Fara í efni
Pistlar

Skógar á mannlausu Íslandi

TRÉ VIKUNNAR - LXXXI

Árið 2007 gaf maður að nafni Alan Weisman út bók sem heitir The World Without Us. Tveimur árum síðar kom bókin út á íslensku í þýðingu Ísaks Harðarsonar. Í þýðingunni kallast bókin Mannlaus veröld. Í bókinni veltir höfundur því fyrir sér hvernig jörðin gæti þróast ef tegundin maður hyrfi með öllu af yfirborði hennar. Bókin er forvitnileg og vekur upp áleitnar spurningar. Í þessum pistli þrengjum við sjónarhornið og skenkjum því þanka hvernig Ísland gæti orðið ef mannkynið hyrfi af yfirborði landsins.

 
 

Þessi mynd er framan á bók Weismans. Á forsíðu íslensku útgáfunnar er svipuð mynd.

Hugmyndir Weismans

Í bók sinni veltir Weisman því fyrir sér hvað yrði um borgir og bæi ef mannfólkið hyrfi af jörðinni. Hann ferðaðist um heiminn og skoðaði staði þar sem tegundin maður hefur þurft að yfirgefa ýmiss svæði og kannaði hvernig náttúran hefur brugðist við. Þetta eru svæði eins og nágrenni Chernobyl, þar sem hryllilegt kjarnorkuslys varð til þess að þar býr ekkert fólk. Hann skoðaði einnig hlutlausa svæðið á milli Norður- og Suður-Kóreu. Þangað hættir enginn sér af ótta við að vera skotinn af landamæravörðum. Til eru fleiri sambærileg svæði í heiminum sem of langt mál yrði að telja upp en Weisman skoðaði mörg þeirra og segir frá þeim í bók sinni.

 
 

Sumar staðbundnar lífverur yrðu því fegnar ef maðurinn hyrfi úr heiminum. Sem dæmi má nefna að sjá má fágætar fuglategundir á hlutlausa svæðinu milli Kóreuríkjanna. Þeir hafa hrakist frá öðrum svæðum skagans vegna athafna manna. Þessi mynd, af landamæragirðingu á Kóreuskaganum, er fengin héðan. Hún er úr grein frá CNN sem heitir: Wildlife is flourishing in these demilitarized zones. Mynd: Jeong Seung-ik.

Weisman gerir ekki ráð fyrir að jörðin yrði eins og hún var áður en tegundin maður kom til sögunnar. Til þess hefur maðurinn (óháð kyni) haft allt of mikil áhrif á umhverfi sitt. Hann hefur flutt ýmsar tegundir plantna og dýra með sér hvert sem hann hefur farið. Sumt hefur hann tekið með sér viljandi, annað óviljandi. Margar þessara lífvera fengju ný tækifæri ef maðurinn hyrfi, en sumar lífverur eru háðar manninum og gætu ekki lifað án hans. Aðrar lífverur hafa þurft að láta í minni pokann vegna athafna manna og sumar þeirra fengju annað tækifæri ef hann hyrfi. Hér á landi má meðal annars nefna tré, refi og nokkrar fuglategundir sem dæmi um lífverur sem sjálfsagt yrðu fegnar brotthvarfi mannsins.

Weisman minnist ekki orði á Ísland í bók sinni. Aftur á móti getur verið fróðlegt og skemmtilegt að reyna að máta hans hugmyndir við aðstæður á þessu eyríki í miðju Atlantshafi. Það er viðfangsefni þessa pistils.

 

Þorpið Pripyat var yfirgefið eftir kjarnorkuslysið í Chernobyl árið 1986. Nú lítur það svona út. Myndin er héðan en kom upphaflega frá Reuters.

Forsendur

Til þess að fá hugmynd um hvernig Íslandi myndi vegna án okkar verðum við að virða fyrir okkur landið eins og það blasir við okkur hér og nú og velta fyrir okkur hvaða áhrif mannsins og húsdýra hans hafa haft á landið samkvæmt okkar færustu vísindamönnum. Við verðum líka að skoða önnur svæði þar sem veðurfari svipar til þess sem hér er að finna.

Jörðin hefur gengið í gegnum allskonar hremmingar en hún hefur alltaf náð sér aftur. Loftsteinar hafa lent á jörðinni og breytt henni, en hún jafnaði sig. Jöklar hafa skafið hana og skúrað, en hún náði sér aftur. Pólskipti hafa orðið, meginlönd rekið sundur og saman, eldgos breytt loftslagi en jörðin lifir. Við erum háð lífinu í kringum okkur. Ef vistkerfin hrynja er voðinn vís fyrir okkur en þau munu ná sér aftur, fyrr eða síðar. Við getum ekki lifað af án vistkerfa heimsins en þau eru ekki háð manninum og geta vel lifað án afskipta okkar.

 

Það sést á sinunni að þarna er ekki mikil beit. Samt dugar beitin til að koma í veg fyrir endurnýjun birkisins, Betula pubescens, eins og sjá má. Lauf og smágreinar vantar á stofninn og allur teinungur er étinn. Beitin drepur ekki birkið í teignum en hún drepur birkiteiginn. Mynd: Sig.A.

