Þegar mamma eyðilagði jólin
Flest okkar upplifa strax í æsku þá órjúfanlegu hefð sem fylgir jólaundirbúningi. Ekki má breyta neinu, því allt á að vera eins og öll undanfarin jól. Þegar ég var barn velti ég því fyrir mér, þegar miklu eldri bræður mínir fluttu að heiman og fóru að búa, hvað myndi gerast ef stelpan vildi nú frekar hafa rjúpur en KEA-hamborgarhrygg. Og jafnvel kannski sveppasúpu frekar en aspassúpu. Að mínu mati gerði þetta sambúð að hinu mesta glæfraspili, og þakkaði ég mínum sæla fyrir að vera bara 10 ára. Ekki fyndist mér koma til greina að gefa hamborgarhrygginn upp á bátinn – þennan órjúfanlega þátt helgihaldsins.
Að vísu minnist ég þess ekki að hafa nokkru sinni í minni æsku getað borðað þennan blessaða hamborgarhrygg, enda var jólapakkaspenningurinn orðinn svo mikill þegar kom að aðalréttinum að ég ældi yfirleitt aspassúpunni.
Ég velti því lengi vel fyrir mér hvað það var sem myndaði þessi sterku tengsl á milli mín og KEA-hamborgarhryggs þegar kom að jólahaldi. Það var ekki fyrr en ég var fluttur að heiman og farinn að búa með stelpu – sem vel að merkja var alin upp við hamborgarhrygg á jólunum – að ég uppgötvaði hver tengslin voru. Það gerðist önnur jólin eftir að ég flutti að heiman. Ég mætti engu að síður í jól til mömmu á aðfangadag. Tók ekki annað í mál, og stelpan varð að sjálfsögðu að fylgja með, enda átti ég eftir að fylgja uppteknum hætti næstu árin.
Ég er mikill jólastrákur og hef alla tíð verið. Því þekki ég það af eigin raun að það er mjög ríkjandi í okkur fullorðnu jólabörnunum að halda sem lengst í jól bernsku okkar, svo við getum upplifað barnið í okkur aftur og aftur.
Ég man að það voru óvenju mörg jólafiðrildi fljúgandi um í maga mér þennan dag. Á þessum tíma vann ég á bögglapósthúsinu á Akureyri og var því búinn að vinna í jólapökkum meira og minna allan desember. Ef ég var ekki að taka á móti jólapökkum, þá var ég að afhenda jólapakka. Allir voru þeir merktir gleðileg jól, til og frá. Þar við bættist að flestir viðskiptavinir okkar voru í miklu jólaskapi – að minnsta kosti þegar biðraðirnar urðu ekki of langar. Allt pósthúsið angaði af jólunum, og sögðu gamlir starfsmenn að svona fengju þeir jólaskapið beint í æð.
Vinna og aftur vinna, öll kvöld og jafnvel langt fram á nætur. Koma helst ekki heim síðustu vikuna fyrir jól! Þetta væri hin eina sanna jólastemning fyrir þeim, og væru þeir til í að vinna frítt í desember bara svo þeir kæmust í rétt jólaskap. Þetta skildi ég ekki, enda fylgdi yfirleitt sögunni að menn drægju lappirnar heim til sín klukkan fjögur á aðfangadag, útkeyrðir af þreytu með frosið jólabros á vör og frímerkjalímtauma í báðum munnvikum. Jólaskapið hvarf síðan á sama tíma og þeir sofnuðu ofan í aspassúpuna, nýkomnir úr baði, um það leyti sem jólin gengu í garð.
Ég var kominn heim til mömmu um hálfsex, en fyrr um daginn hafði hún sagt mér að pabbi þyrfti að spila með lúðrasveitinni í upphafi messu og kæmi ekki aftur heim fyrr en upp úr sex. Þetta fannst mér út í hött. Hvað var kallinn að láta hafa sig út í svona nokkrum mínútum fyrir jól og verða þess valdandi að mamma þyrfti að bíða með aspassúpuna og KEA-hamborgarhrygginn?
Aldrei hafði ég skilið fólk sem arkaði í messu á aðfangadagskvöld, og þegar ég var barn hafði ég mikla samúð með börnum sem þurftu að ganga í gegnum slíkar hremmingar jól eftir jól. Enda væri komið langt fram á kvöld þegar blessuð börnin kæmust loks í pakkana! Oft var mér hins vegar hugsað til þess, þegar leið á aðfangadagskvöldið og ég var búinn að tæta utan af öllum gjöfunum, að kannski hefði verið í lagi að skreppa í messu þrátt fyrir allt – því þá ætti ég kannski enn eftir að taka upp nokkra pakka.
En þetta kvöld var ég ekki fyrr kominn inn úr dyrunum hjá foreldrum mínum en ég fann að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Hvar voru jólin? Hvar var lykt jólanna sem, klukkan þetta, þennan dag, hafði fyllt hvert horn æskuheimilis míns frá fyrstu jólum? Ég gaf mér ekki tíma til að fara úr skónum, heldur óð beint inn með snjóslóðina á eftir mér.
Ég fann móður mína í eldhúsinu, prúðbúna að vanda í tilefni jólahátíðarinnar. Hún stóð og hrærði í súpupottinum eins og hún hafði alla tíð gert klukkan hálfsex á aðfangadag, frá því að ég man eftir mér. En það var eitthvað að. Það vantaði það sem í tuttugu og tvö ár hafði sagt mér að klukkan væri þrjátíu mínútur í jól. Það vantaði aspassúpulyktina.
„Mamma, hvað ertu búin að gera? Hvar er aspassúpan?“ æpti ég í geðshræringu minni. „Og bayonneskinka!“ orgaði ég upp yfir mig eftir að hafa svipt lokinu af stóra suðupottinum.
Háaldraðri ömmu minni, sem sat í borðkróknum og staupaði sig á brennivíni, varð svo mikið um lætin í mér að hún sturtaði yfir sig brennivíninu. Hefð var fyrir því að amma drykki eitt brennivínsstaup á ári, klukkan hálfsex á aðfangadag, og var það ómissandi partur af jólahaldinu.
„Hvað meinarðu, drengur? Nú, auðvitað í pottinum,“ svaraði mamma.
„Já, en það er engin MAGGI-lykt!“ vældi ég og fann angistina taka völdin. „Og svo ertu með bayonneskinku!“
„Já, ég gerði eins og þú kenndir mér. Ég bakaði súpuna upp, bragðbætti hana með krafti og hrærði niðursoðnum aspas og rjóma saman við. Svo sagðir þú í sumar að þú værir meira fyrir bayonneskinku en hamborgarhrygg,“ svaraði mamma, hróðug með jólabros á vör – nýbúin að eyðileggja jólin. Og það var heilt ár í þau næstu.
Gefjun skóp ekki annan Játvarð Loðvík
Hvenær kemur flugstöðin?
Gráþröstur
Þannig týnist tíminn