Fara í efni
Pistlar

Líffjölbreytileiki í skógum

TRÉ VIKUNNAR - 135

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Ræktaðir skógar draga úr líffræðilegum fjölbreytileika á Íslandi.“
 

Margur skógræktarmaðurinn hefur undrast ofangreinda fullyrðingu og aðrar í sama dúr sem stundum er haldið fram af andstæðingum skógræktar á Íslandi. Þessu er jafnvel haldið fram af þeim sem vita að ræktaðir skógar þekja aðeins um hálft prósent landsins. Þar fyrir utan þekja birkikjarr og -skógar um 1,5%.

Sá sem þetta skrifar verður reyndar að játa að hann gleðst innilega í hjarta sínu þegar hann heyrir fólk halda svona löguðu fram. Ástæðan er sú að hann er svo hamingjusamur að heyra að fólk telur að skógar Íslands geti breytt svo mikið úr sér að þeir geti orðið til vandræða. Svona segir enginn sem ekki hefur stórkostlegt álit á íslenskum skógum og mætti þeirra.
 

Aftur á móti má nálgast þetta frá öðru sjónarhorni. Hvernig metum við líffjölbreytileika eða líffræðilega fjölbreytni yfir höfuð? Hvaða hugtök skipta þarna máli og hvaða lög hafa verið samþykkt er lúta að efninu?

Þessari grein er ætlað að skoða þessi mál.
 

Greinin er að stórum hluta byggð á hugleiðingum fyrrum framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Eyfirðinga, Jóns Kr. Arnarsonar og spjalli hans og höfundar um málið. Í framhaldinu munum við svo birta annan pistil þar sem kafað verður dýpra í líffjölbreytni skóga. Óhjákvæmilegt er að efni þessara pistla muni eitthvað skarast.

 
Fjölbreyttur og fallegur skógur við bæinn Dollar í Skotlandi. Mynd: Sig.A. 22. ágúst 2025.
Fjölbreyttur og fallegur skógur við bæinn Dollar í Skotlandi. Mynd: Sig.A. 22. ágúst 2025. 

Lög um náttúruvernd 

Þann 10. apríl 2013 voru samþykkt lög á hinu háa Alþingi um náttúruvernd. Eru það lög númer 60 það árið og má skoða hér.

5. grein þessara laga nefnir til sögunnar þær skilgreiningar sem fara skal eftir. Dugar ekki minna en að hafa þarna einar 29 skilgreiningar sem raðað er í stafrófsröð. Þrettánda skilgreiningin fjallar um líffræðilegan fjölbreytileika og er svohljóðandi: „Líffræðileg fjölbreytni: Breytileiki meðal lifandi vera á öllum skipulagsstigum lífs, þar á meðal í vistkerfum á landi, í sjó og í ferskvatni. Hugtakið tekur til vistfræðilegra tengsla milli vistkerfa og nær til fjölbreytni innan tegunda og milli tegunda og vistkerfa.“
 

Til að meta meintan skaða af skógrækt á Íslandi er líka gott að hafa þriðju skilgreininguna í huga. Hún er svona: „Ágeng framandi lífvera: Framandi lífvera sem veldur eða líklegt er að valdi rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni.“

Til að átta okkur á þessari skilgreiningu verðum við að vita hvað „framandi lífvera“ er. Áttunda skilgreiningin svarar því: „Framandi lífverur: Tegund eða lægri flokkunareining, svo sem afbrigði, kyn eða stofn, þ.m.t. lífhlutar, kynfrumur, fræ, egg eða dreifingarform sem geta lifað af og fjölgað sér, sem menn hafa flutt vísvitandi eða óvitandi út fyrir sitt náttúrulega forna eða núverandi útbreiðslusvæði.“ Ekki verður betur séð en þessi skilgreining geri til dæmis allan, íslenskan búsmala að framandi lífverum því hann kom hingað með mönnum. Breytir þá engu þótt við teljum húsdýrin íslensk.

Gott er að hafa ofangreindar orðskýringar í huga við áframhaldandi lestur.

