Fara í efni
Menning

2025 – Umsvif áfram mikil í ferðaþjónustu

Stækkun Skógarbaðanna, endurreisn Niceair, vesen vegna veðurs við lendingar á Akureyrarflugvelli og hjartað í umferðarljósunum er meðal þess sem var í fréttum á árinu hjá akureyri.net í tengslum við ferðaþjónustuna. Hér fyrir neðan höfum við tekið saman nokkrar vel valdar umfjallanir. 

  • Smellið á rauða letrið til að lesa meira.

 

JANÚAR

  • AF HVERJU MISMUNANDI VERÐ?
    Umfjöllun um fríhafnarverslunina á Akureyrarflugvelli. Komu- og brottfararfarþegar í millilandaflugi nota sömu verslun en þar eru því tvö mismunandi verð á áfengi og tóbaki eftir því hvort farþegar eru að koma eða fara. 
  • Vilja bæta ásýnd og aðstöðu með smáhýsum – Hafnasamlag Norðurlands sótti um stöðuleyfi fyrir 15 smáhýsi á rútusvæði við Oddeyrartanga. Húsin voru tekin í notkun í sumar en markmiðið með þeim var að bæta aðstöðu fyrir ferðaheildsala á hafnarsvæðinu í tengslum við komur skemmtiferðaskipa. 

 

FEBRÚAR 

  • HEIM SÓLARHRING Á EFTIR ÁÆTLUN
    Ferðalangar sem flugu frá Tenerife og áttu að lenda á Akureyri fóru í óvænt ferðalag til Skotlands. Hvorki var hægt að lenda á Akureyri né Keflavík og var vélinni því snúið til Glasgow. Ferðalangarnir komust til Akureyrar sólarhring á eftir áætlum.  
  • Vél easyJet gat lent eftir langt hringsól Svartaþoka, sem lá yfir Eyjafirði, gerði erlendum flugvélum lífið leitt. Flugvél easyJet frá Gatwick flugvelli í London lenti eftir klukkustundar hringsól yfir Aðaldal og Kinnarfjöllum en vél Transavia frá Amsterdam og vél easyJet frá Manchester urðu frá að hverfa og lentu í Keflavík. 

 

MARS

  • HÓTEL Í GRÁNUFÉLAGSHÚSUNUM
    Viðtal við eiganda Bryggjan Boutique Hotel, Róbert Häsler Aðalsteinsson, um framkvæmdir í einu sögufrægasta húsi Oddeyrarinnar, Strandgötu 49. Róbert sagði m.a. í viðtalinu að nýja hótelið myndi halda í sögu hússins og útlit en á sama tíma bjóða upp á nútímalega dvöl fyrir gesti.
  • Tveggja hæða vagn rúntar um bæinn Í sumar gátu ferðamenn fengið sér far um bæinn í tveggja hæða strætó. Það er fyrirtækið Akurinn sem á rútuna en fyrirtækið hefur undanfarin ár boðið ferðamönnum upp á svokallaðar hop on hop off - ferðir um Akureyri.
  • Færri skip í ár - nýtt gjald hefur áhrif  Viðtal við Pétur Ólafsson, hafnarstjóra Hafnasamlags Norðurlands, um fækkun skemmtiferðaskipa í ár í hafnir sambandsins. Sagði Pétur nokkrar ástæður vera fyrir fækkuninni, en nýtt innviðagjald, sem var tekið upp um síðustu áramót, hefur þegar haft áhrif og gæti haft enn meiri áhrif á árið 2026 og síðan með miklum þunga 2027.

