Jóhann Árelíuz skrifar
21. desember 2025 | kl. 06:00
EYRARPÚKINN - 70
Það gat verið gaman að spjalla við pabba þegar hann var að skafa framan úr sér.
Hann naut rakstursins eftir strangan eftirvinnudag á verksmiðjunni, heilnæm hvíld í vændum, Tíminn innan seilingar.
Hvað heldurðu þú hefðir búið með margt kinda hefðurðu haldið heilsunni spurði ég og horfði á Hóla í Hjaltadal hjá miðstöðvarsnældunni.
Ég var kominn í tvöhundruð á Borgum sagði pabbi en hefði viljað búa með eittþúsund ær og börnin á legg.
Hann hefði víst fyrr drepið sig en hætt aumingja maðurinn sagði mamma úr eldhúsinu.
Svo talaði faðir minn fagurlega um Benedikt Gíslason frá Hofteigi en bræður mínir ráku hvern fjárhópinn öðrum stærri í hús um veturnætur.
Ég fór á handahlaupum um eigurnar líkt og Fjalla-Eyvindur og veitti ekki af því þær voru víðfeðmar.
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
- Á sunnudögum síðustu misseri hefur akureyri.net birt kafla úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki Jóhanns Árelíuzar sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003. Þúsund ær á fæti er kafli úr bókinni Sveskjur í sólarlaginu, síðari bók Jóhanns um Eyrarpúkann en þar segir einkum frá dvöl drengsins á æskuslóðum föður hans í Vopnafirði. Bókin kom út 2010.