Fara í efni
Pistlar

Lax

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 42

Faðir minn, sá vandvirki viðskiptafræðingur sem hann var á allri sinni tíð, taldi fram fyrir slíkan fjölda manns, og ekki síst til sveita, að hann var alltaf aufúsugestur í helstu laxveiðiám Norðurlands. Þær stóðu honum á að giska allar opnar, svo elskir sem bændurnir voru að bókara sínum.

Fyrir okkur börnin hans fjögur – og múttu engu að síður – þýddi þetta það eitt að lax var eilíflega í matinn. Með einum eða öðrum hætti. Allan ársins hring.

Það var reykt, grafið, þurrkað, soðið, grillað, smjörsteikt, ofnbakað og haft stundum kalt á fati með rúmri rönd af majonesi í kring, en þá var raunar hægt að fyrirgefa allt það heila sem á undan kom, svo mjúkt á tungu sem jukkið var.

En ég hygg að ég hafi fyrst kynnst einelti vegna laxins hans pabba. Því krakkarnir í bekknum höfðu orð á því að ég væri ekki bara með lax á smurða rúgbrauðinu í hverri og einni einustu skólamáltíð minni, heldur líka í útilegunum. Og hvort foreldrar mínar hefðu bara ekki efni á öðrum kosti á borð við kaupfélagskeypta kæfu eða niðursneiddan ost?

En það var lax í öll þau skipti. Reyktur á rúgbrauði. Og alltaf eins.

Jafn hallærislegt og það nú þótti. Því svo var líka lykt af þessu.

Og þess þá heldur að beygur bærðist með manni þegar pabbi hafði á orði við litla strákinn sinn á Syðri-Brekkunni að nú yrði ekið austur á Fnjóskárbakka um helgina. Ellegar að fjölskyldan færi í tjaldferðalag í Mývatnssveitina svo hann gæti sveiflað veiðistönginni að villtum sið á bökkum Laxár í Aðaldal.

Því smávaxinn pjakkur vissi auðvitað hvað það merkti og þýddi fyrir hann sjálfan og sjálfsálitið. Svo löngu, löngu fyrir tíma sleppinga í líflegum laxveiðiám.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: FALLIN GRÖS

Heljarstökk í lestri

Jóhann Árelíuz skrifar
06. október 2024 | kl. 11:30

Alsæll utan þjónustusvæðis

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Traust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Niðurlægðir af reykingamönnum

Orri Páll Ormarsson skrifar
04. október 2024 | kl. 17:00

Skógar á mannlausu Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
02. október 2024 | kl. 09:30

Bleikur mánuður

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
01. október 2024 | kl. 15:00