Fara í efni
Pistlar

Kótilettur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 52

Það var haft á orði í föðurfjölskyldunni af Ströndum norður að ágirni manna í kótilettur erfðist í beinan karllegg. Enginn veislukostur jafnaðist nokkru sinni á við smjörsteiktar lambarifjur í vel ristuðum raspi, en harmonían sú arna væri á að giska fullkomin með Bíldudalsgrænum baunum og kartöflum, að ekki væri talað um hjemmelövuðu sultutaui á barmi disksins, dísætu og dillandi á tungu.

Og með þessu var gjarnan drukkinn búrkaldur Thule-pilsner, hvort sem maður hafði aldur til þess eða ekki. Því það þótti hæfa, svo hátíðlegur sem maturinn var á allan máta.

Afi minn og nafni var sérlega naskur í þessum efnum á efri árunum. En svo virtist sem hann rynni á lyktina. Það var eins og hann ætti sem hægast með að bjóða sjálfum sér í mati á Syðri-Brekkunni ef minnsti grunur léki á því að mamma væri að velta niðursöguðum hrygg af nýslátruðu upp úr heimasafnaðri brauðmylsnu. Það lék jafnvel grunur á að maðurinn væri matskyggn.

En það var segin saga að gamli Melabóndinn stóð í gættinni í hvert sinn sem mútta var að bera hnossgætið á borð fyrir okkur familíuna. Hann gat bara ekki misst af gillimojinu.

En mamma hafði af þessu nokkurn ama. Og það var af því að afi karlinn og pápi greyið voru náttúraðir á sama hátt; þeir létu sér ekki kjötið nægja, heldur kepptust við að tyggja beinin eins og mest þeir máttu – og sætu þeir við sama borðið var engin von til þess að aðrir héldu lystinni á meðan á græðginni gekk.

Og það varð sumsé að éta þetta allt saman. Með berum höndunum. Skilja ekki örðu eftir. Og þótt það tæki tíma sinn – og allir aðrir við borðstofuborðið væru farnir að bíða eftir búðingnum, mátti heyra þá bryðja beinin enn um stund, en það þyrfti að dauðhreinsa diskinn, enda væri annað óvirðing við sauðkindina.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: DRAUGAGANGUR

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Íþróttasíða Halls Símonarsonar

Jóhann Árelíuz skrifar
08. desember 2024 | kl. 13:00

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00

Grenivík

Jón Óðinn Waage skrifar
04. desember 2024 | kl. 13:00

Jólatré við JMJ og Joe's

Sigurður Arnarson skrifar
04. desember 2024 | kl. 10:30