Fara í efni
Pistlar

Og Björk að sjálfsögðu

Einu sinni var stúlka sem leitaði að nál í heystakki en hún gat ekki fundið heystakkinn.
Einu sinni var maður sem lést brosandi í bílslysi, af því að hann notaði öryggisbelti.

Þorvaldur Þorsteinsson setti mark sitt á samtíð sína. Á skammri listamannsævi fékkst hann við ógnarmargt og fór ekki alltaf troðnar slóðir, nema þá til að bæta þær eða setja á þær mark sitt. Hann sagði mér einhvern tíma að hann hefði alltaf dreymt um að verða rithöfundur en hann hefði ekki þorað út á þá braut, því fylgdi svo mikil ábyrgð sem hann réði ekki við. Þess vegna hefði hann kastað sér út í myndlistina. Það var svo miklu auðveldara að mála og teikna en að skrifa. Samt var hann sískrifandi hjá sér hugmyndir, minningar, sögur, leikverk og brandara, eins og þá sem eru hér í upphafi. Það fór flest í geymslu. Hann ritstýrði skólablöðum, samdi kvikmyndaverk og fleira með félögum sínum á skólaárunum, en undir lok náms í Myndlista- og handíðaskólanum gaf hann út Skilaboðaskjóðuna (1986) og má segja að þá opnaðist flóðgáttin.

Hvað sem hann tók sér fyrir hendur fór hann ekki einfaldar og hefðbundnar leiðir, hvorki í myndlistinni né orðlistinni. Vasaleikhúsið var til dæmis um þetta, stuttir samtalsþættir úr hversdagslífinu sem ævinlega komu á óvart, minntu á leikþætti úr barnaskóla en sögðu eitthvað annað og fullorðins. Og leikritin komu svo á færibandi, Maríusögur (1995) , Ég var beðinn að koma, Ævintyrið um ástina, Bein útsending, Við feðgarnir, Meðal áhorfenda, Ellý, alltaf góð, Það var barn í dalnum og svo And Björk of course árið 2002. Í gegnum þetta allt var Þorvaldur að gera tilraunir, reyna á þanþol listarinnar og jafnvel að hræra saman aðferðum og tímabilum. Stundum kom fyrir að hann notaði mig sem mælikvarða, bar upp einhverja hugmynd og ef ég sagði „Nei, Þorvaldur minn...“ þá vissi hann að hann var á réttri leið og hélt áfram. Uppsetning Borgarleikhússins á And Björk of course var æsileg og grimm og alls kyns tæknibrellur nýttar, hljóðnemar, myndavélar, skjáir og þetta var eitthvað nýtt. Og Björk fór út í heim, eins og nafna hennar.

Leikfélag Akureyrar frumsýndi nýja sviðssetningu á And Björk of course föstudaginn 23. febrúar þegar 11 ár voru frá því Þorvaldur féll frá. Fjölmargir vinir og félagar hans voru saman komnir í Samkomuhúsinu þegar sjömenningarnir brothættu komu fram á sviðið og fluttu okkur spánnýja útsetningu af snilldarverki Þorvaldar. Þarna var ekki allt í látum og á kafi í tækni, eins og forðum syðra heldur var hér tjáð með texta Þorvaldar það sem gerðist í huga og verkum þessara ólíku persóna og stungið á þeim fjölmörgu kýlum sem við sjáum enn allt í kringum okkur, þannig að það sem þarna stendur á við enn – nema kannski sumt sem fyrir tveim áratugum var eins og í vændum er nú veruleiki.

Gréta Ómarsdóttir hefur unnið gott verk og sett saman sýningu sem er í senn hlægileg og hræðileg en um leið eins og ekkert sé ýkt, og hún hefur stýrt þessum leikendahópi þannig að enginn ber af né verður útundan. Og þó að áhorfendur skelli upp úr af og til og hnussi ef til vill aðeins inn á milli ganga þeir hljóðir frá borði að loknum fagnaðarlátum og hver hefur sitt að hugsa. Sýningin er ólík þeirri gömlu, en áhrifamikil og krefjandi vegna þess að þarna er texti, vangaveltur, boðskapur, fyndni og löðrungar Þorvaldar Þorsteinssonar, allt í einu boði. Sviðið í fölum litum en búningar litríkir, smekkvís hljóðmynd og lýsing og fallegur kórsöngur undir lokin.

Það mætti hafa um þetta mörg orð, en mest er um vert að fólk fari og sjái, njóti og meti á eigin forsendum. Þetta er kannski ekki fyrir börn eða viðkvæma, en þetta segir sögur sem koma okkur öllum við.

Einu sinni hélt kona á spegli í annarri hendi og mynd af sér í hinni og hún vissi ekki hvort var hvað.
Einu sinni var maður sem hélt að hann skildi eitthvað fullkomlega.

Það var ekki ég.

Sverrir Páll

_ _ _ 

AND BJÖRK, OF COURSE ...

 • Höfundur: Þorvaldur Þorsteinsson
 • Leikstjóri: Gréta Kristín Ómarsdóttir
 • Leikarar: Davíð Þór Katrínarson, Eygló Hilmarsdóttir, María Heba Þorkelsdóttir, María Pálsdóttir, Jón Gnarr, Sverrir Þór Sverrisson og Urður Bergsdóttir
 • Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir
 • Ljósahönnun: Ólafur Ágúst Stefánsson
 • Tónlist: Axel Ingi Árnason og Pétur Karl Heiðarson
 • Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson
 • Sýningarstjóri: Þórunn Geirsdóttir
 • Aðstoð við búninga og leikmuni: Björg Marta Gunnarsdóttir og Þórunn Geirsdóttir
 • Leikgervi: Harpa Birgisdóttir
 • Leikmyndasmíði: Björgvin Ploder og Ágúst Örn Pálsson
 • Hár og smink á sýningum: Harpa Birgisdóttir og Arney Ágústsdóttir
 • Leikhússtjóri: Marta Nordal

Smellið hér til að sjá leikskrána

Maðurinn sem aldrei svaf

Orri Páll Ormarsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 20:00

Sumarfrí mikilvæg heilsubót

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. júní 2024 | kl. 14:00

Fágætur heggur: Næfurheggur

Sigurður Arnarson skrifar
12. júní 2024 | kl. 10:00

Gervigreind: Ekki lengur vísindaskáldskapur

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Áhugi minn á gervigreind: Frá slökkviliði til Oxford

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Frystigeymslan

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:30