Fara í efni
Pistlar

Orustan um Waterloo

EYRARPÚKINN - 69

Ég átti margt hermanna í Eyrarvegi og voru úr plasti, sumir grænir, aðrir rauðir eða bláir en allir léttir og meðfærilegir.
 
Svo átti ég nokkra gamla tindáta og voru vígalegri en plasthermennirnir, þungir og tígulegir í senn.
 
Hliðhollur bandamönnum barðist ég með Norðmönnum í Narvík, laut í lægra haldi ásamt Bretum í Dunkirk en murkaði lífið úr Þjóðverjum í þúsundavís í fjörutíu stiga frosti í umsátrinu um Stalíngrad.
 
Ég gafst aldrei upp.
 
Í Vopnafjarðarheimsókninni 1960 lék ég mér að tindátum á Felli þegar ég var þreyttur á hlaupunum með Snata og Snúru.
 
Þeir tindátar voru úr blýi, vel með farnir og málaðir í frönsku fánalitunum.
 
Ég stillti tindátunum í tvær andstæðar breiðfylkingar á eldhúsgólfinu og háðu þær orustuna um Waterloo.
 
Það var gríðarlegt mannfall og þurfti að reisa tindátanna upp frá dauðum reglulega svo hægt væri að halda orustunni áfram.
 
Undir lokin lágu flestir afvelta í rifum á eldhúsgólfi með byssustingina upp í loftið nema Napelón keisari sem slapp upp í eldhúsvask og drukknaði þar.
 
Stjáni frændi skaut auga inn um hurðargætt og spurði hvort ég hefði ekkert þarfara að starfa.
 
Gæt þú sauða þinna Stjáni sagði ég svo þú farir ekki í vaskinn eins og Naflaljón.
 

Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.

    • Á sunnudögum síðustu misseri hefur akureyri.net birt kafla úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki Jóhanns Árelíuzar sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003. Orustan er kafli úr bókinni Sveskjur í sólarlaginu, síðari bók Jóhanns um Eyrarpúkann en þar segir einkum frá dvöl drengsins á æskuslóðum föður hans í Vopnafirði. Bókin kom út 2010.

Þegar mamma eyðilagði jólin

Þráinn Lárusson skrifar
14. desember 2025 | kl. 17:00

Gefjun skóp ekki annan Játvarð Loðvík

Orri Páll Ormarsson skrifar
12. desember 2025 | kl. 12:00

Hvenær kemur flugstöðin?

Sverrir Páll skrifar
10. desember 2025 | kl. 17:00

Gráþröstur

Sigurður Arnarson skrifar
10. desember 2025 | kl. 12:30

Þannig týnist tíminn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
08. desember 2025 | kl. 10:00

Aðventukvíði í rafmagnaðri jólapeysu

Rakel Hinriksdóttir skrifar
07. desember 2025 | kl. 14:00