyti gaman af þó ég verði að viðurkenna að tónlist þessa söngleiks höfði ekkert sérstaklega til mín. Í raun gæti ég ekki fyrir mitt litla líf rifjað upp eina einustu melódíu en á móti kemur að tónlistin er auðvitað í anda þessa Charleston tímabils og kallast náttúrlega á við söguna sem verið er að segja. Hins vegar er tónlistarflutningur í uppfærslu LA frábær hvort heldur sem um ræðir atvinnusöngvara eða leikara. Jóhanna Guðrún skín auðvitað skært sem sú stórsöngkona sem hún er löngu búin að sanna sig vera og hið sama verður sagt um Margréti Eiri. Leikararnir Þórdís Björk og Björgvin Franz sýna hvað þau eru mikið afburða sviðslistafólk og það er kannski einmitt sú krafa sem söngleikjaformið gerir til leikara. Söngleikjaformið krefst nefnilega mikillar fjölhæfni og það hafa þau Þórdís og Björgvin svo sannarlega. Þau eru sterkir söngvarar sem búa yfir miklum líkamlegum krafti til að tjá bæði í dansi og hreyfingu þær sögur sem þeim er ætlað að segja, þau hafa bæði mjög húmoríska tjáningu og fullkomið vald yfir kómískum tímasetningum. Stundum minnti leikur þeirra mig á teiknimyndasögu þar sem allt gerist hratt en hver myndarammi segir svo margt og kannski var það svolítið undirtónn sýningarinnar sem gerði hana mjög flotta. Bjartmar Þórðarson er augljóslega enginn nýgræðingur á sviði söngleikja og kann einnig þennan galdur sem þau Björgvin og Þórdís sýna. Arnþór Þórsteinsson er mjög kómískur og sympatískur í sínu hlutverki eins og honum er ætlað að vera og þó að það hafi verið snjallt að undirstrika aulagang hans með trúðalegum skóm þá þurfti þess varla því Arnþór er alveg fullfær um að skila sínu með sterkum leik. Búningar eru hins vegar mjög vel heppnaðir og ákveðin smáatriði sem verða stóratriði á endanum eins og ljósir búningar glæpakvendanna Roxie og Velmu í lok sýningarinnar sem staðfestingu þess að þær hafi fengið uppreist æru. Leikmyndin var snjöll ekki síst þar sem að hún þurfti að fanga margt á litlu sviði. Á sviðinu er nefnilega líka heil hljómsveit og því ekki annað hægt en að dást að því hvernig svo stór söngleikur rúmast á ekki stærra sviði. Ég tel fulla ástæðu til að óska Leikfélagi Akureyrar til hamingju með sýninguna, hún er metnaðarfull og skemmtileg og samt er undirrituð enginn sérstakur aðdáandi söngleikja en við þurfum að bjóða upp á allskonar í leikhúsum af því að leikhús snúast um allskonar sögur rétt eins og lífið sjálft.

Hildur Eir Bolladóttir

Ljósmynd: Ármann Hinrik

Tinnuviður

Sigurður Arnarson skrifar
29. mars 2023 | kl. 10:00

Mygla

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
26. mars 2023 | kl. 16:30

Sjálfbær lífsstíll og sálfræðilegir þröskuldar

Auður H. Ingólfsdóttir skrifar
24. mars 2023 | kl. 15:00

Keðjuverkanir

Sigurður Ingólfsson skrifar
23. mars 2023 | kl. 06:00

Hús dagsins: Fróðasund 10

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
22. mars 2023 | kl. 09:00

Elsku vinur minn, Arnar

Jón Óðinn Waage skrifar
21. mars 2023 | kl. 11:00