Vel má vera að athafnir mannsins verði að lokum til þess að dýrategundin, sem kallar sig viti borna, Homo sapiens, deyi út. En jörðin mun lifa. Þótt það komi pistlinum ef til vill lítið við má nefna að ef hugsað er til þess að við getum hvorki komið okkur saman um aðgerðir til að draga úr hamfarahlýnun, né stöðvað styrjaldir sem háðar eru með fullkomnum vopnum, má draga í efa að fræðiheiti tegundarinnar sé vel valið. Ef til vill skiptir þetta máli ef við veltum fyrir okkur hvers vegna Ísland, eða jafnvel jörðin í heild sinni, ættu allt í einu að verða mannlaus. Það eru engar líkur á því nema fyrir athafnir mannsins sjálfs.

Á fyrri myndinni er sveppurinn ullblekill, Coprinus comatus, að brjótast upp úr malbiki. Seinni myndin er af birki, Betula pubescens, að vaxa upp úr sprungu sem sami sveppur myndaði. Myndir: Sig.A.

Ef mannfólkið hyrfi af Íslandi eru engar líkur á því að þær lífverur sem það hefur flutt með sér hyrfu allar. Þrátt fyrir baráttu margra manna við rottur, Rattus spp., mýs, Mus musculus og Apodemus sylvaticus, mink, Neogale vison og lúpínu, Lupinus nootkatensis, hefur árangurinn ekki orðið mikill. Án mannsins fengju þessar lífverur aukin tækifæri. Ýmiss gæludýr gætu ekki lifað af án aðkomu mannsins. Ólíklegt er að sumar aðrar lífverur, sem fylgt hafa manninum, gætu lifað hér án hans. Hvað yrði um húsdýr sem almennt eru höfð inni yfir veturinn? Gætu svín, Sus scrofa, hænsn, Gallus gallus domesticus, kýr, Bos taurus, hundar, Canis lupus familiaris og kettir, Felis silvestris catus, lifað af án afskipta mannsins? Hvað með hesta, Equus caballus, sauðfé, Ovis aries, geitur, Capra hircus og önnur innflutt dýr?

Allar þessar lífverur – og margar aðrar – gætu haft áhrif á þann gróður og þá skóga sem hér geta vaxið. Auðvitað eru það skógarnir sem við beinum mestri athygli okkar að, enda er þetta partur af pistlaröð um tré. Við getum samt ekki horft fram hjá öðrum lífverum. Sérstaklega ekki þeim sem kunna að hafa áhrif á skógana.

 

Sjálfsánar víðitegundir og ösp við Glerá á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Mannvirki

Mannvirki eru að jafnaði viðhaldsfrek. Girðingar, sem ekki eru lagfærðar reglulega falla og hætta að gegna hlutverki sínu.

Mýrar gætu stóraukist. Votlendi mun endurheimtast sjálfkrafa ef enginn verður til að viðhalda manngerðum skurðum sem þurrka upp mýrar.

Varanlegt slitlag á vegum reynist ekki eins varanlegt og ætla mætti.

 

Vegurinn að Laugalandsskógi í Hörgársveit var bundinn slitlagi þegar hann var hluti af Hringveginum. Slitlagið reyndist ekki varanlegt. Sjá má bíl á þjóðvegi númer 1 ofan við miðja mynd. Mynd: Sig.A. í september 2018.

Ef hús skortir viðhald endast þau ekki alla tíð. Við það bætist að frost skemmir vatnsleiðslur í ókynntum húsum sem leitt getur til vatnstjóns þar til vatn hættir að renna eftir leiðslum og þær tæmast.

Staurastæður undir raflínur þurfa viðhald og endurnýjun. Annars falla þær, grotna og grafast í jörðu ásamt línunum sem á þeim eru.

 

Fremst á myndinni sjást tóftir Bárðartjarnarsels í Grýtubakkahreppi. Smám saman felur náttúran ummerki mannsins. Mynd: Sig.A.

Smátt og smátt gætu allar minjar um fólk á Íslandi orðið lítt sjáanlegar eða horfið með öllu. Lengst myndi þeirra gæta á svæðum utan gosbelta þar sem jarðskjálftar og hraun taka ekki þátt í að fela öll mannvirki.

Í Krossanesborgum utan við Akureyri má sjá stríðsminjar úr síðari heimsstyrjöld. Allt eru þetta mannanna verk sem reist voru til að verjast hugsanlegri innrás Þjóðverja. Fyrsta myndin sýnir gamla skotgröf sem verður minna og minna áberandi með hverju árinu sem líður. Miðmyndin sýnir ryðgaðan gaddavír á mel. Hann liggur frá melnum og að mýri þar sem hann hverfur ofan í svörðinn. Að lokum mun ryðið ljúka verkinu. Lokamyndin sýnir hlaðið vélbyssuhreiður sem er að mestu hrunið. Smám saman hverfur þetta allt saman. Myndir: Sig.A.

Grasbítar úr hópi spendýra

Rétt er að árétta að við getum ekkert fullyrt um hvaða dýr gætu lifað villt á Íslandi. Eftirfarandi eru bara hugmyndir sem eru hvorki verri né betri en aðrar hugmyndir.

Til að við getum myndað okkur einhverja hugmynd um útlit Íslands án manna verðum við að gera okkur í hugarlund hvaða grasbítar gætu lifað af á Íslandi. Þá verður fyrir okkur lagasafn íslenska þjóðveldisins: Grágás.

Á þjóðveldisöld (og auðvitað stærstan hluta Íslandssögunnar) tíðkaðist vetrarbeit á Íslandi og þurfti meðal annars að setja lagaákvæði í Grágás til að draga úr hættunni á ofbeit. Er hér farið eftir útgáfu Máls og menningar frá árinu 2001 (Gunnar o.fl. 2001, bls. 340).

