Fara í efni
Fréttir

Fagnar strætóferðum á Akureyrarflugvöll

Strætó mun á nýju ári stoppa á flugvellinum á Akureyri. Stoppað verður rétt vestan við komusal millilandaflugsins.

Akureyrarflugvöllur er vel í stakk búinn til að taka á móti farþegum Strætó að sögn Hermanns Jóhannessonar, flugvallarstjóra. Fjórar strætóleiðir munu aka á flugvöllinn á næsta ári og stoppa á sérstöku strætóstæði við vesturhorn flugstöðvarinnar.

Eins og Akureyri.net hefur áður greint frá hefjast strætóferðir á Akureyrarflugvöll á nýju ári og mun endastöð landsbyggðavagna númer 56, 57, 78 og 79, færast þangað frá Hofi.

Hermann, flugvallastjóri á Akureyrarflugvelli, fagnar strætóferðum á flugvöllinn. Tengingin sé mjög þörf og styrki Akureyrarflugvöll sem samgöngumiðju á Norðurlandi. 

Nóg pláss fyrir strætófarþega í biðsal innanlandsflugs

Hermann Jóhannesson, flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli, segir að fyrirhuguð endastöð Strætó verði ekki inn í sjálfum aðkomuhringnum heldur rétt vestan við nýju flugstöðina. „Strætó mun stoppa rétt utan við hringinn, hérna á vesturhorninu á nýju flugstöðvarbyggingunni þar sem millilandaflugið er,“ segir Hermann og bætir við að fyrirkomulagið verði svona a.m.k. til að byrja með. „Og svo má auðvitað breyta því ef við sjáum að þetta gengur ekki. Við höfum fleiri möguleika, það er t.d. líka pláss fyrir einn strætisvagn beint fyrir utan aðalinnganginn en Strætó óskaði eftir þessari staðsetningu við vesturhornið. “

Ekki liggja fyrir nein áform um að byggja sérstakt skýli eða aðstöðu utandyra vegna viðkomu strætisvagnanna á flugvellinum en Hermann segir að farþegar séu velkomnir í biðsal hjá innanlandsflugi, þar sé nóg sætispláss. Kaffihúsið og önnur þjónusta flugstöðvarinnar er opið í kringum áætlunarflug en Hermann segir að það megi endurskoða opnunartíma á kaffihúsi með nýrri þörf í huga.

Þá segist Hermann ekki hafa áhyggjur af því auka álagi sem strætóferðirnar valdi á flugvellinum. „Tíminn verður bara að leiða þetta betur í ljós, en miðað við okkar reynslu af því að vera með mikið af farþegum hér á vellinum án vandamála, þá eru þetta bara gleðilegar fréttir og ég fagna þessari tengingu við flugvöllinn. Hún er bara mjög þörf og styrkir Akureyrarflugvöll sem samgöngumiðju fyrir Norðurland,” segir Hermann.