Hvenær kemur flugstöðin?
Fyrir nokkrum árum var ákveðið að reisa á Akureyri nýja flugstöð til þess annars vegar að sinna millilandaflugi frá Akureyri, beinu flugi til og frá útlöndum frá öðrum stað en Leifsstöð á Reykjanesi, og hins vegar að skilja í sundur innanlandsflug og millilandaflug á Akureyrarflugvelli. Þetta þótti nauðsynlegt vegna þess að það átti að efla ferðaþjónustu á Norðurlandi og nágrenni þess, og fá hingað erlenda ferðamenn án þess að þeir þyrftu að lenda á suðvesturhorninu og hafa fyrir því að komast þaðan út á land. Einnig átti að gera fólki á Norðurlandi og nágrenni mögulegt að komast til útlanda án þeirrar fyrirhafnar og kostnaðar sem leiðir af því að þurfa að fara til Keflavíkur og gista þar um slóðir fyrir og jafnvel eftir flug til útlanda og frá.
Hugmyndin um nýja flugstöð á Akureyri var mjög þörf og góð. Það hefur verið sýnt og sannað til dæmis með NiceAir, sem því miður starfaði stutt á sínum tíma, en síðar með EasyJet stóran hluta ársins og flugfélögum frá fleiri Evrópulöndum sem hafa haldið uppi ferðum stuttan tíma í senn, aðallega að vetrarlagi, að fólk af Norðurlandi nýtir sér þetta flug, þæginda vegna og kostnaðar, og hingað kemur fjöldi erlendra ferðamanna til að nýta sér möguleika Norðurlands. Mér þykir ómetanlegt, reyndar frábært, að geta flogið héðan að heiman til útlanda og komið aftur heim án þess að þurfa að fara suður. Ég hef bent fólki á höfuðborgarsvæðinu á möguleikann að fljúga til útlanda frá Akureyri, en ævinlega fengið sömu viðbrögð: Nei, það er ekki hægt. Þá þarf maður að fara alla leið norður! Það er nefnilega lengra norður en suður í hugum meirihluta þjóðarinnar.
Og af þessum sökum þurfti flugstöð.
Það var reyndar hafist handa og á ótrúlega löngum tíma reis við norðurenda gömlu flugstöðvarinnar á Akureyri einhvers konar skemma, sem er ekki nokkur leið að sjá að hafi verið hönnuð sem flugstöð, enda er hún það ekki nema að nafninu til. Þessi skemma er ekki stærri en svo að hún myndi rétt rúma eitt af nýju færiböndunum í Leifsstöð, og hér er nánast engin aðstaða til eins eða neins. Lítum á nokkur atriði.
Innritunarherbergið er lítið og þröngt, varla stærra en innritunin í gömlu flugstöðinni. Þegar margt fólk kemur á auglýstum tíma þurfa þeir óheppnu að bíða úti í alls kyns veðrum. Innritunarborðin eru ekki fleiri en í gömlu stöðinni og aðstaðan til að skanna handfarangur minnir óþægilega á þrengslin þar. Þegar innar er komið er brottfararsalurinn. Þar eru að vísu ögn fleiri borð og stólar en í gömlu flugstöðinni, það er reyndar framför. Þarna er hins vegar veitingasala þar sem hægt er að kaupa drykki og sælgæti og það eina sem hægt er að bjóða upp á matarkyns er að hita samlokur í örbylgjuofni. Það er allt og sumt. Í gömlu flugstöðinni er eldhús og þar steikti Baldvin pönnukökur og smurði brauð og eldaði mat. Það er ekki hægt hér. Afgreiðslumaður sagði mér að ef ætti að elda og gera eitthvað matarkyns í gamla eldhúsinu væri ekki hægt að koma því inn í nýju flugstöðina nema að setja það í gegnum skannana á milli handfarangurs farþeganna, og ég sá starfsmann koma þar í gegn með nokkrar fernur af mjólk eða ávaxtasafa.
Við hliðina á þessu er ekki Fríhöfn heldur Duty Free, í álíka stóru rými og fríhafnarherbergið var í gömlu stöðinni. Þarna er sáralítið úrval af öli og víni og sælgæti, til muna minna en hjá Þjóðverjunum í Leifsstöð, og verðið til muna hærra en í flestum fríhöfnum erlendis. Klósett eru á staðnum og karlamegin tvö klósett og eitt pisserí, svipað og í gömlu stöðinni. Ég sá reyndar að það var líka klósett við heimkomufæribandið.
Við heimkomu er komið inn í þennan sama sal, sem stundum er fullur af farþegum sem eru að fara með sömu vél, ég tala ekki um vandræðin sem hljóta að skapast ef tvær eða fleiri vélar væru á sama tíma. Það er hægt að fara í þessa sömu skonsu sem selur sælgæti og áfengi, eins og áður er lýst, síðan er hægt að skoða vegabréf, ef þarf, og svo er komið í herbergi þar sem er stúfur af færibandi. Þar eru þrengslin svipuð og við færibandið í gömlu stöðinni og þröng á þingi þegar þangað eru komnir farþegar úr heilli þotu. Þegar töskur eru fengnar er gengið framhjá tollinum og um næstu dyr. Þá er maður kominn út á stétt og verður að bíða þar í alls konar veðri, það er nefnilega ekki hægt að komast til baka því það er tollsvæði. Þarna er engin aðstaða til að taka á móti fólki eða bíða þess að vera sóttur - nema úti á stétt. Og síðast þegar ég kom heim var enginn leigubíll á staðnum, ég þurfti að hringja á stöðina og panta bíl og bíða eftir að hann kæmi úr bænum – sem betur fer var bara kalt en hvorki rok né rigning eða snjókoma þó að komið væri fram í desember.
Þetta er ekki flugstöð. Mér finnst vera hreinn dónaskapur að halda því fram. Það þarf nauðsynlega að fá hæfan arkitekt til að hanna flugstöð með þeim þægindum og þeirri aðstöðu og þjónustu sem í flugstöð eiga að vera. Það er ekki nóg að byggja skúr og kalla hann höll. Og þessi svokallaða flugstöð dugar engan veginn ef millilandaumferð um Akureyrarflugvöll vex, sem hún mun örugglega gera, eins og heyrst hefur í fréttum. Við erum nánast engu bættari en áður. Það hefði að mörgu leyti verið jafngott eða betra að nota gömlu flugstöðina áfram í millilandaflugi, ef hefði verið hægt að bæta við nokkrum borðum og stólum. Svona á meðan reist væri flugstöð sem stæði undir nafni.
Þetta er ástand sem getur ekki gengið og á ekki að þurfa að sætta sig við. Þess vegna spyr ég:
Hvenær kemur flugstöðin?
Þannig týnist tíminn
Aðventukvíði í rafmagnaðri jólapeysu
Segularmböndin
Helstu elritegundir