Í 43. kafla Landabrigðisþáttar lagasafnsins eru merkileg ákvæði. Þar segir: „Ef menn eigu veturhaga saman, þann er hross manna eða sauðir eða naut gagna sjálfala í . . .“

Af þessu má ráða að hross, sauðir og naut gengu sjálfala á vetrum á þjóðveldisöld. Þá þegar vissu menn að beitin gæti spillt landi og ef of þröngt yrði í haga færi að sjá á gripunum. „. . . og skulu þeir svo til ætla að fé mundi eigi hafast að betur að meðalvetri að færra væri, og sé þó skipað til fulls.“

Samkvæmt þessu getum við gefið okkur þær forsendur að einhver húsdýr gætu lifað af á Íslandi án atbeina manna.

 

Birki og fjölbreyttur gróður sem vaxið hefur upp í Krossanesborgum við Akureyri eftir að landið var friðað fyrir beit og gert að útivistarsvæði. Segir þetta okkur einhverja sögu um hvernig landinu er eðlilegt að líta út? Mynd: Sig.A.

Á Íslandi eru fyrsta stigs neytendur (jurtaætur) sem hafa áhrif á gróður. Þar með hafa þeir áhrif á útbreiðslu skóga. Hér á landi eru fuglar eins og gæsir, Anser spp. og álftir, Cygnus cygnus sem bíta gras. Þær voru hér líka fyrir landnám án þess að koma í veg fyrir að landið yrði skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Því þurfum við ekki að hafa áhyggjur af þeim, en fjöllum í öðrum kafla um fugla.

 

Sauðfé á beit innan skógræktargirðingar. Mynd: Sig.A.

Aftur á móti hefur maðurinn flutt inn spendýr sem bíta bæði gras og tré. Hér á landi eru meðal annars hreindýr, Rangifer tarandus, sem helst vilja halda sig þar sem lítið er um stór tré. Á hverju ári eru gefin út veiðileyfi til að halda stofninum í skefjum svo þau valdi ekki of miklu tjóni á viðkvæmri náttúru. Hvernig breyttist stofnstærð hreindýra ef hætt yrði að veiða þau og hvaða áhrif hefði það á heiðagróðurinn? Gætu þau sótt meira niður á láglendið ef tegundin maður yrði ekki á vegi þeirra?

 

Við útjaðra útivistarsvæðisins í Krossanesborgum eru girðingar. Utan girðinganna er búfjárbeit. Gróðurfar innan og utan girðinganna er ólíkt jafnvel þótt hóflega sé beitt. Svipuð áhrif má sjá við veggirðingar um allt land. Engu hefur verið plantað í Krossanesborgir, heldur er náttúran einráð um framhaldið. Gera má ráð fyrir að ekki sé ýkja mikill munur á veðurfari innan og utan girðinga og sama má segja um öskufall í gegn um tíðina. Einnig er ljóst að girðingarnar halda ekki fuglum. Munurinn getur aðeins stafað af búfjárbeit. Hugsanlega gefa Krossanesborgir okkur einhverja hugmynd um þróunina á fyrstu stigum ef mannkynið hyrfi. Mynd: Sig.A. í september 2017.

Einu sinni þótti það tíðindum sæta ef fólk á göngu um Kjarnaskóg sá kanínur, Oryctolagus cuniculus, í skóginum. Svo breyttist það og það urðu tíðindi ef farið var um skóginn án þess að sjá kanínur. Það er alveg ljóst að kanínur geta vel lifað á Íslandi. Þær lifa góðu lífi í skógum ef þær komast í þá og valda oft miklu tjóni með því að leggjast á ákveðnar tegundir, einkum þegar lítið annað er að hafa. Sömu sögu er að segja úr ýmsum skógarreitum á Íslandi. Það er alveg á hreinu að ef maðurinn hyrfi gætu kanínurnar lifað áfram í skógum landsins.

Kanínur hafa einnig drepið götutré. Má sem dæmi nefna Hagahverfi á Akureyri. Hagahverfi er stutt frá Kjarnaskógi og þar voru kanínur stórtækar við að slátra trjám. Við endurplöntun götutrjáa í hverfinu hafa trén verið vafin hænsnaneti til að verja þau.

Tvær myndir af reyninum 'Dodong' sem var tré vikunnar í júní 2020. Fyrri myndin sýnir reyni sem hefur orðið kanínum að bráð en lifir samt, þótt ekki sé hann glæsilegur. Seinni myndin er vormynd af reyni af sömu tegund sem vafinn er með hænsnaneti til að verja hann skemmdum. Myndir: Ingólfur Jóhannsson.

Við höfum líka hross á Íslandi. Þau eru innflutt. Hestar eru upphaflega sléttudýr og sækjast ekki mikið í skóga.

 

Eins og önnur húsdýr á Íslandi eru hestar innfluttir. Þessi mynd er tekin í september 2014. Blámóðan frá Holuhrauni gefur umhverfinu sérstakan svip. Mynd: Sig.A.

Það má sjá í beitarhólfum hesta að þeir leggjast sjaldan á trjátegundir fyrr en nánast ekkert annað er að hafa. Þeir geta þó gengið mjög nærri beitilandi, eins og dæmin sanna. Víða um land ganga hestar úti allan veturinn enda eiga eigendur þeirra ekki hús yfir þá alla. Aftur á móti er þeim víðast hvar gefið yfir veturinn. Ef mannfólkið hyrfi hættu þessar gjafir. Samt teljum við líklegt að hestarnir gætu sem best lifað af, þótt þeir yrðu horaðir yfir köldustu mánuðina ef jarðbönn standa lengi yfir. Þeir þyrftu að þreyja þorrann og góuna. Náttúruvalið myndi svo sjá til þess að harðgerðu hestarnir fjölguðu sér á kostnað hinna. Hér gæti orðið sterkur stofn útigangshrossa. Það má einnig hafa í huga að á þjóðveldisöld gengu hross sjálfala yfir veturinn eins og áður segir.

