Vatnsskaði – Um áhrif flóða og vatnsmettunar jarðvegs á tré

TRÉ VIKUNNAR - 134
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Áhrifaþættir
Áhrif flóða á þau tré sem fyrir þeim verða ráðast að miklu leyti af jarðveginum og þá sérstaklega vatnsheldni og íssigi hans. Um þau hugtök höfum við áður fjallað í pistlum okkar. Einnig skiptir augljóslega máli hversu mikið flóðvatnið er og hversu lengi flóðið varir en ekki síður hvenær ársins flóðin verða. Helstu áhrifin sem flóð hafa á skóga, fyrir utan að ryðja þeim um koll ef straumur eða jakaburður er mikill, eru áhrif á súrefnisinnihald jarðvegs. Langvarandi eða mikil flóð geta orðið til þess að þau rými moldarinnar sem vanalega innihalda loft fyllast af vatni. Það getur valdið súrefnisskorti hjá rótum trjánna. Súrefnisskortur getur valdið trjánum miklum skaða og jafnvel drepið rætur. Þær geta beinlínis drukknað. Annað vandamál getur fylgt svona flóðum. Í vatnsmettuðum jarðvegi tekur fyrir loftháð niðurbrot jarðvegsagna og þess í stað verður niðurbrotið við loftfirrða öndun (einnig nefnd súrefnisfirrt öndun). Það getur haft ýmsar aukaverkanir. Ein er sú að við loftfirrða öndun losnar ekki koltvísýringur heldur metan. Metan getur dregið úr rótarvexti og jafnvel valdið eitrun sem drepur rætur trjáa og annars gróðurs (Sjöman & Anderson 2023). Margir lesendur kannast eflaust við þá lykt sem gýs upp þegar klaka leysir af túnum á vorin. Það er einmitt lyktin af súrefnisfirrtri rotnun róta og sinu undir klakabrynjunni. Rótardauðann sem af þessu hlýst köllum við rótarkal. Rótarkal getur hent tré eins og annan gróður.

Hvernig tré bregðast við vatnsmettuðum og þar með súrefnissnauðum jarðvegi er mjög mismunandi á milli tegunda og jafnvel milli erfðahópa og kvæma sömu tegunda. Flestar tegundir trjáa og runna eru viðkvæm fyrir súrefnisþurrð í jarðvegi og láta mjög á sjá við slíkar aðstæður (Sjöman & Anderson 2023 bls. 132). Skaði, sem súrefnissnauður jarðvegur veldur trjám, getur gerst nokkuð hratt en kemur ekki endilega fram fyrr en dögum, vikum eða jafnvel mánuðum eftir að flóðvatnið hefur sjatnað. Annað vandamál af sama ranni getur verið erfitt að greina að sögn Sjöman og Anderson (2023). Það er þegar grunnvatnsstaða hækkar svo mikið, oftast í kjölfar mikilla rigninga, að holrými moldarinnar fyllast af vatni sem þá verður súrefnissnauð án þess að merki vatnsmettunar sjáist á yfirborði. Þetta getur drepið rætur trjáa, sérstaklega þær sem fara hvað dýpst, jafnvel þótt ekkert markvert sjáist á yfirborði. Sennilegt þykir að þetta sé algengara en margan grunar, einkum þar sem grunnvatnsstaðan er há.
Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn


Álfar og huldufólk

Við nennum ekki þessu uppeldi

Geðheilbrigðisdagurinn 2025

Hin einmana eik eyðimerkurinnar
