Fara í efni
Pistlar

Skúffubrík

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 4

Sigrún amma hafði þann háttinn á í Helgamagrastrætinu á meðan við afi gúffuðum í okkur hádegiskostinn, oftast þverskorna ýsu með hamsatólg og heimaræktuðum kartöflum og rófum, að draga fram neðstu skúffuna í skáparöðinni í eldhúsinu og tylla sér þar á bríkina svo lítið bæri á. Henni fannst það líklega hæfa að hún, ef hana skyldi kalla, sæti lítið eitt til hliðar við karlpeninginn á heimilinu.

En líklega var þetta vani í bland við lítillæti og hógværð.

Ugglaust hafði hún lært þennan sið heiman úr Víkursveitinni á Ströndum norður þar sem þau afi deildu búi um áraraðir. Þar voru húsmæðurnar nú ekki að trana sér fram. Og þótt eldhúsverkin væru þeirra helsta áskorun í hita og þunga dagsins, ásamt náttúrlega þvottinum, létu þær einatt lítið fyrir sér fara þegar karlarnir komu askvaðandi inn af engjunum, sársoltnir og kaldir.

Ég man að maddamma Ragnheiður, spúsa Munda afabróður, hafði sama háttinn á þegar litla eldhúskytran í gula bárujárnshúsinu fyrir norðan læk á Melum var við það að fyllast af matlystugum hreystimennum. Þá var amma dáin út af elli kerlingu, eins og gengur, en við afi komnir með MS Heklu alla leiðina úr botni Eyjafjarðar og yfir í þessar ystu byggðir á aftanverðum Vestfjörðum, þar sem farið er norður fyrir hníf og gaffal – og vegurinn endar.

Frú Ragnheiður dró líka neðstu skúffuna út á sínum kokkhússbletti á meðan karskur mannskapurinn tók til matar síns, en þá lét hún sig síga niður fyrir augnhæð allra þeirra matvinnunga sem við borðið sátu.

En svona var þetta.

Karlarnir sátu til borðs, drjúgir með sig, en bríkin var kvennanna.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Á komandi misserum munu birtast vikulegir pistlar hans á akureyri.net um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

  • Í NÆSTU VIKU: BEINKRÖM

3+30+300

Sigurður Arnarson skrifar
14. maí 2025 | kl. 09:20

Export

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
12. maí 2025 | kl. 11:30

Með hæla í rassi

Jóhann Árelíuz skrifar
11. maí 2025 | kl. 06:00

Hús dagsins: Aðalstræti 62

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
11. maí 2025 | kl. 06:00

Örlítið brot frá unglingsárum

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. maí 2025 | kl. 06:00

Barkarbjöllur – ógn við íslenska skóga

Sigurður Arnarson skrifar
07. maí 2025 | kl. 08:45