 

Nokkuð dæmigert beitarhólf hesta. Þeir eru þungar skepnur. Beitin og þyngdin urðu til þess að sjá má mikið dílarof í grassverði en birkið og víðinn láta þeir að mestu í friði. Dílarofið er opið fyrir áhrifum vatns og vinda sem getur leitt til aukinnar landeyðingar. Ef þarna væri sauðfé eða nautgripir sæi meira á trjánum en traðk hesta getur skapað hentugt set fyrir trjáfræ. Mynd: Sig.A.

Nautgripir eru hrifnir af því að éta ýmsar trjátegundir, enda eru forfeður þeirra trúlega skógardýr. Þeir þola töluvert frost á vetrum en umhleypingar fara illa í þá enda eru blautir nautgripir viðkvæmir. Fram kemur í Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, að naut gengu sjálfala á vetrum. Nautgripir eru þurftarfrekar skepnur og jarðbönn á vetrum gætu gert útaf við þá, jafnvel þótt þeir héldust sæmilega þurrir. Það er því fremur ósennilegt að nútíma nautgripir gætu lifað af í náttúrunni ef mannfólkið hyrfi. Helst er þó von til þess í skógum. Þar er meira skjól og hugsanlega eitthvert æti þegar allt er á kafi í snjó. Nautgripir sækja til dæmis mikið í víði og ef til vill gætu greinar ýmissa trjáa haldið í þeim lífinu yfir veturinn. Þetta ákvæði í Grágás, sem við sögðum frá hér ofar, gæti gefið tilefni til að halda að nautgripir gætu lifað af veturinn utan dyra á Íslandi, ef þeir fá skjól.

Beitarhólf nautgripa. Víðirinn innan girðingar er dauður en lifir vel utan hennar. Gætu jafn þurftarfrekar skepnur og nautgripir lifað úti á Íslandi án aðstoðar manna? Myndir: Sig.A. í ágúst 2018.

Þá er það sauðkindin. Þess eru mörg dæmi að sauðfé hafi lifað úti á vetrum enda var sauðfé haldið á vetrarbeit allt frá þjóðveldisöld og vel fram á síðustu öld. Annað slagið berast enn fréttir af útigangsfé sem heldur velli allan veturinn. Helst má finna það nokkuð fjærri mannabyggðum en maðurinn hefur lagt undir sig flest þau svæði þar sem veðrið er heppilegra fyrir útigangsfé.

 

Sauðfjárbeit hefur mikil áhrif á ásýnd lands eins og kunnugt er. Mynd: Sig.A.

Engum blöðum er um það að fletta að sauðfé hefur mikil áhrif á útbreiðslu skóga á Íslandi. Jafnvel lítil beit getur komið í veg fyrir að skógar nái að spretta upp. Það sést meðal annars við ótrúlega margar veggirðingar á landinu og á fjölmörgum friðuðum svæðum.

Ef sauðkindin gæti lifað af á Íslandi án mannsins gætu geitur sennilega einnig gert það og haft sömu áhrif.

Ef mannfólkið hyrfi af landinu væri ekki lengur hægt að friða svona illa farið land fyrir búfjárbeit og síðan græða það upp. Að vísu er það ekki gert í dag, en það væri vel hægt ef vilji væri fyrir hendi. Ef vel er að gáð má sjá sauðfé á myndinni. Mynd: Sig.A.

Svín hafa lengi verið í ræktun á Íslandi. Eflaust gætu villisvín þraukað veturinn af hér á landi en hin ræktuðu svín eru mun viðkvæmari, enda hafa þau ekki yfir sama feldi að ráða og villisvín. Þau gætu ekki haft það af án manna.

Ættu skógar og annar gróður einhverja möguleika ef allir þessir grasbítar væru á landinu? Ætli trén hyrfu smám saman og eftir yrði gróðurlítið sker? Slíkt hefur gerst á sumum, litlum eyjum í heiminum þar sem grasbítar hafa komið til án þess að neitt sé til að höggva skörð í stofninn.

 

Sauðfé á beit á landi sem áður var algróið. Það sést á rofabörðunum. Rétt eins og mannfólkið sækir féð í bestu bitana. Það er nýgræðingurinn á illa förnu svæðunum. Þess vegna er það frekar í auðninni en ofan á grónu börðunum. Þar er erfiðara að ná í nývöxtinn. Því getur tiltölulega lítil sauðfjárbeit viðhaldið stórum eyðimörkum. Mynd: Sig.A.

Kaldir og snjóþungir vetrarmánuðir gætu eitthvað slegið á suma þessara dýrastofna, en án verulegra affalla grasbítanna á hverju ári yrðu hér hálfgerðar eyðimerkur vegna ofbeitar. Við þurfum ekki annað en að líta í kringum okkur til að sjá að svo yrði. Merki ofbeitar eru allt í kringum okkur, enda mjög takmörkuð stýring á beit. Til að tryggja að ekki yrði of mikil beit þyrftu að vera hér rándýr.

