Svartþröstur

TRÉ VIKUNNAR - 130
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Lýsing
Fyrir það fyrsta er rétt að nefna að svartþröstur er nokkuð stór þröstur. Hann er töluvert stærri en frændi hans skógarþrösturinn en svipaður að stærð og gráþröstur. Þessir þrír fuglar tilheyra allir ættkvísl þrasta eða Turdus. Aðrir þrestir sjást að jafnaði ekki á Íslandi þótt stöku sinnum fréttist af flækingum af þessari ættkvísl.
Svartþröstur er með áberandi langt stél. Þegar það er meðtalið er fuglinn um 25 cm langur og þyngdin er um 80-100 g. Vænghafið er 34-39 cm (Jóhann Óli án ártals). Kyn svartþrasta eru harla ólík. Fullorðinn karlfugl er alsvartur með skærgulan gogg og gulan hring um augun. Karlfuglar á fyrsta vetri eru með dökkan gogg sem lýsist og gulnar þegar líður á veturinn. Búkurinn er alveg einlitur og því alger óþarfi að rugla svartþresti við til dæmis stara þótt þeir geti verið áþekkir. Að auki er munur á atferli þessara fugla og svartþrösturinn er með mun lengra stél.


Fullorðnir kvenkyns svartþrestir bera ekki nafn með rentu, því þeir eru hreint ekki svartir. Þeir eru í meiri felulitum en karlfuglarnir og því ekki eins áberandi. Þeir eru dökkbrúnir að lit en ljósrákóttari að neðan og með gráa kverk sem er misjafnlega áberandi eftir einstaklingum. Goggurinn er gulur en litdaufur og það sama má segja um augnhringinn.

Ungarnir líkjast móður sinni en nefið er nánast alveg svart.
Svartþröstur er ekki mikið fyrir að láta bera á sér. Hann er jafnan nokkuð felugjarn. Það breytist þó hjá karlfuglinum á vorin. Þá brestur hann í þvílíkan söng að annað eins þekkist varla hér á landi. Á sama tíma sest hann gjarnan á staði þar sem hann hefur gott útsýni og sést vel.

Fræðiheitið
Frá því að Linnæus hinn sænski setti fram tvínafnakerfið sitt heita allar lífverur tveimur fræðinöfnum sem lúta latneskum beygingareglum. Við höfum oft sagt frá þessu þegar kemur að plöntum en að sjálfsögðu á þetta einnig við um fugla. Fræðiheiti svartþrasta er Turdus merula L. (1758). Bókstafurinn L. stendur fyrir Linnæus, því það var hann sem gaf tegundinni nafn árið 1758. Fyrir þann tíma hét tegundin Turdus ater rostro palpebrisque fulvis, ef marka má þessa síðu. Ættkvíslarheitið, Turdus, er notað á fugla af ættkvísl þrasta en um 65 tegundir eru til af þessari ættkvísl, auk undirtegunda.

Seinna heitið, merula, hefur sennilega verið tekið upp úr frönsku en á því tungumáli heitir svartþröstur merle og Skotar kalla hann merl, nema þegar þeir grípa til enska heitisins blackbird. Upphafleg merking orðsins gæti verið að merla eða glansa með vísan í gljáandi svartan litinn á karlfuglunum. Sumar heimildir gefa upp aðra merkingu viðurnafnsins. Það er sagt vísa í það að svartþrösturinn er talinn einrænni en aðrir þrestir. Á það sérstaklega við utan varptíma. Þá er svartþrösturinn áberandi ófélagslyndur og sést að jafnaði í smáhópum eða stakir. Heitið á að vísa í það háttarlag (Snæbjörn 2017). Vel má vera að þetta sé það sem Linnæus hafði í huga á sínum tíma en þarna skortir höfund þessa pistils þekkingu á latínu til að fá úr þessu skorið.

Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn


Rabarbari

Tvístígandi

Hvar eru geitungarnir grimmu?

Stál og hnífur stöðvuðu svefninn
