Fara í efni
Umræðan

Menntun eða próf II

Skakki turninn, foreldrarnir og bækurnar

Af og til er rokið upp til handa og fóta út af Pisakönnunum. Í þeim hefur komið í ljós að læsi íslenskra nemenda sé lakara en gott þykir í alþjóðlegum samanburði. Við erum ekki alltaf góð í samanburði við aðrar þjóðir, það er einfaldlega svo. Og það kann líka að vera að þessi alþjóðlegu próf séu ekki endilega að mæla það sem máli skiptir, frekar en gömlu samræmdu prófin okkar gerðu. En það er auðvitað alvarlegt ef íslenskir unglingar geta ekki lesið sér til skilnings það sem þeim er nauðsynlegt. Á því kunna að vera ýmsar skýringar, því margt hefur breyst í samfélaginu á síðustu árum og áratugum, en svo sem ekki eingöngu hér á landi. En höfum samt í huga að á Íslandi er skólaárið miklu styttra en í nágrannalöndunum, á 10 ára grunnskólagöngu eru skóladagar jafnvel allt að því 200 færri en í nágrannalöndunum og svipuðu máli gegnir um framhaldsskólana. Og erlendis er skólaárið að jafnaði um það bil mánuði lengra en hér á landi.

Á Íslandi eru hlutfallslega færri menntaðir kennarar við kennslu en gengur og gerist annars staðar. Þúsundir vel menntaðra kennara vinna önnur störf en við kennslu af því að laun og kjör kennara eru lélegri en annað sem býðst á vinnumarkaðinum. Þegar ég byrjaði að kenna fyrir um það bil fimmtíu árum voru laun og kjör kennara góð og kennarastrafið eftirsóknarvert meðal annars af þeim sökum. Á þeim árum voru alþingismenn að gera kröfur um að komast nærri kennurum í launum. Það var þá. Nú er öldin önnur og enn á ný stefnir í verkföll kennara, einfaldlega vegna þess að þeir búa ekki við mannsæmandi kjör. Ég hef ekki heyrt að alþingismenn hyggi á verkföll. En yfirvöld bæja og ríkis berjast gegn því að kennarar öðlist viðunandi kjör. Vandi skólakerfisins er ríki og bæjum að kenna. Það er bara þannig.

Á Íslandi er jafnan einn kennari/leiðbeinandi í 30 barna bekkjum, augljóst er að þar getur ekki átt sér stað neins konar einstaklingsbundið nám eða kennsla. Á Íslandi er ekki hægt að halda uppi aga eins og gerist í skólum í nágrannalöndunum. Reyni kennarar það mega þeir búast við að foreldrar kæri þá fyrir að leggja börn sín í einelti. Heimilin og foreldrarnir hafa stillt sér upp sem andstæðingar skóla og kennara. Og nýjast í samskiptum heimila og skóla er ef til vill það sem nýverið kom til umræðu, að foreldrar ráðast á kennara og krefjast þess af þeim að þeir gefi börnum þeirra hærri einkunnir.

Í umræðunni um skólamál gleymist gjarnan að kennarar eru sérfræðingar í námi og kennslu, jafnan vel menntaðir og með staðgóða reynslu. Sjaldan eru þeir hafðir með í ráðum. Ráðuneytin og stofnanir þeirra treysta miklu frekar á einhvers konar sérfræðinga sem menntaðir eru í hinu og þessu sem tengist uppeldis- og kennslufræðum en hafa eins og fleiri vitringar jafnan ekki komið í skóla nema sem nemendur, hafa oft ekki hugmynd um þróunarstarf sem alltaf er í gangi í skólunum og, eins og áður segir, þekkja skólana aðallega af afspurn. Það er auðvitað alvarlegt og ég þreytist ekki á að endurtaka að kennarar eru sérfræðingar í námi og kennslu. Kennarar vita vissulega að stórlega hefur dregið úr læsi nemenda og málskilningi, og það er ekki vegna skorts á samræmdum prófum eða vinnusvikum kennara. Það er miklu fleira þarna að baki.

Lesa hvað og hvernig?

Á undanförnum árum hefur stórlega dregið úr lestri barna og unglinga. Það er staðreynd sem er ekki skólakerfinu að kenna. Það er að sumu leyti því að kenna að hér á landi er útgáfa barna- og unglingabóka ákaflega fátækleg, ef tekið er mið af nágrannalöndunum. Það eru gefnar út alltof, alltof fáar bækur, bæði frumsamdar íslenskar og þýddar. Ég veit dæmi þess að stálpuð börn og unglingar lesa bækur á ensku vegna þess að á því máli er úrvalið afar mikið og þegar börn og unglingar lesa framhalds- eða syrpubækur, sem eru spennandi eða skemmtilegar, vilja þau frekar lesa bækurnar nýjar frá útlöndum – oftast á ensku – en að bíða eftir þeim eitt-tvö-þrjú ár eða lengur í íslenskri þýðingu. Frumsamdar íslenskar bækur eru á ári hverju svo fáar að þær duga ekki til margra vikna. Það er skelfilegt. Nýjar bækur hafa iðulega meira aðdráttarafl en gamlar og nýjar bækur á íslensku eiga að vera til á öllum skólabókasöfnum. Því miður er ekki lengur í tísku að hafa bækur sýnilegar á heimilum. Það er alvarlegt, bók á að vera sjálfsögð á heimili.

En bókin hefur líka vikið fyrir öðru, tölvuleikjum og alls kyns skjáefni, þar sem oftast er stuttur texti, og þeir sem venjast því eru líklegir til að gefast upp við langa texta. Og þarna birtist líka hlutverk heimilanna. Það er ekki jafnsjálfsagt að lesa fyrir börn og með þeim og áður var. Jafnvel smábörn eru látin hafa síma eða spjaldtölvu til að horfa á eitthvað til að hitt fólkið fái að vera í fríði. Og börn og unglingar eru send inn í herbergi, til að fullorðna fólkið fái að vera í friði, ekki til að lesa bók heldur til að gera eitthvað í síma eða tölvu. Samfélagsmiðlarnir og tölvuleikirnir gefa forráðafólkinu frí. Ef það er ekki á kafi í því sjálft. Og af hverju segi ég þetta? Einfaldlega vegna þess að stór þáttur, kannski stærsti þátturinn í máluppeldi barna og unglinga var og ætti að vera á heimilunum, samræður þeirra við foreldra, eldri systkini, afa og ömmur, frændur og frænkur. Börn eiga ekki að alast eingöngu upp í leikskólum eða öðrum skólum, hvað þá á skjá. Uppeldið á númer eitt að vera á heimilunum og skólarnir eiga að styðja við það og vera viðauki við það. Heimili og skóli eiga að vinna saman, ekki vera andstæðingar.

Og enn og aftur: Kennarar eru sérmenntaðir sérfræðingar í námi og kennslu. Og þeir eiga að vera á góðum launum og búa við mannsæmandi kjör, því hlutverk þeirra er svo mikilvægt.

Sverrir Páll Erlendsson kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri frá 1974 til 2018

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Njál Trausta áfram sem þingmann okkar í Norðausturkjördæmi

Inga Stella Pétursdóttir, Elín Dögg Gunnars Väljaots, Ólöf Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Eiðsson, Arngrímur B. Jóhannsson og Guðmundur Bjarnason skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 21:30

Sögulegt tækifæri

Logi Einarsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Sindri S. Kristjánsson skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 13:30

Ágæti kjósandi – Það er komið að þér

Sigurjón Þórðarson skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:15