 

Klettahólmi í Jökulsá á Dal er þakinn kjarri. Þó er ekki líklegt að þar hafi alla tíð verið betri jarðvegur en sést í rofabörðunum, sem eru að blása upp, ofar á myndinni. Þarna er ekki hægt að kenna um vondum vetrarveðrum, kolagerð eða áhrifum eldgosa. Mynd: Sig.A.

Rándýr

Fyrir utan manninn er hér eitt rándýr sem kom sér sjálft til Íslands. Það gerðist meira að segja áður en maðurinn kom. Það er heimskautarefurinn, Vulpes lagopus. Honum gæti að sjálfsögðu fjölgað ef hætt yrði að vinna hann á Íslandi. Honum gæti þó ekki fjölgað meira en svo að hann hefði nægilegt æti. Þar skiptir öllu máli hvað hann fær mikið að éta yfir veturinn. Hann gæti sjálfsagt lagst á lömb á sumrin og á kanínur allt árið. Það gæti orðið til þess að kanínum fjölgi ekki um of, sérstaklega þar sem enginn yrði til að gefa þeim aukabita yfir veturinn eins og þekkist í Kjarnaskógi, Hagahverfi og víðar. Aftur á móti er ósennilegt að dýrbítar í hópi refa gætu haft varanleg áhrif á stofnstærð sauðfjár og hreint engin áhrif á hreindýr, hross og nautgripi, ef þeir gætu lifað hér, sem er óvíst.

Minkurinn yrði því sjálfsagt feginn ef maðurinn hyrfi, en hann getur varla haldið stofnstærð stórra grasbíta í skefjum.

Við höfum flutt inn rándýr sem kallast köttur. Á Íslandi eru til villikettir en þeir lifa flestir innan borgar- eða bæjarmarka. Hvað yrði um slíka ketti ef við hyrfum er óljóst. Ef þeir gætu lifað af yrði bráð þeirra væntanlega mýs, rottur, kanínuungar og fuglar. Óvíst er að þeir gætu lifað hér af yfir veturinn. Að minnsta kosti virðast villikettir mjög fágætir í náttúrunni utan bæjarmarka. Helst eru það fresskettir sem angra eigendur læða til sveita. Hugsanlega gætu orðið til stofnar villikatta, en þeir yrðu varla stórir og hefðu ekki áhrif á stofnstærð stærri grasbíta.

 

Köttur situr yfir feng sínum í skjóli furutrjáa. Ætli lífið yrði svona á Íslandi ef mannskepnan hyrfi? Mynd: Valur Snær Logason.

Við höfum flutt inn annað rándýr til að leika okkur við. Kallast það hundur og er afkomandi úlfa, Canis lupus. Vel má vera að hundar gætu lifað af í íslenskri náttúru ef ofangreind bráð væri á svæðinu. Það er þó með öllu óvíst. Lítil hundakyn, svokallaðir kjölturakkar, eiga sennilega ekki mikla möguleika. Þeir gætu þó hugsanlega myndað litla hópa sem sótt gætu í mýs, rottur og kanínur.

Stærri og grimmari hundakyn gætu átt meiri möguleika. Má nefna síberíska höskýhunda sem dæmi. Ef til vill gætu önnur hundakyn einnig lifað hér. Hugsanlega gætu hundar tekið yfir þann sess sem úlfar hafa á norðlægum slóðum og orðið topprándýr í íslenskri vist. Að minnsta kosti berast stundum sorglegar fréttir í fjölmiðla af hundum sem gerast dýrbítar. Ef hundar tækju sér sess úlfa yrði að telja líklegt að stóru spendýrunum myndi ekki fjölga úr hófi fram. Þá ættu skógar og annar gróður möguleika á að breiðast út og vist þeirra grasbíta sem hér yrðu væri þar með skárri til lengri tíma litið. Sérstaklega yrði vistin bærilegri á veturna þegar skógarnir geta veitt skjól. Án hundanna er hætt við að skógarnir hverfi að mestu vegna beitar. Í þessu sambandi má nefna að dingóhundar, sem eru rándýr í Ástralíu, eru afkomendur hunda sem maðurinn flutti til landsins. Ef til vill gæti þetta líka virkað hér, þótt loftslagið sé annað. Einnig er vel þekkt að er úlfar gerðu sig heimkomna í Gulasteinsþjóðgarðinn í Ameríkuhreppi hafði það jákvæð áhrif á skóga svæðisins og reyndar allt vistkerfið.

Niðurstaðan er sú að skógar ættu hér litla framtíð fyrir sér ef maðurinn hyrfi, nema ef hundar tækju upp hegðun forfeðra sinna. Ef hundarnir gætu ekki lifað af yrði hér allt annað samfélag dýra. Það hefði úrslitaáhrif á gróðurfar landsins.

Fyrir skóga á mannlausu Íslandi er stóra spurningin: Gætu hundar lifað af á Íslandi án manna?

 

Gætu hundar tekið upp lífshætti úlfa á Íslandi ef tækifæri byðist? Mynd: Sig.A.

