Fara í efni
Pistlar

Fagurt er til fjalla

Í fjallasal var heiti á tónleikum í Hofi þar sem Hljómsveit Akureyrar, sem er nýlega stofnuð áhugamannahljómsveit, og félagar úr Sinfóníuhljómsveit áhugamanna í Reykjavík leiddu saman hesta sína undir stjórn Michaels Clarke og Ólivers Kentish, sem báðir komu barnungir frá Bretlandi til starfa á Akureyri þegar ég var yngri en nú. Og ekki bara það, heldur var einleikari á píanó, Styrmir Þeyr Traustason, og þarna söng 50 manna samsettur kór Karlakórs Eyjafjarðar og Karlakórs Akureyrar - Geysis, auk bassasöngvarans Reynis Gunnarssonar.

Styrmir Þeyr Traustason sýndi og sannaði að hann er galdramaður, með hljómsveitina á bak við sig töfraði hann fram ótrúlega litríka túlkun á þessum gullfallega píanókonsert, segir í pistlinum. Myndir: Sverrir Páll

Í áhugamannahljómsveitum eru hljóðfæraleikarar sem jafnan hafa ekki atvinnu af að spila í sinfóníuhljómsveitum atvinnumanna, stundum kennarar, stundum nemendur og stundum fólk sem hefur lært hljóðfæraleik en sinnir jafnan allt öðrum störfum. Það er ákaflega mikilvægt að til sé einhver grundvöllur fyrir þetta fólk að iðka list sína, vinna saman og fá útás fyrir það sem því hugnast best, og ekki eru tækifæri fyrir alla sem nema tónlist að hafa af því atvinnu. Svipað má segja um leiklist, það ætti á hverjum stað að vera leikfélag áhugamanna, ekki bara atrvinnuleikhús, en það er önnur saga.

Hljómsveit, kórar, bassasöngvarinn Reynir Gunnarsson og Michael Clarke á stjórnandapallinum. Tónleikarnir voru rós í hnappagatið hjá Michael Clarke, segir Sverrir Páll.

Tónleikarnir Í fjallasal voru afar skemmtilegir og vel heppnaðir. Ég efast ekki um að hámenntaðir tónvísindamenn gætu fundið eitthvað að hér og hvar, það gerist líka hjá atvinnumannahljómveitum, en ég ætla mér ekki þá dul að kryfja allt til mergjar eins og ég hafi vit á því. En þeir sem voru á sviðinu virtust glaðir og sælir af vel unnum verkum og undirtektir áheyrenda voru afar hlýjar og þeim líkaði vel. Það er ekki vafi. Verkefnin voru öll sótt til Noregs, í smiðju Edwards Grieg (1843-1907), en í lokin var það sem ævinlega hlýtur að gerast þegar 50 manna karlakór stillir sér upp – Brennið þið vitar eftir Pál Ísólfsson við ljóð Davíðs Stefánssonar. Þannig var endahnúturinn.

Í upphafi stýrði Michael Clarke hljómsveitinni í Píanókonsert í a-moll opus 16 frá 1868 eftir Grieg. Við píanóið var svarfdælskur piltur, Styrmir Þeyr Traustason, sem nam píanóleik á Dalvík, á Akureyri og loks í Listaháskóla Íslands i Reykjavík. Hann sýndi hér og sannaði að hann er galdramaður, með hljómsveitina á bak við sig töfraði hann fram ótrúlega litríka túlkun á þessum gullfallega píanókonsert, og þegar tæknin er ekki vandamál en saman fara annars vegar hraði og styrkur og hins vegar lágvær mýkt þar sem listamaðurinn teygir tónana í tjáningu sinni – þá er þetta músík. Þannig var þetta, og að öðrum ólöstuðum var Styrmir Þeyr í mínum augum og eyrum stjarna kvöldsins.

Óliver Kentish stjórnar hljómsveitinni í svítum úr Pétri Gaut eftir Grieg.

Að hléi loknu stýrði Óliver Kentish hljómsveitinni í svítum úr Pétri Gaut eftir Grieg, með talsverðri dramatík og sorg í bland, en eins og Michael kynnti verkið var það flutt í minningu Jóns Þorsteinssonar í Ólafsfirði, Nonna Fríðu, sem féll frá fyrir fáum dögum. Það var vel til fundið. Ótrúleg fegurð í þessum verkum eins og reyndar öðru sem borið var fram í þessari veisu.

Nú gekk á sviðið umræddur fimmtíu manna karlakór og flutti Landssýn, Landkjenning opus 31 frá 1872 eftir Grieg. Með kórnum var bassasöngvarinn Reynir Gunnarsson, en Michael Clarke stjórnaði. Þetta var vel gert og kraftmikið eins og við mátti búast og tónleikagestir fögnuðu vel. En í blálokin þótti stjórnanda tími til kominn að koma sér heim frá Noregi og þá var tekist á við vitana, eins og fyrr er lýst.

Ánægjulegir tónleikar og sönnun þess að hljómsveit af þessu tagi verður að vera til. Þetta var rós í hnappagatið hjá Michael Clarke, Hljómsveit Akureyrar er yngsta barnið hans.

Sverrir Páll

Maðurinn sem aldrei svaf

Orri Páll Ormarsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 20:00

Sumarfrí mikilvæg heilsubót

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. júní 2024 | kl. 14:00

Fágætur heggur: Næfurheggur

Sigurður Arnarson skrifar
12. júní 2024 | kl. 10:00

Gervigreind: Ekki lengur vísindaskáldskapur

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Áhugi minn á gervigreind: Frá slökkviliði til Oxford

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Frystigeymslan

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:30