 
Í Hekluskógaverkefninu hefur nær berum melum verið breytt í skóga, fyrst og fremst birkiskóga. Til að auka vöxt og gera vistkerfin öflugri öflugri hefur meðal annars verið sáð lúpínu. Mynd: Sig.A.
Í Hekluskógaverkefninu hefur nær berum melum verið breytt í skóga, fyrst og fremst birkiskóga. Til að auka vöxt og gera vistkerfin öflugri öflugri hefur meðal annars verið sáð lúpínu. Mynd: Sig.A.

Því miður er ekki farið nánar út í það í lögunum að skilgreina „náttúrulegt fornt eða núverandi útbreiðslusvæði.“ Því er ekki alveg ljóst hvar á landinu planta megi íslenskri blæösp án þess að hún kunni að teljast framandi. Sama á við um stofna af birki, svo sem Bæjarstaðabirki. Sennilega telst það framandi þegar því er plantað í aðra landshluta. Því hefur hópur manna í auknum mæli viljað fjölga svokölluðu „staðarbirki“ og nota það til landgræðslu þegar hægt er. Gildir þá einu hvort staðarbirkið er til orðið vegna erfðablöndunar við fjalldrapa í kjölfar aldalangrar ofbeitar.

Þetta vekur upp spurningar um hvort það geti virkilega verið hugsunin að rangt sé að planta fallegu, beinvöxnu birki í skóga og skógarjaðra þegar land er tekið til skógræktar. Slík tré geta auðveldlega myndað fræ með staðarbirkinu, ef það er til staðar. Er betra að birkið sé kræklóttur blendingur birkis og fjalldrapa? Er hægt að mæla gegn því að planta birki í skógarreiti jafnvel þótt staðarbirkið myndi lítið eða ekkert fræ, eins og þekkist sums staðar? Við vitum að við fáum aldrei sömu skógana og voru hér við landnám. Í því sambandi má minna á orð franska heimspekingsins Voltaire. Hann hafði áhyggjur af því að það að keppa að ómögulegri fullkomnun gæti komið í veg fyrir að eitthvað verði gert sem er gott eða fullnægjandi. Því spurði hann: „Er rétt að láta hið fullkomna verða fjandmann hins góða?“ Þegar sá er þetta ritar var skógarbóndi mátti finna náttúrulegt, kræklótt birki á nokkrum stöðum í landinu sem tekið var til skógræktar. Á því svæði sem finna mátti birkikjarr var öðrum trjám ekki plantað svo neinu næmi. Engar tilraunir voru gerðar til að reyna að fjölga þessu staðarbirki í gróðrarstöðvum enda líklegt að það gæti sáð sér út þegar landið var friðað fyrir beitaránauð. En hvað með skógarjaðra og skjóltré á skógræktarlandinu? Mátti planta þar birki sem gæti myndað fræ með staðarbirkinu, eða væri réttara að planta engu birki? Má rækta stórvaxið og fallegt birki ef kjarr er á svæðinu?

Hér má sjá lauflaust staðarbirki austur í Skriðdal. Þarna eru líka aðrar trjáplöntur meðal annars birki sem ættað er frá Bæjarstað og er farið að laufgast. Það vex umtalsvert betur en staðarbirkið. Getur verið að það sé slæmt að planta því þarna ef það gæti kynbætt staðarbirkið? Mynd: Sig.A.
Hér má sjá lauflaust staðarbirki austur í Skriðdal. Þarna eru líka aðrar trjáplöntur meðal annars birki sem ættað er frá Bæjarstað og er farið að laufgast. Það vex umtalsvert betur en staðarbirkið. Getur verið að það sé slæmt að planta því þarna ef það gæti kynbætt staðarbirkið? Mynd: Sig.A.

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Illkynja geðsjúkdómar

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
22. október 2025 | kl. 13:30

Þjálfun sem nærir – um styrk og sjálfsrækt

Guðrún Arngrímsdóttir skrifar
21. október 2025 | kl. 12:30

Rámur kálfur í túnjaðri

Jóhann Árelíuz skrifar
19. október 2025 | kl. 06:00

Jävla Öxnabrekkan

Orri Páll Ormarsson skrifar
17. október 2025 | kl. 12:00

Skáldið Jónas Þorbjarnarson (1960-2012)

Arnar Már Arngrímsson skrifar
16. október 2025 | kl. 08:30

Vatnsskaði – Um áhrif flóða og vatnsmettunar jarðvegs á tré

Sigurður Arnarson skrifar
15. október 2025 | kl. 10:00