Fuglar

Ef mannfólkið hyrfi af Íslandi gæti fuglalíf breyst mjög mikið. Ef við gerum ráð fyrir að skógar og gróður gætu breiðst út í kjölfar þess að færri grasbítar gengu um landið, þá er líklegt að það hefði áhrif á stofnstærð fugla. Nokkrar tegundir sem teljast til mófugla eru á Íslandi í miklu magni. Stofnar þeirra gætu minnkað mikið á láglendi. Þetta eru tegundir eins og jaðrakan, Limosa limosa, stelkur, Tringa totanus spói, Numenius phaeopus og lóa, Pluvialis apricaria. Eins og vænta má þykir mörgum vænt um þessar tegundir. Að vísu yrðum við ekkert hér til að láta okkur þykja vænt um blessaða fuglana, en það er annað mál. Aftur á móti má gera ráð fyrir því að hálendið gæti gróið betur og orðið eitthvað líkara því sem það var áður en maðurinn fór að flytja þangað húsdýr sín og hreindýr til beitar. Það er að vísu háð því að hundar tækju að sér hlutverk úlfa. Fyrir landnám hafa þessar fuglategundir væntanlega haldið til á slíkum svæðum, því láglendið var að mestu skógi vaxið. Þeir myndu aftur leita þangað. Að auki gætu sumar tegundir sótt í þær mýrar sem endurheimtast sjálfkrafa þegar framræsluskurðirnir fyllast smám saman. Mófuglunum yrði borgið.

Rándýr eins og refir, minkar og kettir geta lagst á fugla. Stofnstærð þeirra ræðst fyrst og fremst af fæðuframboði á vetrum. Því gætu þessi rándýr ekki haft of mikil áhrif á stofnstærð farfugla.

Spói, stelkur og jaðrakan eru allir mófuglar á Íslandi. Myndir: Sig.A.

Samhliða skógrækt á Íslandi hafa ýmsar tegundir fugla reynt hér landnám. Með aukinni útbreiðslu fjölbreyttra skóga má gera ráð fyrir að ýmsum skógarfuglum fjölgi. Tegundir eins og krossnefur, Loxia curvirostra, silkitoppa, Bombycilla garrulus og fleiri söngfuglar sjást hér æ oftar. Þær, ásamt fleiri tegundum, fagna skógunum. Má nefna eyruglur, Asio otus, sem dæmi. Stofnstærð ugla gæti tengst stofnstærð kanína í mannlausum skógum. Að minnsta kosti hættu kanínur að verða til vandræða að Mógilsá þegar eyruglur fóru að venja þangað komur sínar.

 

Auðnutittlingur, Carduelis flammea, er einn af skógarfuglum Íslands. Mynd: Sig.A.

Ránfuglum og mávum, Lari spp. gæti fjölgað mikið til að byrja með. Húsdýr sem ekki fá hér þrifist til langframa gætu fyrsta kastið myndað úrvalsfæðu. Þegar einhverskonar hvikult jafnvægi kæmist á mætti búast við að mávum fækki. Þeir eru tækifærisfuglar sem sækja í það sem maðurinn gefur þeim, svo sem fiskúrgang og sorp. Ef maðurinn hyrfi færi þessi fæðuauðlind með þeim.

Gera má ráð fyrir að haförnum, Haliaeetus albicilla, fjölgi þegar mannfólkið hættir að trufla þá á varpstöðum. Að auki mætti búast við meiri fiskgengd í ám og vötnum þegar veiðum manna slotar og gróskan eykst á bökkunum. Minkurinn gæti reyndar nýtt sér þau búsvæði svo ef til vill rættust ekki spár um aukna fiskgengd í ám og vötnum. Aftur á móti gætu fiskistofnar hafsins náð sér. Þá gleddist haförninn og sjálfsagt fleiri fuglar. Haförninn gæti líka tekið sér sess hrææta og haft það gott. Það er vel þekkt að þegar Íslendingar báru út eitruð hræ til að drepa refi, þá sóttu ernir í hræin með þeim árangri að þeim stórfækkaði.

 

Mávar í æti á Pollinum. Sóðaskapur manna skapar þeim oft mikla fæðu. Mynd: Sig.A.

Við höfum flutt fáeinar tegundir fugla inn til landsins. Þar á meðal eru varphænur sem við teljum næsta víst að eigi enga möguleika í náttúrunni. Hér á landi er líka annar stofn af hænum sem verpa heldur minna. Það eru hinar skrautlegu landnámshænur. Satt best að segja teljum við litlar líkur á að þær gætu lifað af á Íslandi án atbeina manna. Þær yrðu of auðveld bráð. Ef kuldinn og hungrið yrði þeim ekki að fjörtjóni, gerðu minkar, kettir og refir sennilega útslagið. Þó er mun líklegra að landnámshænan gæti haft það af en hinar hvítu, ítölsku varphænur.

 

Sumir fuglar, eins og gæsir og álftir, eru stórir grasbítar. Þeim tekst þó ekki að skemma skóga á áreyrum sem friðaðar eru fyrir beit húsdýra. Þeim tókst ekki heldur að koma í veg fyrir að landið klæddist skógi fyrir landnám. Á myndinni eru álftir í Eyjafirði. Mynd: Sig.A.

Frumskógar

Þegar Ísland var numið af fólki uxu hér ekki margar tegundir trjáa. Einu trén sem talin eru hafa myndað samfellda skóga voru birkitré. Í birkivistkerfunum hefur mátt finna einar fjórar tegundir af víði, Salix spp. og að minnsta kosti ein þeirra, gulvíðirinn, Salix phylicifolia, getur myndað tré. Reyniviður, Sorbus aucuparia, hefur einnig vaxið í skógunum en hann myndar ekki samfellda skóga frekar en önnur tré af rósaætt, Rosaceae. Að auki hefur að öllum líkindum mátt finna blæösp, Populus tremula, á Íslandi við landnám en ómögulegt er að segja til um hversu algeng hún hefur verið. Eina barrtréð sem óx hér á þessum tíma myndar alls ekki tré á Íslandi, þótt það geri það í útlöndum. Hér myndar það aðeins runna sem þó geta verið nokkuð uppréttir og náð mannhæð við bestu skilyrði. Þetta er einir, Juniperus communis.