 

APRÍL

  • NÝTUR ÞESS AÐ VERA Í ÞRÓUN OG FRAMKVÆMDUM 
    Viðtal í þremur hlutum við Hjördísi Þórhallsdóttur, sem undanfarin 13 ár hefur gegnt starfi flugvallarstjóra og umdæmisstjóra Isavia fyrir Norður- og Norðausturland, en kvaddi starfið í vor. Á hennar vakt urðu miklar breytingar á vellinum og flugtengingum út í heim. Hjördís leit yfir farinn veg á tímabili mikilla breytinga og gríðarlegs vaxtar.
  • Upplýsingamiðstöðin verður áfram í Hofi – Samningur var undirritaður til þriggja ára varðandi rekstur Upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn í Hofi. Að rekstrinum standa Akureyrarbær, Hafnasamlag Norðurlands, Menningarfélag Akureyrar og verslunin Kista í Hofi. Upplýsingamiðstöðin er starfrækt á tímabilinu 1. apríl – 30. september ár hvert. 
  • Lundinn í Grímsey á undan áætlun Fyrstu lundarnir settust upp í Grímsey fyrstu dagana í apríl.  Mögulega hefur einstaklega fallegt veður um þetta leyti orðið til þess að lundarnir freistuðust til að hefja vorstörfin fyrr en ella.

 

MAÍ

 

JÚNÍ 

  • STÆRRA BAÐLÓN EKKI OPNAÐ FYRR EN Í HAUST
    Baðlón Skógarbaðanna stækkaði um helming á árinu. Upphaflega átti að opna nýja hlutann í júní en framkvæmdir drógust fram á haustið. Akureyri.net tók Sigríði Maríu Hammer, stjórnarformann og einn eigenda Skógarbaðanna, í viðtal um stækkunina og nýja vellíðunarsvæðið.
  • Fannst tímabært að opna rafskutluleigu – Fyrsta rafskutluleiga Akureyrar, Akureyri Scooters, var opnuð í júní. Leigan er til húsa á Eyrinni og hennar helstu viðskiptavinir eru farþegar skemmtiferðaskipanna.
  • Svalasti staðurinn fyrir frí án hitasvækju – Akureyri trónir efst á áhugaverðum lista sem breska ferðaskrifstofan Inghams hefur tekið saman; bærinn er sagður vinsælasti áfangastaður þeirra evrópsku ferðalanga sem kjósa að njóta frídaga sinna að sumri á kaldari stöðum en baðströndum sunnar í álfunni, þar sem fjöldinn hefur sleikt sólina síðustu áratugi.
  • Setja mætti upp fleiri sjálfu-hjartaljós í bænum Í kjölfar gagnrýni Vegagerðarinnar á rauðu hjörtun í umferðarljósum Akureyrar hefur umræðan beinst að möguleikum til að bregðast við aukinni ásókn gangandi ferðamanna í myndatökur við ljósin. 

 

JÚLÍ

  •  PLASTLUNDAR LOKKUÐU TIL VARPS
    Í sumar bárust fréttir af því að lundinn væri farinn að verpa  og gera sig heimankominn í Hrísey. Það er þó ekki af engu komið, því unnið hefur verið að því að fá lunda í eyjuna síðan árið 2019. Við ræddum við Árna Eyfjörð Halldórsson, einn eigenda hvalaskoðunarfyrirtækisins Whales á Hauganesi, sem er einn þeirra sem unnið hafa að þessu takmarki.
  • SBA keyrði 4400 farþega af skipum á einum degi – 19. júlí var stærsti skipadagur sumarsins . Fjögur skemmtiferðaskip lögðust þá að bryggjum á Akureyri og þúsundir farþega stigu á land. SBA keyrði um 4.400 farþega. 65 rútur og 130 manns voru í vinnu hjá SBA-Norðurleið við að sinna þessum fjölda, auk þess sem um 10 rútur fyrirtækisins voru í öðrum verkefnum norðanlands. Þar fyrir utan voru fleiri fyrirtæki að sinna akstri farþega skemmtiferðaskipa, þótt SBA-Norðurleið sé langstærst.

 

ÁGÚST

  • 88 % FERÐUÐUST BARA UM NORÐURLAND
    Niðurstöður könnunar  Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála sýnir að erlendir ferðamenn sem komu með beinu flugi til Akureyrar veturinn 2024-2025 fara meira um landshlutann Norðurland en aðra. Þannig skapar beina flugið raunverulega viðbót við þann fjölda sem heimsækir landshlutann.
  • Átak í skráningu gististarfsemi Akureyrarbær yfirfór opinberar skráningar á gististarfsemi í bænum í sumar til að tryggja að hún væri í samræmi við lög og reglur. Alls eru tæplega 3.000 heimagistingar skráðar á landinu og við lauslega skoðun á lista yfir skráðar heimagistingar virðast vera um 100 slíkar skráðar á Akureyri, með gistirými fyrir um 480 manns samanlagt. 

