Kári og Skúli

EYRARPÚKINN - 26
Þó Nonni æfði ekki fótbolta Fellssumrin níu tók hann undraverðum framförum í íþróttinni norður kominn enda áhuginn ódrepandi.
Man ég leik í þriðja flokki KA og Þórs á Þórsvellinum sem var malarvöllur neðan við súkkulaðiverksmiðjuna Lindu en fyrir sunnan Kaffibrennslu Kea.
Þar tóku þeir Kári og Skúli Þórsara í kennslustund og skildu eftir með sár enni og ellefu mörk á baki.
Ég stóð á hliðarlínunni og taldi mörkin og voru það Kári eða Skúli, Skúli eða Kári sem skutu undir slár við stengur eða yfirspiluðu markmannsgreyið og hlógu á línunni.
Kunni ég mér ekki læti og hrópaði Áfram KA, afturábak Þór!
Eins og þörf væri á að strá salti í þau sár.
Og Nonni var flinkur á kantinum og sendi á Skúla sem drap 'ann á brjósti og lyfti yfir markvörðinn eða á Kára sem skallaði 'ann inn.
Slíkir voru yfirburðir KA að þeir náðu í markmann sinn meðal drengja að leik á Moldarvellinum og varð Diddi Jakobs fyrir valinu og var útispilari í fjórða flokki.
Fleiri dugnaðardrengir voru í KA-liðinu eins og Frímann Frímannsson og Stebbi Gull en rættist úr fáum þegar þeir fullorðnuðust og létu Þórsurum eftir þau sætin í ÍBA.
Enda vantaði hvorki metnað né hörku í menn eins og Trölla og Manga Jónatans.
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
- Kári og Skúli er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.


Eldhúsdagsumræður

Lýsið frá Tona og Jónda

„Ég yfirgaf ekki Rússland, Rússland yfirgaf mig“

„Við erum einu skrefi frá því að sagan endurtaki sig“