Engin ástæða er til að ætla annað en að þessar trjátegundir gætu aukið hlutdeild sína í íslenskri vist ef hundar gætu séð til þess að grasbítum fjölgaði ekki um of. Aftur á móti er borin von að þessir skógar yrðu eitthvað í líkingu við þá skóga sem uxu á Íslandi við landnám. Til þess hefur íslenskum vistkerfum verið raskað meira en þessir skógar ráða við. Má nefna sem dæmi að margt bendir til að hér hafi verið mun gróskumeira og hávaxnara birki en nú vex á landinu. Of langt mál er að fara ofan í þá sauma í þessari grein.

 

Íslenskar víðitegundir gætu orðið mikilvægar tegundir í mannlausum skógum Íslands. Mynd: Sig.A.

Innfluttir frumbýlingar

Allskonar tré hafa verið flutt inn til landsins í gegnum tíðina og mörg þeirra auðga nú íslenska náttúru. Sum þeirra eru landnemar eða frumherjar á meðan önnur eru síðframvindutré. Það mætti búast við að þegar pláss myndast fyrir frumherjana munu þeir nýta sér það pláss sem býðst. Þar gætu þau þurft að keppa við íslenskar tegundir eins og birki og víði, sem einnig eru frumherjar. Í einhverjum tilfellum gætu þó innlendu tegundirnar notið góðs af öðrum frumherjum. Má þar einkum nefna frumherjatré og -runna sem eru í sambýli við Frankia-gerla. Þeir geta gert nitur andrúmsloftsins aðgengilegt sem næringarefni fyrir sambýlinga sína. Þetta eru tegundir eins og elri, Alnus spp. sem bæði getur myndað tré og runna, en einnig runnategundir eins og hafþyrnir, Hippophae rhamnoides og silfurblað, Elaeagnus commutata.

Silfurblað, Elaeagnus commutata og sitkaelri, Alnus viridis ssp. sinuata eða bara Alnus sinuata, eru tegundir sem með hjálp örvera binda nitur og auka frjósemi. Silfurblaðið skríður með rótarskotum en sitkaelrið sáir sér út. Myndir: Sig.A.

Talið er að stór hluti af því nitri sem enn er í umferð í vistkerfum Norðurlanda sé til komið frá því skömmu eftir síðustu ísöld, þegar svokallað hafþyrniskeið ríkti á Norðurlöndunum. Þessar frumherjategundir myndu smám saman láta undan, nema þar sem endurtekið rof á sér stað. Skriðuföll í bröttum fjöllum geta haldið áfram og jökulár munu ryðja sig hvort sem maðurinn verður til eða ekki. Stórflóð munu koma hvort sem okkur líkar betur eða verr. Jöklar halda áfram að skríða fram og hörfa og eldfjöll spúa hrauni og ösku. Þess vegna verður alltaf pláss fyrir frumherjategundirnar á Íslandi.

 

Sumir runnar, eins og reyniblaðka, Sorbaria sorbifolia, skríða gjarnan um sæmilega bjarta og gróskumikla skógarbotna í sumarbústaðalöndum Íslendinga. Ætli hún yrði algeng skógarbotnsplanta eftir 100 ár ef maðurinn væri ekki hér til að stýra umhverfinu? Vormynd: Sig.A.

Önnur frumherjatré, eins og stafafura, Pinus contorta og lerki, Larix spp., munu hjálpa til við að græða landið upp, ásamt þeim tegundum sem nefndar hafa verið og reyndar mörgum öðrum. Enn eru til dæmis ónefndar allar þær víðitegundir sem reyndar hafa verið hér á landi. Sumar þeirra, til dæmis jörfavíðir, Salix hookeriana, alaskavíðir, S. alaxensis, selja, S. caprea, og viðja, S. myrsinifolia ssp. borealis, geta vel sáð sér út.

 

Birkiskógur í Fnjóskadal. Mynd: Sig.A.

Síðframvindutré

Sum tré, sem til eru á Íslandi, eru síðframvindutré. Þau koma inn í skógana þegar þeir vaxa upp, mynda frjóan jarðveg og veita skjól. Þetta eru að jafnaði skuggþolin tré og sum þeirra vaxa hægt. Má nefna þintegundir, Abies spp. þallir, Tsuga spp. og lífviði, Thuja spp. sem dæmi. Þessi tré yrðu ekki áberandi í mannlausum skógum Íslands fyrstu áratugina og jafnvel ekki fyrstu aldirnar. Smám saman tækju þau við, nema þar sem náttúrulegt rof á sér stað. Þá hefst hringrásin upp á nýtt.

 

Þintegundir, Abies tegundir, þekkjast meðal annars á uppréttum könglum og sléttum berki. Ættkvíslin kemur gjarnan inn í skjólgóða skóga. Sumar tegundir komast þó á legg utan skógarskjóls. Ef vel er að gáð má sjá fleiri tegundir síðframvindutrjáa í bakgrunni myndarinnar. Mynd: Sig.A.

Mannlaus framtíð

Ef við gætum litið nokkur þúsund ár fram í tímann og skoðað hvernig Ísland liti út án mannsins yrði hér allt annað umhverfi en nú er. Fjöllin og fossarnir yrðu hér enn en gróðurinn yrði allur annar. Það má sjá fyrir sér að minnsta kosti tvær sviðsmyndir. Önnur með öflugum villihundum og gróskumiklum skógum, hin án hvoru tveggja.