 

SEPTEMBER 

  • RAUÐU HJÖRTUN SLÁ Í GEGN
    Ferðamannavörur með umferðarljósin á Akureyri sem fyrirmynd seldust eins og heitar lummur í sumar og erlendir gestir voru duglegir að taka rauðu hjörtun með sér heim í formi segla, lyklakippna eða stutterma bola
  • Áætlað að farþegar easyJet eyði 12 milljörðum Samkvæmt skýrslu sem Ferðamálastofa birti eyddu ferðamenn sem komu með flugfélaginu easyJet til Akureyrar veturinn 2023-2024 tæplega 500 milljónum króna á ferðalögum um Norðurland. Miðað við sömu forsendur og notaðar voru í skýrslunni má áætla að veturinn 2024-2025 hafi heildareyðslan verið yfir 1.200 milljónir króna.

  • SKÓGARBÖÐIN: NÝR HLUTI TEKINN Í GAGNIÐ

    Gestum Skógarbaðanna var í fyrsta skipti hleypt í nýjan hluta þeirra að kvöldi 25. september. Baðlónið er þar með orðið liðlega tvöfalt stærra en áður; hefur verið stækkað úr 500 fermetrum í 1200.

 

OKTÓBER

  • KOMINN TÍMI TIL AÐ ICELANDAIR TAKI SKREFIÐ
    Umfjöllun um Vestnorden ráðstefnuna sem er gamalgrónasta kaupstefna ferðaþjónustunnar sem haldin er á Íslandi. Ráðstefnan var haldin í fertugasta sinn, að þessu sinni í íþróttahöllinni á Akureyri og mættu 550 gestir. Annað hvert ár er Vestnorden haldin á Íslandi og hin árin á Grænlandi og Færeyjum til skiptis. 2018 var síðast komið saman á Akureyri.

 

NÓVEMBER

  • FAGNAR STRÆTÓFERÐUM Á FLUGVÖLLINN  
    Strætóferðir á Akureyrarflugvöll hefjast á nýju ári og mun endastöð landsbyggðavagna númer 56, 57, 78 og 79, færast þangað frá Hofi. Akureyri.net ræddi við nýjan flugvallastjóra, Hermann Jóhannesson, í tilefni af þessu.
  • Umfangsmikil viðgerð á flugturninum Þakið á flugturninum á Akureyrarflugvelli var farið að leka svo ráðist var í viðgerð á turninum á árinu. Framkvæmdir töfðust þar sem þörf var á meiri viðgerðum en talið var í byrjun.

 

DESEMBER

  • NAFNIÐ FULLKOMIÐ OG ALLIR ELSKA ÍSLAND
    Flug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar í nafni Niceair hefst á ný í febrúar 2026. Hér er á ferð nýtt fyrirtæki í eigu annarra en ráku Niceair á sínum tíma, og stefnt er að því að fljúga víða um Evrópu. Forstjóri flugfélagsins hélt blaðamannafund á Flugsafninu í desember og kynnti áform sín. 
  • Dónaskapur að segja þetta flugstöð – Sverrir Páll Erlendsson fv. menntaskólakennari skrifaði pistilinn Hvenær kemur flugstöðin? og vakti hann mikla athygli og umræður á Facebook. Mörgum þykja augljósir vankantar á nýlegu húsinu.
  • Miðbærinn: verður guli ramminn færður? – Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra sendi erindi til skipulagsráðs Akureyrarbæjar þar sem óskað var eftir því að staðsetning gula rammans í Hafnarstræti yrði endurskoðuð. Ramminn hefur verið afar vinsæll fyrir myndatökur hjá ferðamönnum sem heimsækja bæinn.
  • Þvörusleikir villtist til Bretlands með easyJet – Margir nýttu sér beina flugið með easyJet á árinu, meðal annars Þvörusleikir sem komst að því að það er margt að sjá í Brighton.