Fara í efni
Umræðan

Menntun eða próf I

Vitringarnir, skólinn og samræmdu prófin

Það er ekki verra en vant er þegar sjálfskipaðir sérfræðingar stökkva fram á ritvöllinn eða demba sér á samfélagsmiðlana. Þeir hafa hátt og láta í það skína að þeir séu með lausnir hver í sínu pokahorni og kenna öðrum en sjálfum sér um allt sem þeim finnst að.

Það er ekkert nýtt að ráðist sé að skólunum, skólakerfinu, kennurunum og menntastefnunni, og það er merkilegt hvað þeir þykjast hafa mikið vit á því öllu saman sem aldrei hafa komið í skóla nema sem nemendur. Að undanförnu hafa sérfræðingar í viðskiptum og pólitíkusar látið eins og þeir viti allt um menntakerfið og gallana á því, allt sé að fara til andskotans og enginn geri neitt til að bjarga málum. Það er alveg merkilegt að þessir vitringar, sem þekkja ekki skóla nema af afspurn, halda að þeir viti betur en þeir sem í menntakerfinu starfa. Það er álíka skynsamlegt og ef ég, gamall eftirlaunakennari, ætlaði að fara að hafa vit fyrir viðskiptaráði eða teldi mig vita betur en þeir sem stýra borg og bæ eða ríki hvernig ætti að vinna að þeim málum.

Það nýjasta í þessum málum er bullið í borgarstjóranum í Reykjavík á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna, þar sem hann opinberaði vanþekkingu sína með því að væna kennara um metnaðarleysi og leti og að vilja ekki vinna með nemendum. Og hann kann ekki að skammast sín eða biðja almennilega afsökunar á þessum dónaskap. Hann ætti að bera saman launaseðilinn sinn og launaseðil almenns kennara. Hann gæti líka skoðað tengsl myglu í skólahúsum og veikindi nemenda og kennara. Þetta innlegg hans, yfirmanns grunnskólanna í höfuðborginni, er ekki vænlegt í þeirri kjarabaráttu sem yfir stendur. Eyðileggingarmáttur borgarstjóra er hættulegri en orð fá lýst.

Ein firran í málflutningi viðskiptafólks og pólitíkusa er að allt hafi verið betra, nemendur verið betur undir lífið búnir og betur máli farnir þegar hér voru samræmd próf. Til að bæta lestur og málskilning og allan undirbúning nemenda verði að koma á samræmdum prófum á ný. Lausnarorðið er samræmd próf. Nemendur, sérstaklega strákar, komi illa út úr Pisakönnunum af því að það séu ekki lengur samræmd próf og skólarnir og kennararnir séu að eyðileggja framtíð barnanna. Og verst er að sumir trúa þessu. Meira að segja svo að fyrir fáum árum, þegar útkoman í Pisa var afar slök, datt Menntamálastofnun helst í hug til úrbóta að búa til nýtt samræmt próf. Ekki að bæta kennslu til að bjarga ástandinu heldur búa til próf! Þetta er fáránlegt, ekki síst vegna þess að grundvallarþættir í skólastarfi eru nám og kennsla. Próf eru einvörðungu mælitæki.

Samræmd próf geta að vísu verið gagnleg. Til þess þarf að vera ljóst hvað á að prófa, með hvaða móti og hvers vegna. Þau geta verið gagnleg nemandanum og leiðbeint honum um val á áframhaldandi námi, sýnt hverjir styrkleikar hans eru og hverjir veikleikarnir. Sömuleiðis geta samræmd próf verið gagnleg skólum og leiðbeint um það hvar nemandinn raðast best eftir hæfileikum sínum og þroska. En hvernig sem það er hlýtur lykilatriðið að vera hvað prófið á að leiða í ljós, hvernig og hvers vegna. Samræmdu prófin við lok grunnskóla voru að minnsta kosti sum langt frá því að geta gefið mynd af raunverulegri færni eða stöðu nemandans. Ég kynntist að vísu aðallega íslenskuprófunum og sum verkefnin þar voru gersamlega út í hött og engan veginn viðunandi. Ómögulegt að sjá tilganginn með þeim. Þetta voru bara próf prófanna vegna. Rétt eins og vitringarnir í pólitíkinni og viðskiptaheiminum vilja nú taka upp til að bjarga veröldinni. Þeir kalla bara á samræmd próf, en ekki hvers konar samræmd próf. Bara próf prófanna vegna.

Umræður um skólamál eru nauðsynlegar en þær þurfa þó að vera byggðar á þekkingu og skynsemi en ekki slagorðum og hleypidómum. Og ég minni á: Kennarar eru sérmenntaðir sérfræðingar í námi og kennslu. Og þeir eiga að vera á góðum launum og búa við mannsæmandi kjör, því hlutverk þeirra er stórt. Og þeir eiga að hafa áhrif þegar búið er til einhvers konar námsmat, hvort sem það kallast samræmt eða ekki. Það er ekki hlutverk bissnissmanna eða pólitíkusa.

Sverrir Páll Erlendsson kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri frá 1974 til 2018

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Njál Trausta áfram sem þingmann okkar í Norðausturkjördæmi

Inga Stella Pétursdóttir, Elín Dögg Gunnars Väljaots, Ólöf Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Eiðsson, Arngrímur B. Jóhannsson og Guðmundur Bjarnason skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 21:30

Sögulegt tækifæri

Logi Einarsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Sindri S. Kristjánsson skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 13:30

Ágæti kjósandi – Það er komið að þér

Sigurjón Þórðarson skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:15