Svo átti ég nokkra gamla tindáta og voru vígalegri en plasthermennirnir, þungir og tígulegir í senn.
Hliðhollur bandamönnum barðist ég með Norðmönnum í Narvík, laut í lægra haldi ásamt Bretum í Dunkirk en murkaði lífið úr Þjóðverjum í þúsundavís í fjörutíu stiga frosti í umsátrinu um Stalíngrad.
Ég gafst aldrei upp.
Í Vopnafjarðarheimsókninni 1960 lék ég mér að tindátum á Felli þegar ég var þreyttur á hlaupunum með Snata og Snúru.
Þeir tindátar voru úr blýi, vel með farnir og málaðir í frönsku fánalitunum.
Ég stillti tindátunum í tvær andstæðar breiðfylkingar á eldhúsgólfinu og háðu þær orustuna um Waterloo.
Það var gríðarlegt mannfall og þurfti að reisa tindátanna upp frá dauðum reglulega svo hægt væri að halda orustunni áfram.
Undir lokin lágu flestir afvelta í rifum á eldhúsgólfi með byssustingina upp í loftið nema Napelón keisari sem slapp upp í eldhúsvask og drukknaði þar.
Stjáni frændi skaut auga inn um hurðargætt og spurði hvort ég hefði ekkert þarfara að starfa.
Gæt þú sauða þinna Stjáni sagði ég svo þú farir ekki í vaskinn eins og Naflaljón.