 

Vetrarmynd frá Akureyri. Mörg garðtré í bænum gætu sem best sáð sér út og breytt bænum í skóg ef mannkynið hyrfi. Sum hverfi bæjarins líkjast reyndar skógum nú þegar. Mynd: Sig.A.

Ef hundarnir gætu ekki lifað hér af yrði hér tegundafátækt gróðurumhverfi. Þá má ætla að þeir grasbítar sem gætu þrifist án verulegrar hættu á afráni gætu fjölgað um of. Landið yrði þá fátækt af gróðri og enn fátækara af skógi. Tré sæjust aðeins á óaðgengilegum stöðum, svo sem í klettum eða árhólmum. Uppblástur gæti eytt megninu af jarðveginum og feykt honum út á haf, svo frumframleiðni yrði lítil. Þar með fækkaði öllum dýrum og landið yrði fátækt af fuglum og skordýrum. Grasbítarnir yrðu ekki fleiri en svo að þeir gætu lifað af hinum fátæklega gróðri. Sennilega litu grasbítarnir almennt illa út seinni part vetrar. Þeir væru hungraðir og hefðu lítið skjól fyrir veðri og vindum.

 

Grímstorfa í Fellum gefur hugmynd um hvernig landið var fyrir landnám. Þarna kúrir birkið því þarna fær það frið. Svona staðir héldu áfram að vera til þótt ofbeitin héldi áfram. Ef dregur úr henni yrðu þeir mikilvægir fræbankar. Mynd: Sig.A.

Tækju hundar upp sess úlfa yrði hér allt annað umhverfi. Hundarnir gætu komið í veg fyrir ofnýtingu gróðurs. Hér yrðu þá gróskumiklir skógar með nokkuð fjölbreyttu dýralífi. Með tímanum yrðu barrskógar mest áberandi, enda tilheyrir Ísland barrskógabeltinu ef mið er tekið af veðurfari, sólargangi og jarðvegsskilyrðum. Hærra til fjalla tæki birkikjarrið við og þar ofan við yrðu gróskumikil heiðarlönd. Víða yrði mikil gróska og fjölbreytt fuglalíf.

Hvergi sæjust menjar um þá tegund sem nú stjórnar hér öllu. Og þó. Sjálfsagt yrði eitthvað af plastinu enn að fjúka um landið eða fast í greinum hárra trjáa.

 

Mógilsá við Kollafjörð. Hvernig yrðu Esjuhlíðar eftir 500 ár ef mannfólkið hyrfi? Yrðu þær birki vaxnar eins og fyrir landnám? Yrðu þær vaxnar barrskógum eins og veðurfar gefur tilefni til? Yrðu þær uppblásnir og ofbeittir melar? Hvernig sem þær yrðu væri hér enginn til að meta hvort þær væru fallegar eða ljótar. Mynd: Sig.A.

Varnaglar

Rétt er að taka það fram að þetta eru bara hugleiðingar leikmanns um hvernig landið gæti þróast ef mannfólkið hyrfi. Þetta eru hugmyndir sem kvikna við lestur bókar um þetta málefni. Í þessum pistli tökum við ekkert tillit til hugsanlegra veðurfarsbreytinga og vel má ímynda sér einhverja þætti sem við sjáum ekki fyrir og sett gætu strik í reikninginn. Það gæti breytt myndinni á ýmsa vegu.

Þetta er eingöngu til gamans gert, enda er ekkert sem bendir til að mannfólk hverfi af Íslandi í bráð. Þvert á móti gerum við ráð fyrir að vera hér áfram. Þess vegna er mikilvægt að við hugsum vel um landið okkar og tökum vel á móti gestum.

 

Nokkrar tegundir af greni, Picea spp., í einum og sama reitnum. Þarna má einnig sjá eina furu. Hvaða tegundir yrðu á Íslandi eftir 1000 eða 5000 ár ef maðurinn hætti að hafa hér áhrif? Gætu allar grenitegundirnar sáð sér út á mannlausu landi? Mynd: Sig.A.

Svo má auðvitað líka velta því fyrir sér hvernig landið okkar liti út ef það hefði aldrei verið numið. Hvernig væru þá skógar landsins og hvaða háplöntur væri hér að finna? Hvernig væri lóustofninn og hvar væri krækiberjalyngið? Hvernig væri Sprengisandur? Væru blæaspir áberandi eða aðeins á fáeinum stöðum? Væri Skeiðarársandur skógi vaxinn? Hversu hávaxið væri birkið? Þetta eru spurningar sem vel er hægt að velta fyrir sér. Við vitum einfaldlega ekki hvernig svörin hljóma þótt að við förum nærri með sum þeirra. Það merkir samt ekki að við getum ekki velt því fyrir okkur.

Heimildir

Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson og Mörður Árnason (2001). Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Mál log menning, Reykjavík.

Alan Weisman (2007): The World Without Us. Íslensk þýðing: Ísak Harðarson (2009): Mannlaus veröld. JPV útgáfa, Reykjavík.

 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir pistil dagsins í heild.

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30

Beggja skauta byr

Jóhann Árelíuz skrifar
03. nóvember 2024 | kl. 11:11

Nenni ekki þessu kennaravæli

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 14:00

Kenndi fyrir framan annan kennara

Orri Páll Ormarsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 12:30

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Lýðræði á tímum gervigreindar

Magnús Smári Smárason skrifar
30. október 2024 | kl. 11:45